Hoffellsdalur í Nesjum,

Meira um Ísland


Gönguleiðir Ísland


HOFFELLSDALUR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Hoffellsdalur er austastur dala Nesja. Þar er bærinn Hoffell við rætur Hoffellsfjalla, þar sem er mikið úrval náttúrusteina. Alls konar skrautlegir steinar þaðan hafa verið fluttir úr landi og sumir prýða jafnvel náttúrugripasöfn. Meðal steina, sem þar hafa fundizt er marmari, silfurberg, ópall og jaspís. Silfurbergsnáman, sem var nýtt um skeið er í 500 m hæð yfir sjó.

Þaðan var fluttur u.þ.b. 175 kg silfurbergssteinn til Reykjavíkur og þaðan var hann seldur við geysiháu verði til Þýzkalands. Sagt er að hann sé til sýnis í náttúrugripasafninu í Frankfurt. Talsvert er um ríólít í fjöllum Hoffellsdals, sem benda til fornrar megineldstöðvar, líkt og í Breiðdal. Mörg fjallanna eru um og yfir 1000 m há, s.s. Efstafell (1275m). Óhætt er að segja, að náttúran í Hoffellsfjöllum sé litrík, fjölbreytt og freistandi til fjallaklifurs.

Austasti skriðjökull sunnanverðs Vatnajökuls skríður niður í dalinn og undan honum kemur Austurfljót Hornafjarðarfljóts. Bílfær leið liggur frá Hoffelli að jökuljaðrinum. Innanverður jökullinn klofnar um Svínafell, þannig að vestari kvísl hans heitir Svínafellsjökull. Í klettunum austan jökulsins, Geitafellsbjörgum, er gabbró, sem var nýtt í rammann utan um verk Gerðar Helgadóttur á Tollstöðinni í Reykjavík.

Söguslóðir á Austurlandi


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM