Bárðargata,

Gönguleiðir á Íslandi


BÁRÐARGATA
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Bárðargata er nafn á leið um Vonarskarð frá Bárðardal suður í Fljótshverfi. Bárður Heyangurs-Bjarnason nam Bárðardal frá Kálfborgará og Eyjardalsá og byggði sér bæ að Lundarbrekku, þar sem hann bjó um stund. Hann varð þess var, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann að betri lönd væru sunnanlands.

Hann sendi syni sína suður á góunni til að athuga þetta betur. Þeir fundu ýmsan gróður á leiðinni á þessum kaldasta árstíma. Þarnæsta vor, að loknum undirbúningi, lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi og byggði bæ að Gnúpum. Hét hann síðan Gnúpa-Bárður.

Þetta er ein fyrsta frásögnin af landkönnun fornmanna. Þessi leið er u.þ.b. 250 km löng og liggur hæst í 1000 m.y.s. Á henni eru fimm fremur stórar ár, Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Tungnaá, Skaftá og Hverfisfljót. Sigurjón Rist, vatnamælingamaður, sagði um þessar ár: „Á vetrardegi verður ferðamaðurinn þeirra ekki var. Þau eru þá undir ís við jökuljaðar."

Leið Bárðar týndist, svo að enginn veit nákvæmlega, hvaða leið hann fór. Líklega fór hann suður með Skjálfandafljóti austanverðu, um Vonarskarð og Síðumannaafrétt. Vonarskarð var líka lengi týnt en árið 1794 fór Pétur Brynjólfsson frá Fljótsdalshéraði um Vatnajökulsveg og sá til skarðsins á leiðinni. Hann hélt, að það væri einungis dæld í jökulinn.

Sveinn Pálsson sá til þess sama ár, þegar hann gekk á Snæfell, og varð ljóst, að það skildi milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls. Björn Gunnlaugsson og Sigurður Gunnarson fóru um Vonarskarð 1839.

HÁLENDIÐ MENNING OG SAGA


Mynd: Aldeyjarfoss


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM