Gönguleiðir austurland Hallormsstaðarskógur,

Gönguleiðir Ísland


GÖNGULEIÐIR Á AUSTURLANDI
MERKTAR GÖNGULEIÐIR Í HALLORMSSTAÐARSKÓGI
KORT

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

[Flag of the United Kingdom]
In English

 

LJÓSÁRKINN 
Fylgið stikum með gulum lit  – 850 metrar  –
Ofan þjóðvegar, 500 metrum innan við Atlavík er gönguleið upp Ljósárkinn utan Ljósár. Gengið er upp að Ljósárfossi, 16 m háum fossi í Ljósá. Kletturinn utan við fossinn er rúmir 20 m á hæð. Neðar í ánni er lítill foss, um 3ja m hár. Á leið upp má sjá ýmsar trjátegundir gróðursettar á árunum 1965-67 s.s. lindifuru frá Krasnojarsk í Síberíu, stafafuru frá Skagway í Alaska, hvítgreni frá Alaska. Í brekkunni á vinstrihönd er eitt beinvaxnasta rússalerki í Hallormsstaðaskógi, frá Arkangelsk og þar ofar bergfura. Botngróður er fjölbreyttur en þar má finna meðal annars sjöstjörnu, hún er 5-15 sm á hæð og blómgast í júlí. Farið er sömu leið til baka niður á þjóðveg.

JÖKULLÆKUR
Fylgið stikum með brúnum lit  – 200 metrar –
Gengið er frá þjóðvegi rétt innan Atlavíkur upp með Jökullæk, gegnum lerkilund að rauðgreni frá 1908. Þar fyrir ofan er safn margra tegunda frá 1963 s.s. fjallaþinur, blágreni, marþöll, hvítgreni, döglingsviður, stafafura og risalífviður. Þar í rjóðri er áningastaður. Gengið er til baka sömu leið niður á þjóðveg.

ATLAVÍKURSTEKKUR – JÓNSSKÓGUR  
Fylgið stikum með rauðum lit  –  1,5 km –
Gönguleið ofan þjóðvegar, upp af Atlavík.  Fyrst er komið í lerkilund frá 1937, þar eru hæstu tré yfir 20 metra, einnig má sjá fjallaþöll og ofar marþöll. Ofan við lundinn eru rústir af stekk. Frá Atlavíkurstekk er gengið uppá við, með skógar- og stafafuru á vinstri hönd og komið upp í reit með ýmsum trjátegundum gróðursettum 1940 þar m.a. döglingsviður (oregon pine). Næst er komið í lerkilund frá 1957.  Má þar sjá sjöstjörnuna í breiðum á blómgunaratíma. Útsýnis- og áningastaður er á klettinum til vinstri, sjálfsánar stafafuru- og lerkiplöntur á svæðinu. Úr lerkilundinum er gengið áfram upp og út yfir Króklæk og Kerlingarmel í Jónsskóg frá 1951.  Jónsskógur var fyrsta gróðursetning á lerki eftir að Guttormslundur var gróðursettur 1938.  Áfram er haldið út Selveg, yfir Kerlingará fram hjá rauðgrenilundi, gróðursettum 1970, og til vinstri niður á þjóðveg.  Af þjóðvegi má fara niður í Trjásafn og ganga grænu leiðina, inn í Atlavík  eða út að Söluskála.

ATLAVÍK – TRJÁSAFN – SÖLUSKÁLI
Fylgið stikum með grænum lit  – 1.5 km  –
Utarlega í Atlavík er gengið upp all bratta brekku, eftir stíg er liggur í Trjásafnið. Úr Trjásafninu liggur göngustígur út svæði er nefnist Lambaból og þaðan upp á þjóðveg við Sölulskála.

ÁLEIÐIS UPP REMBU  -  (Hvítt)
Fylgið stikum með hvítum lit –  1,8 km –    1½ til 2½ tímar.
Gangan hefst hjá íþróttahúsinu við Hallormsstaðaskóla, fyrri hluti leiðarinnar er dálítið á fótinn. Haldið er sem leið liggur upp á Neðri-Kistukletta, sveigt inn fyrir Kistu og upp á Efri-Kistukletta, að Lambafossi 21 metra háum fossi er fellur niður klettavegginn í Staðarárgil.  Lengja má gönguna upp með Staðará að gamalli stíflu í ánni þaðan sem vatn var leitt í 27 Kw rafmagnsvirkjun er stóð undir Neðri-Kistuklettum og sá Hússtjórnarskóla og Hallormsstaðabæ fyrir rafmagni árin 1936-1955. Til baka frá Lambafossi er farið niður meðfram Staðarárgili. Gætið varúðar á gilbarminum. Farið er um Efri-Kistukletta niður á Neðri-Kistukletta og komið niður að íþróttahúsi. Leiðin býður upp á fagurt útsýni yfir Hallormsstað, Lagarfljót og til Fljótsdals.  Fjallshlíðin innan við Staðará heitir Hádegisfjall. Remba er nafn á gamalli gönguleið upp Hádegisfjall. Um Rembu og áfram yfir Hallormsstaðaháls að Mýrum í Skriðdal var oft farið áður fyrr.

HALLORMSSTAÐAHÁLS  - 
Fylgið stikum með appelsínugulum lit –  7 km yfir í Skriðdal – 3 til 4
tímar. – Skriðdalsvegur nær upp í 450 m hæð.
Auðrötuð og sæmilega greiðfær gönguleið á milli Hallormsstaða og Geirólfsstaða í Skriðdal. Fjölfarin leið fyrrum m.a. vegna kirkjusóknar að Hallormsstað. Kaupstaðaleið var frá Upp-Héraði til Skriðdals og þaðan um Þórudalsheiði á Reyðarfjörð.

Gengið er upp frá Hússtjórnarskólanum út og upp Hóla og áfram gömlu reiðgöturnar neðan við Hallormsstaðabjarg og upp á “Bjargið” fyrir ofan skóginn. Af Bjarginu er fagurt útsýni inn til Snæfells, yfir skóginn og Fljótið. Þeir sem vilja halda áfram yfir hálsinn, fylgja stikaðri leið að þjóðvegi utan við Geirólfsstaði í Skriðdal.

HÓLAR –
Fylgið stikum með bláum lit – um 5 km –
2 til 3 tímar
Lagt er af stað frá Hússtjórnarskólanum upp nokkuð bratta brekku. Gengið er upp og út Hóla, framhjá háum steindrangi er ber heitið Kerling, Hólasvæðið er framhlaup úr fjallinu fyrir ofan.  Úr Hólunum er komið í Flataskóg. Þar er fallegur og hávaxinn birkiskógur sem fróðlegt er að skoða, ekki síst fjölbreyttan botngróður -frá Flataskógi má ganga út í PART, gul leið-. Úr Flataskógi er gengið út á Lýsishólssvæðið, þar af Fálkakletti er fagurt útsýni  Áfram er haldið inn og niður í gegnum greniskóg og komið á opið svæði. Þaðan má sjá niður á Ormsstaðahól neðan þjóðvegar. Þegar komið er niður undir asparlundinn er gengið til vinstri, inn á Hólasvæðið og sem leið liggur til baka niður að Hússtjórnarskólanum.  Lengja má gönguna með því að rölta niður á Ormstaðahól og njóta útsýnis. Á Ormstöðum bjó Helgi Ásbjarnarson sem getið er í Droplaugarsonasögu.

PARTUR  - 
Fylgið stikum með gulum  lit –  3 km –  2 til 3
tímar.  
Svæðið milli Hafursár og Borgargerðislækjar nefnist Partur. Gangan hefst ofan þjóðvegar við Hafursá. Komið er upp á malborinn skógarveg með hvítgrenilund á hægri hönd, mikið er af sjálfsánum reynivið í jaðri skógarins. Gengið er upp undir raflínu og inn með henni þar er beygt til vinstri gegnum blandaðan barrskóg og komið að vegamótum. Þar haldið til vinstri út að áningarstöðum með útsýni niður í Hafursárgil, út yfir Hafursárskóg og norður yfir Lagarfljót.  Frá útsýnis- og áningastöðunum er haldið til baka inn skóginn þar til komið er á malborinn skógarveg  -þar til vinstri er tenging yfir í HÓLA, blá leið- haldið er til hægri niður á við og komið að lundi með evrópulerki frá Sviss, fræinu safnað í 1.850 m hæð. Neðan við evrópulerkið er fallegur hvammur, þar góður áningastaður. Leiðin liggur nú niður á við, sjá má síberíulerki frá 1959 á hægri hönd og norskt rauðgreni frá 1958 á vinstri hönd.  Beygt er til vinstri út af malborna skógarveginum og haldið niður undir þjóðveg ofan Langasands, þar haldið til hægri og gengið út ofan þjóðvegar og komið inn á upphafsleiðina, þá til vinstri niður að þjóðvegi þar sem gangan hófst.

TRJÁSAFNIÐ í Mörkinni – Að tilstuðlan Carls Ryders dansks skipstjóra var árið 1903 komið á fót gróðrarstöð á afgirtu svæði er Mörk nefnist. Í áranna rás hafa einstök tré og þyrpingar af ýmsum trjátegundum víðsvegar úr heiminum verið gróðursett til reynslu  í Mörkinni og mynda nú hið merkasta trjásafn, má finna þar yfir 80 trjátegundir. Merkingar um aldur og uppruna eru við hinar ýmsu tegundir.
Auk gróðurs eru í Trjásafninu hlaðnar steinbrýr yfir læki, minnisvarði um skáldið Þorstein Valdimarsson frá Teigi í Vopnafirði, grasflatir, bekkir og borð. Farið er í Trjásafnið í Mörkinni frá bílastæði við þjóðveginn, fylgið göngustígunum.

GUTTORMSLUNDUR – Lerkilundur innan við Atlavík, 0,7 ha að stærð, gróðursettur 1938. Sjá má sjálfsánar lerkiplöntur neðan og ofan við lundinn.

Margt áhugavert er að skoða í Hallormsstaðaskógi, góðir götuslóðar eru um birkiskóginn sem öllum er frjálst að ganga um. Þar má finna fagra trjálundi af ýmsum tegundum og fjölbreyttan gróður í skógarbotninum, falleg rjóður og læki.  Síðla sumars og fram á haust má tína ber og sveppi s.s. hrútaber og bláber. Af sveppum er helst að telja lerkisvepp sem fylgir lerkinu og kúalubba í birkiskóginum. Á haustin skartar skógurinn fögrum haustlitum.

Fuglalíf er fjölskrúðugt. Sjá má glókoll sem er minnstur skógarfugla, músarindil, auðnutittling, hrossagauk, maríuerlu, skógarþröst, hrafn og rjúpu. Af flækingsfuglum hafa sést m.a. skógarsnípa, fjallafinka, svartþröstur, bókfinka, hringdúfa, silkitoppa, múrsvölungur, glóbrystingur,  gaukur, land- og bæjasvala.

Lagarfljót. Frá upptökum Jökulsár í Fljótsdal til ósa Lagarfljóts eru 140 km –  “Fljótið”, 35 km langt stöðuvatn, mesta breidd 2,5 km, yfirborð 53,2 ferkm, vatnshæð 20,5 m yfir sjávarmál, mesta dýpi 112 m, meðaldýpi 50,7 m. Gömul trú er að skrímsli haldi sig í Lagarfljóti. Nefnist það Lagarfljótsormurinn. Rölta má um fjörur Lagarfljóts á lygnum sumarkvöldum og huga að “Orminum”.

Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!


Göngum vel um skóginn og hafið eftirfarandi í huga:
1.Tjöld og svefnbílar aðeins á merktum svæðum
2. Hlífið gróðri, kveikið ekki elda
3. Akið ekki um skógarstígana
4. Skiljið ekki eftir rusl á víðavangi.

Gönguleiðabæklingur er fáanlegur í skóginum.
Verið ávallt velkomin í Hallormsstaðaskóg

Efst á síðu

Birt með leyfi Skógræktar ríkisins
Vefsetur Skógræktar ríkisins

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM