Eyrarbakkakirkja,

Meira um Ísland


EYRARBAKKAKIRKJA
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Eyrarbakkakirkja er í Eyrarbakkapresta-kalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var vígð árið 1890, en fram að því áttu Eyrbekkingar kirkjusókn á Stokkseyri.  Árið 1890 var íbúafjöldi Eyrarbakka 702, sem var ástæða skiptingar sóknarinnar.  Séra Jón Björnsson var aðalhvatamaður byggingar kirkjunnar.  Hún varð ekki sóknar- og graftarkirkja fyrr en 1894.  Jóhann Fr. Jónsson teiknaði kirkjuna.  Hann var helzti smiður Eyrarbakka á árunum 1880-90.  Útlendingakirkja mun hafa verið á Eyrarbakka í katólskum sið.

Kirkjan tekur 230-40 manns í sæti.  Upprunalega var há járnstöng með veðurvita á turni kirkjunnar, en nú er þar ljóskross.  Guðmundur Daníelsson, rithöfundur, kallaði vindhanann „Járnblómið”.

Einar Herjólfsson, sem kom með svartadauða í Hvalfjörð 1402, var veginn í gamla kirkjugarðinum árið 1412. Útkirkjur eru á Stokkseyri og í Gaulverjabæ.
Friðuð 1. janúar 1990.

Sögufrægasti gripur kirkjunnar er altaristaflan, mynd af Jesú á tali við samversku konuna við Jakobsbrunninn (Jóh. 4, 13-14).  Undir henni stendur: „Hver sem drekkur af því vatni, sem ég mun gefa honum, hann mun aldrei að eilífu þyrsta."  Séra Jón Björnsson sigldi m.a. í erindum kirkjubyggingarinnar til Kaupmannahafnar til þess að útvega kirkjuviðinn. Hann gekk á fund konungs og drottningar og fékk svo góðar viðtökur, að Louise, drottning Kristjáns konungs IX., gaf kirkjunni altaristöflu, sem hún hafði sjálf málað.  Nafn drottningar er á töflunni og ártalið 1891. Drottning var listfeng og er kunnugt um altaristöflur eftir hana í þremur kirkjum í Danmörku (Gentofte, Klitmøller og Lundø).

Kirkjan á kertastjaka úr Kaldaðarneskirkju, sem var lögð niður 1902.  Þeir bera ártalið 1780 og stafina E.S.S. og eru greinilega íslenzk smíð og handunnir.  Ljósakrónan í kór kirkjunnar er einnig úr Kaldaðarneskirkju.  Stundaklukka var sett upp í turni kirkjunnar árið 1918 (slær á heilum og hálfum tíma).  Jakob A. Lefolii, kaupmaður gaf hana.

Árið 1977 var hafizt handa við miklar endurbætur á kirkjunni og þeim lauk tveimur árum síðar.  Árið 1995 var nýtt, íslenzkt, tveggja radda pípuorgel tekið í notkun.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM