Jarðfræði Íslands

ATLANTSHAF III TSUNAMI    

ATLANTSHAF II
.

.

Ferðaáætlanir

Rútur-Ferjur-Flug

 

Yfirborðsstraumar.  Yfirborðsstraumar Atlantshafsins eru yfirleitt í samræmi við ríkjandi vindáttir en stýrast vitaskuld af strandlagi aðliggjandi meginlanda og eyja.  Aðrir þættir, sem hafa áhrif á straumastefnur, eru uppgufun eða úrkoma, hitamunur hafsvæða, núningsmótstaða og snúningur jarðar.

Norður-Atlantshaf
.  Staðvindarnir, sem viðhalda nokkuð stöðugum straumi frá austri til vesturs, hafa aðhald frá uppsöfnun hlýs sjávar að norðanverðu. Mikið magn sjávar berst með þessum straumi inn í Karíbahafið og gegnum Yukatansund í Mexíkóflóa.  Framhald hans, Flórídastraumur, fer um Flórídasundin.  Þar sameinast hann á ný kvíslinni, Antillestraumnum, sem fer austan Antilleeyja og myndar Golfstrauminn fyrir austurströnd BNA.  Golfstraumurinn liggur meðfram ströndinni að Hatterashöfða, þar sem hann fjarlægist hana og sveigir æ meira til austurs sunnan Grand Bank á 40°N.  Þegar lengra kemur verður Golfstraumurinn nokkuð óljós.  Hluti hans sveigir til suðurs og myndar hluta hringstraumanna í Saragossahafi (milli Vestur-Indía og Asoreyja), þar sem er yfirleitt rólegt í sjóinn.  Lítið eitt kaldari sjór heldur áfram í átt að ströndum Evrópu undir nafninu Norður-Atlantshafsstraumurinn.  Það litla, sem eftir er, heldur áfram alla leið að Spitzbergen.

Kaldur og saltlítill sjór streymir suður frá Íshafinu meðfram austurströnd Grænlands (Austur-Grænlandsstraumurinn), þar sem hann blandast smám saman hlýrri sjó að sunnan.  Þessi straumur heldur áfram fyrir suðurodda Grænlands (Farvel-höfða) og upp með vesturströndinni, þar sem hann snýr við eftir að hafa tekið til sín kaldan sjó frá Baffinsflóa og streymir suður á bóginn sem Labradorstraumurinn.  Sunnan Grand Bank, þar sem þessi kaldi sjór blandast Golfstraumnum, heldur hann áfram til austurs og blandast Atlantshafinu.  Á veturna kólnar þessi blandaði sjór (35‰ saltur) enn kaldari sjó og verður 3°C.  Þetta hitastig nægir til þess að þessi kaldi þéttist og sekkur til botns og streymir þar til suðurs.  Svipað gerist norðan Íslands á veturna en þar er sjórinn nokkuð kaldari, –1°C.  Hann sígur til botns í djúpu Noregshafinu en kemst ekki aftur norður vegna fyrirstöðu Íslands-Færeyja- og Íslands-Grælandshryggjanna.  Eftir nokkra blöndun blandast þessi kaldi botnsjór Atlantshafinu.

Í suðausturhluta Norður-Atlantshafsins flæðir yfirborðssjór inn í Miðjarðarhafið um Gíbraltarsund og saltríkur botnsjór úr Miðjarðarhafinu um botn sundsins og dreifist vítt.  Kanarístraumurinn kvíslast suður úr Norður-Atlantshafi og streymir til suðvesturs meðfram vesturströnd Norðvestur-Afríku.  Sjávarhitinn er lágur meðfram Afríkuströndum vegna uppstreymis af völdum vestanvindanna fyrir ströndinni.  Þessi sjór heldur áfram til vesturs, yfir suðurhluta Norður-Atlantshafsins sem hluti hins hlýja Norður-Miðbaugsstraums, sem snýr til norðvesturs sem Antillestraumurinn og lokar hringrásinni um Norður-Atlantshafið.


Suður-Atlantshafið.  Straumakerfi Suður-Atlantshafsins eru að mörgu leyti líkt hinu norræna.  Suðaustur staðvindarnir halda Suður-Miðbaugsstraumnum við.  Hann streymir til vesturs, þar sem hann klofnar í tvær kvíslar.  Önnur heldur áfram til norðurhvelsins og fer inn í Karíbahafið ásamt litlum hluta Norður-Miðbaugsstraumsins sem Guanastraumurinn og hin sveigir til suður sem Brasilíustraumurinn, veikburða mótpartur Golfstraumsins.  Milli miðbaugsstraumanna og andstrauma þeirra í austri er Gíneustraumurinn.  Sunnan háþrýstibeltisins, streymir Brasilíustraumurinn til austurs og verður að Suður-Atlantshafsstraumnum, sem síðan snýr í átt að miðbaug sem Benguela-straumurinn við Afríkuströnd.  Hann er skýrar markaður en en mótpartur hans á norðurhveli, Kanarístraumurinn, og kaldari við ströndina, einnig vegna mikils uppstreymis.  Sunnar flæðir Suðupólsstraumurinn inn í Atlantshafið um Drakesund, þaðan sem tvær kvíslar, Falklandsstrauminn (mótpartur Labradorstraumsins), sem streymir með austurströnd Argentínu, og aðalkvíslin heldur áfram til austurs inn í Indlandshaf.

Djúpstraumar
.  Djúp- og botnsjór Norður-Atlantshafsins verður til fyrir niðurstreymi yfirborðssjávar milli Íslands og Grænlands og í Labradorhafi, þaðan sem hann dreifist til suðurs.  Á 1000-2000 m dýpi flæðir sjór út úr Miðjarðarhafi, dreifist og myndar hámarksseltu á vissu bili.  Þegar fjær dregur Miðjarðarhafinu, dregur úr seltunni vegna blöndunar en merki um Miðjarðarhafssjóinn má finna allt suður á 40°S.

Botnsjórinn frá Suðurskautinu er –0,6°C og nær seltustiginu 34,6‰.  Hitastig þessa sjávar er svo lágt, að þéttleiki hans er meiri en á dýpstu stöðum í norðurhlutanum.  Þessi sjór flæðir norður að 40°N.  Sjórinn fer að streyma niður við 50°S og færist til norðurs sem saltlítill sjór.  Hluti hans fer líka suður fyrir miðbaug og merki um hann finnast við 20°N.  Mikið magn þessa Suðurskautssjávar og sjávarmassanna norðar blandast djúpsjó Norður-Atlantshafsins og snýr aftur suður á bóginn, þar sem það streymir upp á bilinu 50°S-60°S.  Með uppstreyminu berst gróðurnæring (þ.m.t. fosföt) til yfirborðsins.  Þessi hringrás er meginástæðan fyrir hinu mikla dýralífi og frjósemi í Atlantshafinu.  Djúpsjórinn er súrefnisríkur vegna hinnar hröðu hringrásar.


Sjávarföll Atlantshafsins hafa verið rannsökuð frá örófi alda.  Miðaldamunkar skráðu þau við Englandsstrendur frá árinu 600 og skildu mætavel, að þau áttu skýringu í stöðu sólar og tungls.  Notkun nútíma tækja til þessara og annarra skyldra mælinga hafa dýpkað skilning manna á þessu náttúrufyrirbæri.

Sjávarföllin í bugðóttu Atlantshafinu eru lík einni stöðugri bylgju, sem fer um hafsvæðið.  Hraði, stefna, víddir og hegðun sjávarfallanna er háð mörgum flóknum þáttum, sem taka til lögunar strandlengju, landslagsins á sjávarbotni og vind- og straummunstra.  Langalgengustu sjárvarföllin eru hin dægurskiptu, þ.e. flóð og fjara tvisvar á hverjum 24 klst. og 50 mínútum.  Slík sjávarföll eiga sér stað meðfram allri austurstönd Atlantshafsins og víðast með ströndum Norður- og Suður-Ameríku.  Blönduð sjávarföll, bæði einu sinni eða tvisvar á sólarhring, eru ríkjandi í Mexíkóflóa og Karíbahafi og sums staðar með ströndum Brasilíu og við Eldland, sums staðar í Miðjarðarhafi og meðfram ströndum Labrador.  Einu staðirnir með hreinu 24 klst. og 50 mínútna bili flóðs og fjöru eru við Mexíkóflóa.

Sjávarfallabil og munstur á mismunandi stöðum í kringum Atlantshafið eru víða mjög afgerandi.  Slík dæmi má t.d. finna í Fundy-flóa í Kanada, þar sem mismunurinn milli flóðs og fjöru er meiri en 12 metrar, og við Brittany-ströndina í Frakklandi, þar sem munurinn er tæplega 5 metrar.  Við Miðjarðarhafið er munurinn innan við 1 metra.


Hitastig.  Munurinn á yfirborðshita hafsins er nátengdur eðli straumanna.  Miðbaugsstraumurinn flytur sjó til norðurs og suðurs, þegar hann kemur upp að ströndum Norður- og Suður-Ameríku, og þar er breitt belti hlýsjávar á yfirborðinu en mjótt fyrir strönd Afríku, þar sem Kanarí- og Benguela-straumarnir flytja kaldan sjó að miðbaug.  Því er yfirborðssjórinn á beltunum 10°S-30°S og 10°N-30°N hlýrri fyrir austurströndunum en vesturströndunum en þetta snýst við á hærri breiddargráðum.  Þessi umsnúningur er lítt merkjanlegur í Suður-Atlantshafinu, þar sem Falklandsstraumurinn flytur kaldan sjó upp að 30°S (25°S í ágúst), en áberandi í Norður-Atlantshafi.  Þar flytur Labradorstraumurinn kaldan sjó suður að 40°N en Golfstraumurinn flytur hlýjan sjó meðfram Noregsströndum, þar sem hafnir eru íslausar á veturna allt að 71°N.  Andstæðurnar milli Suður- og Norður-Atlantshafsins eru skyldar yfirborðsstraumunum, sem verða til vegna ríkjandi vindátta og landslags strandanna.  Þar sem Falklandsstraumurinn blandast Brasilíustraumnum og Labradorstraumurinn blandast Golfstraumnum, breytis yfirborðshitinn hratt á skammri Vegalengd.  Breytingin er mest áberandi við mót Golf- og Labradorstraumanna, sem eru kölluð „kaldi veggurinn”.

Í hitabeltinu er stjórnast yfirborðshitinn svo mjög af loftslagsþáttum, að hann er næstum hinn sami alls staðar á beltinu og hitamunar vegna strauma koma ekki fram.  Slíkur munur er mjög skýr á u.þ.b. 200 m dýpi.  Á 6°N-7°N er hann 10°C en á 20°N er hann 20°C á þessu dýpi.  Þessi staðreynd þýðir þó ekki, að þessi kaldi sjór sé uppstreymi norðan miðbaugs.  Hitadreifingin er nátengd tilveru miðbaugsstrauma.  Þeir streyma til vesturs og hlýsjórinn er til hægri á norðurhveli og vinstri á suðurhveli.

Hitadreifing á meira dýpi kemur fram í tengslum við hringrásina, sem lýst er hér að framan.  Í Norður-Atlantshafi lækkar hitinn smám saman niður að botni úr 5°C á tæplaga 1000 m dýpi í 2½°c við Botninn.  Í Suður-Atlantshafi, allt að 40°S, lækkar hitinn í fyrstu að lágmarkinu á bilinu 1000-1300 m og hækkar síðan er neðar dregur og er orðinn 2°C-4°C á 2 km dýpi og lækkar síðan í 1°C við botninn, þar sem Suðurskautssjórinn tekur við.  Sunnan 40°S er hitastigið stöðugt lágt og nærri Suðurskautinu er hitastigið neðan við frostmarka á stórum hafsvæðum.

ATLANTSHAF III
 


TIL BAKA          Nat.is -  Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM