Hjörleifshöfði,

Gönguleiðir Ísland


HJÖRLEIFSHÖFÐI

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Hjörleifshöfði er 221 m hátt móbergsfell á Mýrdalssandi suðvestanverðum.

Samkvæmt Landnámu var þar fjörður fyrrum með botn við höfðann. Eftir að komið var fram á 14. öld hafði þessi fjörður fyllzt af framburði af völdum Kötluhlaupa. Nú er vegalengdin frá höfðanum til sjávar 2-3 km.
 Þar heitir Kötlutangi, syðsti hluti Íslands.

Fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámsmannsins, hét Hjörleifur Hróðmarsson. Þeir urðu samferða til Íslands frá Noregi en bar hvorn frá öðrum, þannig að Ingólfur hafði vetursetu á Ingólfshöfða í Öræfum en Hjörleifur á Hjörleifshöfða. Næsta vor drápu þrælar Hjörleifs hann og frjálsa menn hans og flúðu á skipi til Vestmannaeyja með kvenfólkið. Þar fann Ingólfur þá og kom þeim fyrir kattarnef. Hjörleifshaugur er sagður vera uppi á höfðanum.

Búið var á höfðanum fram á 20. öldina. Bærinn var niðri á söndunum vestan höfðans, þar sem voru tún og engjar á svokölluðum Bæjarstað. Katla eyddi honum 1721 og síðan var byggt uppi, þar sem lítið var um heytekju en beitland var gott. Fyrrum var sigið eftir fugli ár hvert, þegar 17 vikur voru af sumri. Lítið er gert af því nú, en samt þykir mörgum Mýrdælingum enn þá gott að narta í fýlsunga.

Gönguleiðin upp Höfðann vestanverðan sunnantil er létt og vel þess virði að kíkja á rústir bæjarins þar og njóta útsýnisins á góðum degi.

Kötlutangi sunnan Hjörleifshöfða er syðsti oddi Íslands.  Hann hefur myndazt við Kötluhlaup, síðast árið 1918, þegar rúmlega 2 km bættust við hann, þar sem var áður 20 faðma dýpi.  Síðan hefur saxazt á hann og Dyrhólaey kynni að fá hlutverk sitt aftur.

Söguslóðir Suðurland


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM