Vestfirðir á eigin vegum

Meira um Ísland

 


VESTFIRÐIR Á EIGIN VEGUM

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug-
Á eigin vegum


Gönguleiðir á Íslandi

 

Tillaga 4 daga Vestfjarðaferð

Ferðin vestur  liggur um Borgarfjörð og Holtavörðuheiði að Brú í Hrútafirði.  Þaðan er haldið norður Strandir um Hólmavík og Steingrímsfjarðarheiði niður í Ísafjarðardjúp.  Vestfirðir skipa veigamikinn sess í hugum margra, einkum vegna fegurðar landslags, kyrrðar og áhugaverðrar sögu. Kyrrðin skapast ekki sízt af strjálbýlinu og fjölda eyðibýla, sem fjölgar enn.

Á Djúpvegi er fagurt og fjöldi sögustaða, sem laða ferðamanninn til sín, og handan Djúps eru m.a. eyðibyggðirnar Snæfjallaströnd, Jökulfirðir og Hornstrandir.  Stöðugt er unnið að vegabótum á Vestfjörðum, svo að tíminn nýtist æ betur og menn aka heilum bílum heim.  Hinir raunverulegu Vestfirðir, vestan og sunnan Skutulsfjarðar eiga sínar óborganlegu perlur og ekki eru Suðurfirðirnir síðri.  Kíkjum nú á tillögurnar um ferðina hér að neðan.


Dagur 1:  Reykjavík – Hólmavík.
Á þessari leið um Borgarfjörð er nægur tími til að skoða náttúruundur svæðisins áður en haldið er yfir Holtavörðuheiði.  Hringvegurinn er yfirgefinn við Brú Hrútafirði og haldið norður Strandir, sem verða stöðugt strjálbýlli, til Hólmavíkur eða næsta nágrennis, þar sem hægt er að fá gistingu eða finna tjaldstæði.

Dagur 2:  Hólmavík – Ísafjörður.
Það er heillaráð að skoða næsta nágrenni Hólmavíkur áður en haldið er yfir Steingrímsfjarðarheiði.Djúpið er stórkostlegt á góðum degi og ekki er hægt að kjósa sér fegurra umhverfi til hádegisverðar en svæðið í kringum Djupmannabúð.  Næsta þorp á leiðinni er Súðavík, sem er aðeins 11 km frá Ísafirði, þar sem hentugt er að hvíla lúin bein til næsta dags.

Dagur 3:  Ísafjörður og umhverfi.
Óhætt er að mæla með skoðunarferð út á yztu annes um Hnífsdal og Bolungarvík til Skálavíkur með viðkomu í Ósvör, endurgerðu verbúðinni austan Bolungarvíkur. Það er líka stutt að fara um göngin til Suðureyrar .  Bátsferð um Ísafjarðardjúp, Jökulfirði og jafnvel í Aðalvík eða til Hornbjargs verður að ógleymanlegu ævintýri í minningunni.

Dagur 4:  Ísafjörður – Reykjavík.
Nú má velja milli ganganna milli Ísafjarðar og Flateyrar eða Breiðadalsheiðar.  Síðan taka firðirnir við hver af öðrum og heillaráð væri að bæta við einum degi til að komast út í Örlygshöfn (Byggðasafnið að Hnjóti) og út á Látrabjarg.  Þá er upplagt að gista í Vatnsfirði að Brjánslæk og Flókalundi.  Liggi leiðin ekki um Barðaströnd, þarf að hitta á Breiðafjarðarferjuna Baldur á réttum tíma til að sigla yfir Breiðafjörð og aka síðan frá Stykkishólmi alla leið til
Reykjavikur um Búðardal, Bröttubrekku og Bifröst.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM