Grímsey Steingrímsfirði,

Meira um Ísland

TRÖLLIN OG ÞJÓÐSAGAN

GRÍMSEY
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Grímsey í Steingrímsfirði er stærst eyja fyrir Ströndum.  Þar var föst búseta fyrir langa löngu og síðar var gert út þaðan að vetrarlagi um árabil.  Vitinn var reistur 1915.  Hann eyðilagðist í loftárás Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni og var endurbyggður 1949.  Eyjan er kennd við Norðmanninn Grím, sem hafði vetursetu í eyjunni með hjúum sínum.  Hann veiddi marbendil í róðri og bað hann að spá fyrir sér og sínum áður en hann sleppti honum.  Marbendill benti á son Gríms, sem lá á selbelg í stafni og sagðist ekki þurfa að spá fyrir öðrum en honum, því hann yrði landnámsmaður, þar sem merin Skálm gæfist upp undan byrðum.  Síðar sama vetur fórst bátur Gríms í róðri og hann og húskarlar hans drukknuðu.  Um vorið fór fjölskyldan til Skálmarness á Barðaströnd og dvaldi þar um veturinn og merin stóð uppi alla tímann.  Næsta vor fór merin fyrir þeim alla leið á sandmela nokkra, þar sem hún lagðist niður.  Þórir nam þar land og þar heitir Rauðamelur ytri.  Hann gerðist mikill höfðingi og fékk nafnið Sel-Þórir.

Tilurð eyjarinnar er eignuð þremur tröllum, sem ætluðu að moka Vestfjarðarkjálkann frá  meginlandinu.  Sagt er að eitt þeirra hafi stungið reku sinni niður við Malarhorn, rétt utan kauptúnsins í Drangsnesi, og stykki hafi hrokkið frá landi út á fjörð.  Tröllin dagaði öll uppi, eitt þeirra á Drangsnesi, sem fékk nafn af því.  Tröllin tvö, sem grófu að vestanverðu urðu of sein fyrir á leið heim að morgni og dagaði uppi í Kollafirði, þar sem þau standa enn þá.

Yrðlingar voru fluttir út í eyjuna fyrri hluta sumars um árabil og aldir þar.  Þeir voru síðan veiddir á veturna, þegar skinning voru verðmætust og bezt.  Ferskvatn er af skornum skammti í eyjunni og kemur helzt upp í klettunum vestantil.  Uppspretta þar heitir Gvendarbrunnur eftir vígslu Guðmundar biskups góða og bregzt aldrei.  Þarna er stór lundabyggð og ferðir út í eyju eru í boði frá Drangsnesi  og Bæ á Selströnd.

Vesfirðir saga og menning


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM