Garðar Akranes,

Meira um Ísland


GARÐAR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

 

Garðar á Akranesi eru fornt höfuðból og kirkjustaður. Í Landnámu segir svo: Jörundur hinn kristni var sonur Ketils Bresasonar. Hann bjó í Jörundarholti. Það er nú kallað í Görðum. Hann hélt vel kristni til dauðadags og var einsetumaður í elli sinni". Faðir Jörundar var Ketill Bresason, sem kom til Íslands ásamt Þormóði bróður sínum frá Írlandi og nam Akranes. Þess hefur m.a. verið minnst sérstaklega með því, að reistur var minningarsteinn við byggðasafnið á þjóðhátíðarárinu 1974, sem gjöf frá írsku þjóðinni til minningar um írskt landnám á Akranesi.

Garðar voru kirkjustaður og prestsetur frá öndverðri kristni og koma víða við sögu í fornum heimildum, t.d. Sturlungasögu. Síðasti prestur, sem sat Garða (1865-1886) var séra Jón Benediktsson. Hann lét byggja gamla Garðahúsið á árunum 1876-1882, fyrsta steinsteypuhús sinnar tegundar á Íslandi. séra Jón notaði húsið til íbúðar unz hann flutti burt af staðnum 1886 og síðan hafa prestar í Garðasókn haft aðsetur í kaupstaðnum. Síðasti ábúandinn í Görðum, Sigmundur Jónsson bóndi, lét af búskap þar 1936.

Síðasta torfkirkja í Görðum stóð til ársins 1858, en þá var byggð timburkirkja í hennar stað. Sú kirkja var rifin 1896, þegar ný sóknarkirkja var byggð niðri á Skaga. Í kórstæði Garðakirkju var reistur minningarturn um krisnihald í Görðum á árunum 1955-56 og vígður af biskupi Íslands 1958. Turninn teiknaði séra Jón M. Guðjónsson sóknarprestur á Akranesi.

VESTURLAND MENNING OG SAGA


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM