Heimaklettur Vestmannaeyjar,

Meira um Ísland


HEIMAKLETTUR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Heimaklettur er einn útvarða Heimaeyjar í norðri. Þar og í Yztakletti og í Dalfjalli eru elztu jarðmyndanir eyjarinnar, líklega u.þ.b. 10.000 ára. Grunnur þeirra er móberg með óreglulegum hraunlögum efst. Útsýni er afbragðsgott af Heimakletti í góðu skyggni, s.s. til Langjökuls, Reykjanesfjalla og Mýrdalsjökuls en leiðin þangað upp talsvert brött. Tréstigar eru á tveimur stöðum á leiðinni. Hörgeyri er undir klettinum, þar sem nyrðri hafnargarðurinn er nú.

Samkvæmt Ólafs sögur Tryggvasonar höfðu Eyjamenn hörga sína þar í heiðni. Sagan segir líka frá komu Gissurar hvíta og Hjalta Skeggjasonar þangað árið 1000. Þeir fluttu með sér kirkjuviði sem gjöf frá Ólafi Tryggvasyni til Vestmannaeyinga. Norðan í klettinum er grasi vaxin brekka, sem heitir Dufþekja, eftir einum þræla Hjörleifs Hróðmarssonar. Þar hrapaði þrællinn til bana, þegar menn Ingólfs Arnarssonar eltu hann, og sögur segja, að a.m.k. 20 manns hafi farizt þar við fuglaveiðar.

Sagt er, að Jökulsá á Sólheimasandi og Dufþekja kallist á um mannskaða. Eiðið milli Heimakletts og Klifsins, sem heitir Eiðið í daglegu tali, hét upprunalega Þrælaeiði, því að þrælar Hjörleifs sátu þar að snæðingi, þegar menn Ingólfs komu að þeim.


Austan við Miðklett er Klettsvík, þar sem kví Keikós (Sigga) var komið fyrir 1998.  Keikó var sleppt og eltur til Noregs 2002, þar sem dýrið hafðizt við til 12. nóv. 2003, þegar það drapst úr bráðalungnabólgu.  Þá var áætlað, að Keikó væri 27 ára. Klettshellir í Yztakletti er skammt þar frá. Hann er vinsæll meðal ferðamanna, sem koma þar gjarnan við í bátsferðum. Þar er höfð viðdvöl og oft leikið á hljóðfæri á meðan á dvöl þar stendur, því að hljómburður í hellinum er með ágætum.

Söguslóðir Suðurland


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM