Grábrókarhraun,

Gönguleiðir Ísland


GRÁBRÓKARHRAUN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

Grábrókarhraun er meðal úfnustu apalhrauna hérlendis. Það rann frá Grábrókargígum í Norðurárdal fyrir 3600-4000 árum (á skilti við gígana stendur, að þeir séu u.þ.b. 3000 ára) og er vaxið mosa, lyngi og trjágróðri. Grábrók er stærst gíganna þriggja á gossprungu með stefnu norðvestur til suðausturs.

Gígarnir voru friðlýstir sem náttúruvætti 1962 eftir að búið var að nema úr þeim talsvert gjall til ofaníburðar. Hraunið sjálft er á náttúruminjaskrá. Ganga upp á Grábrók er auðveld, þar sem búið er að koma fyrir tröppum upp erfiðustu hjallana, og fólk er beðið um að halda sig einungis á þeim stíg. Útsýni er fagurt af Grábrók í góðu veðri og stutt þaðan í aðrar náttúruperlur, s.s. Hreðavatn, Paradísarlaut og fossinn Glanna í Norðurá.

Skammt austan Grábrókargíga er bærinn Dalsmynni.  Þaðan liggur vegur #60 norður um Merkjahrygg (Brattabrekka) til Búðardals og Vestfjarða.  Landnáma getur Rauða-Björns sem landnámsmanns þar.

Aðrar skemmtilegar gönguleiðir, bæði stuttar og langar liggja um svæðið meðfram Norðurá og alla leið að Múlakoti og Jafnaskarði.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM