Víðimýrarkirkja,

Allt um Ísland


VÍÐIMÝRARKIRKJA
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Víðimýrarkirkja er í Skagafjarðarprófastsdæmi.  Víðimýrarkirkja var friðlýst árið 1936 og  komst þá í eigu Þjóðminjasafnsins.  Samkvæmt ákvæðum frá þeim tíma er hún einnig sóknarkirkja Víðimýrarsóknar.

Á Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari og hafa margir merkir klerkar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203 - 1237. 
Fyrstu heimildir eru frá því fljótlega eftir kristnitöku árið 1000, en hún var ekki talin sóknarkirkja fyrr en árið 1096.  Það er ekki vitað hver lét reisa kirkjuna. Húnn hefur verið nokkuð rúm, því að í henni voru sögð vera 4 ölturu, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Núverandi kirkja var byggð 1834-35.  Jón Samsonarson, alþingismaður og bóndi í Keldudal, var yfirsmiður.  Hann reisti einnig Silfrastaðakirkju árið 1842 (hún stendur nú í Árbæjarsafni í Reykjavík).  Byggingarefni var rekaviður utan af Skaga og torf úr landi Víðimýrar.  Innviðir kirkjunnar eru að mestu leyti hinir upprunalegu, en torf hefur verið endurnýjað.  Kirkjan er með spjaldþiljum í trégrind og reisifjöl á þeskju en það varð ríkjandi trésmíð á húsum hérlendis upp úr miðri 18. öld.  Á stöfnum og yfir prédikunarstól eru gluggar.  Kirkjugarður er ferhyrndur, var áður sporöskjulaga, hlaðinn úr torfi og grjóti.  Sáluhliðið er á upprunalegum stað og í því hanga klukkurnar.  Ýmsir gamlir munir eru í kirkjunni úr eldri kirkjum á staðnum, t.d. prédikunarstóllinn, sem er mjög gamall.  Altaristaflan er dönsk frá árinu 1616.

Samkvæmt Auðunar máldaga frá 1318 eru eignir kirkjunnar talsverðar.  Þá á hún land að Hóli (sennilega Kirkjuhóli), 9 kýr, 2 ásauðarkúgildi (1 kúgildi jafngildir 6 ám), og hálfan rétt á hval- og viðarreka á Hvalnesi á Skaga á móti Reynistað. Kirkjunni fylgdu 12 sóknarbæjir og á þeim eru 6  bænhús eða á öðrum hvorum bæ í sókninni.  Á Víðimýri var heimilisprestur og djákni, (djákni er prestur sem ekki er búið að vígja til starfs) og áttu þeir líka að þjóna  bænhúsum í sókninni.

Árið 1318 átti kirkjan m.a. eftirtalda gripi: glergluggi, tveir stólar og ein sessa, margar messusöngsbækur, tjöld um kirkjuna, skírnarfontur og margt fleira.  Máldagi  Péturs biskups frá 1460 til 1495 er nokkuð samhljóða Auðunar máldaga, en líkneskjum í eigu kirkjunnar hefur fjölgað. Þá á hún líkneski af heilagri Maríu, Pétri postula, heilagri Katrínu, heilögum Þorláki og alabasturslíkneski af Maríu mey. Bókaeignin var þá: Grallari (sálmasöngsbók), sálmakver með biblíulestrum frá aðventu til páska og um trinitatis, sumarlesbók, sögubók, lesbók helguð Maríu Magðalenu og Maríumessu, saltari, kiriall (miskunnarbæn) og Péturssaga.


Trú á kraft líkneskjanna var mikil í kaþólskum sið, bæði fyrir menn og skepnur eins og sagt er frá í biskupssögu Guðmundar Arasonar. Þar segir frá því að Kolbeinn Tumason, bóndi á Víðimýri hafi átt gersemisgóðan hrút sem fengið hafði kringlusótt og var dauðvona. Fékk Kolbeinn þá Guðmund til að syngja yfir hrútnum,  bar Guðmundur  á hann vígt vatn og setti líkneski af Jóhannesi skírara milli hornanna á hrútnum og varð hann þá alheill. (Kringlusótt í sauðfé var það sama og höfuðsótt, sem orsakast af sulli við heilann).

Víðimýri kemur víða við sögu í gegnum aldirnar.  Í Sturlungu segir, að Kolbeinn Tumason hafi stuðlað að því, að Guðmundur prestur Arason var kjörinn biskup á Hólum.  Guðmundur vildi ekki verða biskup, en Kolbeinn vann ötullega að því vegna þess, að hann ætlaði sér að njóta góðs af  tengslum sínum við Guðmund, þegar hann yrði kominn í biskupsembættið.

Svo fór að Guðmundur var kjörinn biskup 14. október árið 1201 og af því tilefni bauð Kolbeinn honum í veizlu að Víðimýri og þjónaði honum sjálfur til borðs. Kolbeinn hafði lagt slitinn dúk á borðið og var að afsaka það við Guðmund, þegar Guðmundur svaraði því til, að ekki sakaði um dúkinn, en þar eftir mundi fara biskupsdómur hans, svo myndi hann verða slitinn sem dúkurinn.  Sú varð raunin á.  Samskiptum þeirra Kolbeins og Guðmundar lauk með fullum fjandskap og falli Kolbeins í Víðinesbardaga árið 1208.  Kolbeinn var á sinni tíð eitt mesta skáld þjóðarinnar og er merkilegt að enn, eftir 800 ár, er sunginn í kirkjum landsins sálmurinn sem hann orti rétt fyrir andlát sitt, Heyr himnasmiður.

Sætaskipan í kirkjum hefur breytzt frá fyrri tíð.  Samkvæmt fornri venju sátu konur norðan megin og karlar að sunnanverðu, hinir ríkustu innst og hinir fátækustu fremst.  Húsbændur á Víðimýri sátu inni við kór að norðanverðu.

Víðimýrarkirkja er „einn stílhreinasti og fegursti minjagripur íslenzkrar gamallar byggingarlistar, sem til er”, sagði Kristján Eldjárn heitinn, fyrrum þjóðminjavörður og forseti Íslands

NORÐURLAND SAGA OG MENNING
 


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM