Hveradalir Hellisheiði vestri,

Meira um Ísland


Gönguleiðir Ísland


HVERADALIR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

 

Hveradalir er samnefni dalverpanna sunnan og suðvestan Reykjafells vestan Hellisheiðar og norðaustan þjóðvegarins við Litlu kaffistofuna.  Uppi í svokallaðri Flengingarbrekku var stökkpallur fyrir skíðamenn.  Skíðaskálinn er ofan mynnis stærsta dalverpisins, Stóradals, og ofan hans eru hverirnir, sem svæðið er kennt við.  Hveradalaflöt er í nágrenni þeirra og nær að Lakahnúkum.  Hún var áningastaður ferðamanna á leiðinni yfir Hellisheiði.  Skíðafélag Reykjavíkur reisti Skíðaskálann 1934 og seldi Reykjavíkurborg hann 1971.  Tuttugu árum síðar brann hann til kaldra kola (21. jan.).

Árið 1992 (4. apríl) var nýr skáli í svipuðum stíl tekinn í notkun (vígður 17. júní).  Ofan Skíðaskálans eru tvö minnismerki, annað um Ludvig H. Müller (1879-1952), kaupmann og formann Skíðafélags Reykjavíkur í 26 ár frá stofnun félagsins 1914, og hinn um Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1951), kaupmann og formann félagsins næstu 11 árin.  Danskur maður, A. C. Høyer, bjó þí Hveradölum á árunum 1930-40.  Þar kom hann upp gufu og leirböðum og vísi að ylrækt.  Hinn fyrrum fjölfarni Lágaskarðsvegur liggur um Stóradal, Hellur og Lágaskarð austan Stóra-Meitils frá Hveradölum austur í Hjalla í Ölfusi.

Orkuveita Reykjavíkur opnaði upplýsingamiðstöð fyrir almenning vegna byggingar Hellisheiðarvirkjunar í Skíðaskálanum 2005.  Eftir opnun virkjunarinnar var hún flutt þangað.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM