Fjallabak Náttúra Ferðaleiðir,

Gönguleiðir á Íslandi

 


FJALLABAK
NÁTTÚRAN - FERÐALEIÐIR

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Stöðuvötn eru tiltölulega einangruð lífríki, þar sem þörungar og aðrar plöntur eru undirstaða annars lífs.  Framleiðslan er fremur hægfara í köldum vötnum og takmarkar fjölda lífvera.  Vötnin að Fjallabaki eru köld.  Urriði gengur úr Tungnaá í Kýlingavatn og Kirkjufellsvatn.  Hann hefur verið í Ljótapolli og Frostastaðavatni eins lengi og menn muna.  Allt frá 1970 hefur bleikju verið sleppt í vötn á svæðinu og hún hefur þrifizt vel og fjölgað sér.  Urriðinn hefur minnkað vegna skorts á fæðu.

Fuglar
Fuglalíf er fábreytt eins og annars staðir á hálendinu.  Snjótittlingar eru algengastir og við stöðuvötn sjást himbrimar, álftir og óðinshanar.  Himbriminn verpir við Frostastaðavatn og Kirkjufellsvatn og stundum sjást straumendur á Jökulgilskvísl og verpa stundum í nágrenninu.

LANDMANNALEIÐ
FJALLABAK NYRÐRA

Í bíl.
Vegurinn um Landmannaleið fylgir í megindráttum gömlu reiðleiðinni milli Lands og Skaftártungu.  Sigölduleiðin (F22) tengist henni við Frostastaðavatn og er fjölfarnari en Dómadalsleiðin.  Báðar þessar leiðir liggja um hraun, mela og sanda og óbrúaðar ár.  Þær eru venjulega færar frá júlí fram til fyrstu snjóa.  Leiðin milli Landmannalauga og Elgjár er hentug fjórhjóladrifnum bílum vegna margra óbrúaðra lækja og áa og stundum er sandbleyta farartálmi.  Það er óráðlegt að reyna að aka yfir á, sem er ekki væð.  Bezt er að fara yfir í lágum gír án þess að skipta á leiðinni og aka hægt og markvisst og helzt að skásneiða undan straumi.  Við forðumst að aka leiðir, sem eru ekki á ítarlegustu landakortum, því að það samsvarar akstri utan vega, sem er bannaður.  Við verðum að hafa í huga, að engar benzínstöðvar er að finna að Fjallabaki.

Gangandi.
Friðlandið er mjög vel fallið til lengri og skemmri gönguferða.  Sumar gönguleiðanna eru á venjulegum landakortum og flestar eru vel merktar með stikum.  Vinsælast er að ganga á Bláhnjúk (940m; 1-2 klst.) og að hverasvæðinu við Brennisteinsöldu (855m; 1-2 klst.).  Þá ganga margir á Háöldu (1089m; 4-6 klst.), kringum Frostastaðavatn (2-3 klst.), á Suðurnámur (951m; 1 klst.) og í Brandsgil (1-2 klst.).  Talsverð fyrirhöfn er að komast inn í Jökulgil, sem er u.þ.b. 13 km langt, vegna þess, hve oft þarf að vaða Jökulgilskvísl á leiðinni.  Þá leggja margir land undir fót og ganga alla leið suður í Þórsmörk (Laugavegur; 74 km).  Hver og einn þarf að áætla göngutímann þangað eftir getu og því, sem skoða skal á leiðinni.  Margir vilja vera 3-4 daga á leiðinni til að njóta umhverfisins sem bezt.

Á gönguferðum ætti alltaf að vera gott kort og áttaviti með í för og bezt er að halda sig við stíga, því að sums staðar er villugjarnt, þegar skyggni er slæmt.  Það er mikilvægt að vera rétt og vel búinn til fótanna og jafnvel á sumrin er hyggilegt að búast við öllum veðrum og hafa viðeigandi klæðnað við höndina.  Margir hafa ofkælzt vegna þess að réttan klæðnað hefur skort.  Göngufólk á alltaf að láta land- eða skálaverði vita um áætlanir sínar, þegar það leggur af stað.  Þverhníptar klettahlíðar í friðlandinu eru hættulegar til klifurs vegna þess, hve ótryggar þær eru.  Þá er aðgæzlu þörf á hverasvæðum, þar sem margir hafa sokkið í sjóðandi aurinn og brent sig.  Það er bannað að henda grjóti eða rusli í hveri og laugar.  Góðir göngumenn sneiða hjá gróðurlendi eins og hægt er, því að þau eru oft mýrlend og viðkvæm fyrir átroðningi.


Silungsveiði
Vötnin í friðlandinu eru vinsæl veiðivötn.  Þar ber hæst Ljótapoll, Dómadalsvatn og Frostastaðavatn.  Veiðileyfi fást í Skarði í Landssveit eða hjá skálavörðum í Landmannalaugum. (Sjá Hálendisveiði, Vötn að fjallabaki við Landmannaleið)

Sund
Laugalækurinn í Landmannalaugum er vinsæll baðstaður.  Þar þarf að gæta að því að skemma ekki viðkvæman gróður og það er bannað að fjarlægja jarðveg úr lækjarbökkunum.  Glerílát eru líka bönnuð og notkun sápu er óheimil nema niðri við stíflu.  Það er ekki mælt með böðum í leirpyttunum vegna mengunar.  Mengunar gætir líka í Laugalæknum, þegar kemur fram á sumar og sár gróa seint og illa, ef folk hruflar sig.

Skálar og tjaldsvæði
Tjaldsvæði er að finna í Landmannalaugum, við Landmannahelli, í Hrafntinnuskeri og í Sólvangi.  Ferðafélag Íslands á skála í Landamannalaugum og í Hrafntinnuskeri.  Hellismenn eiga skála við Landmannahelli.  Gæzla er í öllum skálum á sumrin.

Landvernd og umgengni
Friðlandið var stofnað til að vernda og varðveita bústaði dýra, vötn, jarðmyndanir og annað landslag.  Því er mikilvægt, að gestir og gangandi sýni gát og reyni að raska umhverfinu sem minnst og helzt alls ekki.  Við ættum alltaf að hafa í huga, að aðrir vilja njóta hins sama og við og við eigum e.t.v. eftir að koma aftur.

Friðlandið er ekki laust við beit sauðfjár, vegagerð, ferðaþjónustu og rafleiðslur.  Bæði beitin og veiði í vötnum byggir á aldalangri hefð.  Árið 1841 skrifaði sera Jón Torfason á Stóruvöllum í sóknarbókina, að beit og veiði á Landmannaafrétti væri minni en hefði verið um aldir.  Samt sem áður er allt að 2000 fjár beitt á friðlandið enn þá.  Landmannahellir og Landmannalaugar eru miðstöðvar gangnamanna síðsumars og á haustin.

Fjallabak var tiltölulega fáfarið þar til Ferðafélag Íslands byggði fyrsta skála sinn þar 1952.  Síðan hafa samgöngur að og innan svæðisins batnað verulega og fólk hefur meiri frítima.  Ferðamönnum fjölgar stöðugt og skipta nú tugum þúsunda á ári.


Boðorð ferðamannsins
Allir, sem heimsækja Friðlandið að Fjallabaki og aðrar náttúrperlur landsins ættu að hafa eftirfarandi efst í huga:

Tjöld eru ekki leyfð utan viðurkenndra tjaldsvæða nema með leyfi landvarða.
Utanvegaakstur er bannaður.
Stuðlum að verndun dýralífs.
Tínum ekki blóm.
Kveikjum ekki opna elda.
Skiljum ekki eftir rusl.
Byggjum ekki vörður.
Röskum ekki bergmyndunum.
Höldum hverasvæðum ósnortnum.
Virðum frið og ró umhverfisins.


Umhverfisstofa - FH

.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM