Krakka Ferðavísir

Vissir þú?


ÍSLENSKU HÚSDÝRIN

Meira

ÍSLENZKI  FJÁRHUNDURINN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Íslenzki fjárhundurinn kom til landsins með norrænum landnemum. Hann aðlagaðist nýjum heimkynnum og varð ómissandi við smalamennsku og gæzlu kvíaáa. Hann er harðger, glaður og vingjarnlegur með ljúfa lund. Hann er óragur, viljugur og námfús fjárhundur, sem með glaðværu gelti sínu létti mörgum smalanum sporin og launaði tryggð hans og húsbóndahollustu með bita af nestinu sínu. Hann er einnig góður varðhundur án þess að vera árásargjarn, en veiðieiginleikar eru ekki áberandi í fari hans. Hann er meðalstór með sperrt eyru, hringað skott og fjárspora (tvöfalda spora) á afturfótum. Síkvik eyrun undirstrika áhuga og hugarástand hans og dökkleit augun eru greindarleg og fjörleg. Hárafar er mjög mismunandi, ýmist snöggt eða loðið en ávallt þétt og hrindir vel frá sér vætu. Litbrigði eru með ýmsu móti, en þó skal einn aðallitur alltaf vera ríkjandi. Aðallitir eru gulir í ýmsum blæbrigðum, frá ljósgulum til dökkrauðguls, leirhvítur, mórauður, grár og svartur. Hvítt fylgir alltaf aðallit og svartir hundar eiga að vera þrílitir.

Þegar ljóst var að stofninn var í útrýmingarhættu, stofnuðu nokkrir áhugamenn um verndun íslenzka fjárhundsins Hundaræktarfélag Íslands árið 1969. Frá 1979 hefur deild Íslenzka fjárhundsins borið ábyrgð á varðveizlu og ræktun kynsins. Árið 1996 beitti deildin sér fyrir stofnun alþjóðlegs samstarfs sjö þjóða um markvissa stefnu í ræktun hans.

Íslenzki fjárhundurinn er dýrmætur arfur þjóðarinnar, gersemi, sem okkur ber öllum að standa vörð um.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM