Gönguleiðir á austurlandi víknaslóðir 15,

Gönguleiðir Ísland

GPS

GÖNGULEIÐIR Á AUSTURLANDI
VÍKNASLÓÐIR 15

15. Unaós - Stapavík - Njarðvík
15a. Unaós - Stapavík.
1,5 klst. 5 km.

Létt ganga í fallegu umhverfi út með Selfljóti.

Létt ganga frá Unaósi út með Selfljótinu.   Á leiðinni má m.a. sjá fallegar veghleðslur með kerruvegi sem gerður var á fyrri hluta 20. aldar.   Eiðaver er rétt innan við ósinn.   Þar hafði Margrét ríka á Eiðum í veri á 16. öld.  Þar mótar fyrir rústum og þar rétt hjá eru beitarhústóftir frá Unaósi.   Þar nálægt má finna mjög sjaldgæfar plöntur svo sem maríuvött, súrsmæru, gullsteinbrjót og brenninetlu.

Krosshöfði er við ósa Selfljótsins.  Þar var verslunarstaður í byrjun 20. aldarinnar og þar og í Stapavík, aðeins utar með ströndinni, var skipað upp vörum til úthéraðsmenna fram á fimmta tug aldarinnar.   Ennþá má sjá tóftir og mynjar frá þessum tímum.

15b. Stapavík – Njarðvík. 2 - 2,5 klst.

Nokkuð létt ganga um Gönguskarð (415 m), að stórum hluta eftir gömlum reiðleiðum. Þetta var aðalleiðin milli Borgarfjarðar og Héraðs þar til akvegur kom um Vatnsskarð árið 1955.

Úr Gönguskarði sér vel norður eftir ströndinni alla leið til Langaness.  Brött skriða er niður í Göngudal og talsverðar bleytur eru ofarlega í dalnum.  Hoppa þarf yfir Göngudalsánna á góðu vaði.  

Þegar komið er niður að girðingu er haldið út með henni og gengið meðfram hlöðnum torfgarði, Þorragarði, sem talið er að hafi verið hlaðinn rétt fyrir árið 1000.   Um hann getur í Gunnars sögu Þiðrandabana en sögusvið hennar er einmitt í Njarðvík og á þessari gönguleið.  Við enda Þorragarðs er stórt upplýsingaskilti sem segir frá tilurð garðsins.   Garðurinn endar við bæinn Hlíðartún og oftast fara menn í bíla hér.

Við mælum með að þið kynnið ykkur Gunnars sögu ef þið gangið þessa leið.   hana finnið þið á síðunni okkar undir
FORNSÖGUR.

Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug


Ferðaheimur


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM