Friðland að Fjallabaki,

Gisting & tjaldst.
Hálendi


Gönguleiðir Ísland

Ár, vötn og fl. að Fjallabaki

FRIÐLAND AÐ FJALLABAKI

Áður en er farið inn á hálendið komið við hjá næstu upplýsingamiðstöð!
.


[Flag of the United Kingdom]
In English


Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Þetta friðland var stofnað 1979.  Það nær yfir 47 km² lands og er ofar 500 m hæð yfir sjó.  Svæðið er fjöllótt og eldvirkt og þakið hverasvæðum, hraunum, ösku, ám og vötnum.  Markmið verndunar staða og svæða er að gera þau aðgengileg og halda þeim sem ósnortnustum fyrir allan fjöldann í nútíð og framtíð.  Helztu einkenni Fjallabaksins er auðnin og friðurinn og einstaka gróðurvinjar, sem hundruð þúsunda ferðamanna hafa notið og gleyma aldrei.  Við, sem erum þar á faraldsfæti, getum lagt lóð á vogarskálarnar með því að ganga vel um og skilja hvergi eftir okkur varanleg spor eða rusl.

Forfeður okkar, sem ferðuðust gjarnan með ströndum fram í fyrstu, uppgötvuðu leiðirnar að baki strandfjallanna, þar sem auðveldara var að sigrast á vatnsföllum og gerðu þær að alfaraleiðum.  Landslag megineldstöðvarinnar á Torfajökulssvæðinu er einstakt hvað snertir litadýrð og mótun.  Þetta er stærsta ríólítsvæði landsins og þar krauma einhver stærstu háhitasvæðin.  Torfajökulssvæðið er eldvirkt en er jarðhitavirknin er talin dvínandi.  Heitu laugarnar í Landmannalaugum eru aðeins lítið dæmi um jarðhitann, sem veldur myndbreytingum í bergi og bætir við litadýrðina.  Brennisteinsalda er gott dæmi um slíkt.  Jarðfræðingar telja svæðið vera öskju og rimarnar séu Háalda, Suðurnámur, Norður-Barmur, Torfajökull, Kaldaklofsfjöll og Ljósártungur.

Jarðlagastaflinn að Fjallabaki er 8-10 milljón ára.  Þá var þetta svæði hluti af Reykjanes – Langjökulsrekbeltinu.  Megineldstöðin var virkust síðustu tvær milljónir ára, þ.e.a.s. á ísöld, enda eru fjöllin undantekningarlítið úr móbergi (blágrýti og ríólít).  Síðastliðin 100.000 ár takmarkaðist eldvirknin við nokkur sprungusvæði með suðvestur-norðausturstefnu.  Síðasta stórgos varð 1480, þegar Veiðivatnasvæðið varð til í núverandi mynd og ríólíthraunin Laugahraun, Námshraun og Norðurnámshraun mynduðust.  Samtímis varð til 30 km löng gígaröð, sem teygir sig í norðaustur frá Hnausapolli og Ljótapolli.  Eldgos á svæðinu hafa verið sprengivirk og virðast hafa verið mögnuðust á 500-800 ára fresti.  Talið er víst að slík eldgos hafi orðið árin 150 og 900 E.kr.

Ársmeðalhiti á Fjallabakssvæðinu gæti verið nærri 0-1°C, 5-14°C á sumrin og –6°C á veturna.  Veðurlag í fjalllendi er oftast frábrugðið því, sem við eigum að venjast á láglendinu.  Hitastig er lægra, vindstyrkur meiri, vindáttir breytilegar eftir landslangi, þoka algengari og líkur meiri á úrkomu (snjó eða regni).  Sunnan- og suðaustanáttir geta þýtt rigningu og vont veður en norðlægar áttir bera með sér kaldara og bjart veður.  Það er því ráð, að vera viðbúinn alls konar veðurskilyrðum.

Vegna hins kalda loftslags í Friðlandinu að Fjallabaki hefur gróðurinn ekki nema u.þ.b. tvo mánuði á ári til að vaxa og dafna og myndun jarðvegs er mjög hægfara.  Hann skortir fullrotnað, lífrænt efni og veðruð steinefni og er viðkvæmur fyrir vatns- og vindveðrun.  Moldrok er algengt og gjóska þekur stóran hluta friðlandsins.  Aldalöng beit sauðfjár raskaði jafnvægi gróðurs og annarra náttúruafla.  Samfelld gróðurþekja finnst aðeins á smásvæðum í grennd við læki, ár og vötn, s.s. í Kýlingum.  Ríólít er súr bergtegund og því venjulega gróðursnauð en móbergið er oft þakið mosa.  Talningar hafa leitt í ljós u.þ.b. 150 tegundir háplantna, burkna, mosa og fléttna.  Loðvíðir er algengur á þurrum söndum og hraunum og fífa í votlendi.  Láglendisgróður, m.a. stör og engjarós, finnst í Landmannalaugum.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM