Þjóðkirkjan,

Meira um Ísland

Klaustur á Íslandi

ÞJÓÐKIRKJAN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Kristið fólk hefur búið á landinu allt frá upphafi byggðar þess.  Talið er, að fyrstu landnemarnir hafi verið írskir einsetumunkar.  Þegar landnám hófst frá Norðurlöndum flutti fólkið með sér heiðna trú, þótt nokkrir landnámsmanna hafi verið kristnir.  Þjóðfélagsskipan byggðist á heiðnum sið í fyrstu, en ekki leið á löngu þar til kristniboðar komu til landsins með misjöfnum árangri.  Ekki er annað að sjá af sögunni en umburðarlyndi í trúmálum hafi ríkt hérlendis að mestu leyti.  Heiðnir völdu sér uppáhaldsguði sína úr stórum flokki og kristnir fengu að vera í friði með sína trú.  Það fór ekki að skerast í odda með fylkingunum fyrr en Noregskonungar fóru að hafa meiri afskipti af högum manna hérlendis og gíslar voru teknir til að knýja Íslendinga til kristni.  Því má segja með nokkrum sanni, að ákvörðun Þorgeirs Ljósvetningagoða hafi verið knúin fram og meira stjórnmálalegs en trúarlegs eðlis.  Þetta gerðist árið 1000, sumir segja 999, og síðan hefur íslenzkt þjóðfélag verið kristið og byggt skipulag sitt á kristnum siðum.

Katólska kirkjan var allsráðandi í Evrópu við kristnitökuna og rúmri hálfri öld eftir kristnitökuna var fyrri biskupsstóll landsins stofnaður (Skálholt 1056)
.  Skálholt varð að miðstöð trúarlífs, menningar, mennta, stjórnmála og valds þar til báðir biskupsstólarnir (Hólar 1106) voru lagðir niður og landið gert að einu biskupsdæmi með biskupssetur í Reykjavík í lok 18. aldar.  Ákvörðun um flutning biskupssetranna og sameiningu byggðist á árferðinu í landinu í lok 18. aldar.  Það var efnahagshrun vegna náttúruhamfara og kirkjan í Skálholti hrundi í landskjálftum 1784.  Katólsk kristni var við lýði fram að siðaskiptunum 1540-1550.  Aðeins einn hinna helgu manna katólskunnar hérlendis, Þorlákur Þórhallsson (1133-1193), biskup í Skálholti, var kanóníseraður og viðurkenndur verndardýrlingur Íslands.  Tvær messur eru helgaðar honum, 20. júlí og 23 desember.  Mikil helgi var einnig á Hólabiskupunum Jóni Ögmundssyni (1106-1121) og Guðmundi Arasyni (1203-1237).

Bókmenntaiðja kirkjunnar, ekki sízt klaustranna, kom sér vel fyrir Íslendinga, því að þannig varðveittust sögur og helgirit.  Þýðingar biblíunnar á íslenzku styrktu varðveizlu þjóðtungunnar, ýttu undir bókmenntaáhuga og enn þá eimir eftir af sálmum frá katólskum tíma í sálmabókum samtímans.  Oddur biskup Gottskálksson þýddi og gaf út Nýja testamentið 1540 og Guðbrandur biskup Þorláksson gaf út biblíuna 1584 og sálmabók 1589.  Skáldin tóku við sér og hámarkinu var náð í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar (1614-1674).  Jón biskup Vídalín (1698-1720) samdi postillu, sem varð vinsæl til húslestra allt fram á 20. öld.

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga hófst á 19. öld og varð að þjóðarvakningu fyrir tilstuðlan margra lærðra og leikra.  Skozki presturinn Ebeneser  Henderson hvatti til stofnunar Hins íslenzka Biblíufélags 1815 og Prestaskólinn var stofnaður 1847.  Hann var í raun og veru fyrsta skrefið á leið til stofnunar Háskóla Íslands (1911).  Kristján konungur hinn IX færði Íslendingum fyrstu stjórnarskrána árið 1874 og þar var trúfrelsi landsmanna tryggt.  Mörg lög, sem byggðu á henni, höfðu mikil áhrif á starfsemi kirkjunnar í lýðræðisátt.  Fremstu skáld þjóðarinnar lögðu sitt af mörkum í nýrri sálmabók 1886.  Ný biblíuþýðing kom út 1912 og var endurskoðuð 1981.  Séra Friðrik Friðriksson stofnaði KFUM í lok 19. aldar.  Ný stefna í guðfræði í upphafi 20. aldar olli miklu írafári og deilum, einkum varðandi róttæka textagagnrýni og játningar kirkjunnar.  Guðspeki, andatrú og sálarrannsóknir komust á legg og tengdust hinni nýju guðfræði.  KFUM og K og önnur kristniboðsfélög stóðu gegn þessum stefnum og deilurnar héldu áfram fram á sjöunda áratuginn.   Kóra- og barnastarf kirkjunnar efldist mjög um miðja öldina og stendur styrkum fótum nú ásamt öðru safnaðastarfi.

Fríkirkjusöfnuðir voru stofnaðir fyrir og eftir aldamótin 1900 á nokkrum stöðum, einkum vegna ósamlyndis um embættisveitingar og tregðu kirkjunnar til að bregaðst við búsetubreytingum.  Þessir söfnuðir eru tveir, í Reykjavík og Hafnarfirði.  Þeir byggja á sömu siðum og þjóðkirkjan og fá presta sína frá henni en eru stjórnunarlega sjálfstæðir.  Á síðari hluta 19. aldar hóf katólska kirkjan trúboðsstarf hérlendis og byggði spítala.  Upp úr því starfi spratt hinn vaxandi fjöldi katóskra.  Hjálpræðisherinn haslaði sér völl skömmu fyrir aldamótin 1900, sem og trúboð sjöundadags aðventista og síðar hvítasunnumenn.

Hlutverk kirkjunnar hefur breytzt verulega frá því að bændaþjóðfélagið leið undir lok.  Fólk er ekki eins einslitt og menntun, menning og siðir hafa tekið á sig allt aðra mynd.  Mikill meirihluti Íslendinga tilheyrir þjóðkirkjunni.  Hátíðir og helgidagar hennar setja áberandi svip á dagatalið og gera kirkjuna að nauðsynlegri akkerisfestu í lífi fólks.  Sóknarkirkjur eru oft mikilvæg kennileiti en trú- og kirkjurækni landsmanna er ekki jafnáberandi.  Margir líta á trúmál sem einkamál og bera þau ekki gjarnan á torg.  Talið er að u.þ.b. 12% landsmanna sæki kirkju nokkuð reglulega og foreldrar kenni börnum sínum bænir og góða siði, auk þess barnastarfs, sem kirkjan stendur fyrir.  Kirkjur landsins eru þéttsetnar um hátíðir.

Straumhvörf urðu í málefnum þjóðkirkjunnar 1. janúar 1998, þega ný lög um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar gengu í gildi.  Með þeim fékk kirkjan meira frelsi frá ríkisvaldinu og sjálfstæði í innri málum.  Kirkjuþing sækja 21 kjörnir fulltrúar, þ.e. 9 prestar og 12 leikmenn, og ákveða starfshætti og skipulag kirkjunnar innan ramma laganna.  Biskup landsins er forseti Kirkjuráðs.  Hann kallar saman presta landsins ár hvert til prestastefnu, sem fjallar um málefni kirkjunnar og samfélagsins.  Vígslubiskupar sitja á hinum fornu biskupsstólum og hafa umsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum.  Sóknin er grunneining og sóknarkirkjurnar eru sjálfseignarstofnanir í vörzlu sóknarnefnda.  Starfsemi hverrar sóknar byggist á helgihaldi, fræðslu, kærleiksstarfi, barna- og æskulýðsstarfi.  Fjöldi starfandi presta er u.þ.b. 150 og djáknar eru 10.  Sérþjónustu á sjúkrahúsum, í fangelsum og fyrir heyrnarlausa annast 10 prestar og mismargir prestar annast þjónustu við Íslendinga erlendis.  Margt guðfræðimenntað fólk stundar framhaldsnám erlendis.

Þjóðkirkjan er í Lúterska heimssambandinu og Alkirkjuráðinu og á aðild að Porvoo-samkomulaginu milli lúterskra kirkna Norðurlanda/Eystrasaltslanda og anglíkönsku kirkjunnar á Bretlandseyjum um gagnkvæma viðurkenningu.  Kristniboðssambandið hefur rekið trúboð í Kína, Eþíópíu og Keníu og Hjálparstofnun kirkjunnar veitir umfangsmikla neyðarhjálp innanlands og stundar þróunar- og hjálparstörf í Afríku og Indlandi.

Pistill eftir biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM