Lagarfljót Fljótsdalshérað,

Gönguleiðir Ísland


LAGARFLJÓT
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Lagarfljót er u.þ.b. 140 km langt frá efstu upptökum í Norðurdal, en þar heitir áin Jökulsá í Fljótsdal. Það er annað mesta vatnsfall Austurlands á eftir Jökulsá á Brú. Lögurinn er u.þ.b. 35 km langur, 53 km² að flatarmáli og mesta dýpi mældist 112 m. Þessi dýpsti staður lagarins er rúmlega 90 m neðan sjávarmáls. Aðeins botn Öskjuvatns (200m) og Breiðamerkurlóns (280m) liggja dýpra undir sjávarmáli.

Vatnsmagnið í Leginum er rúmlega 2700 gígalítrar og það tekur 275 daga að endurnýjast.  Vatnasviðið er 2900 ferkílómetrar, þar af 140 km2 jökull.  Meðalrennsli á sekúndu hjá Lagarfossi á árabilinu 1975-2003 var 114 rúmmetrar, 34 frá Jökulsá í Fljótsdal við Hól (1998-2003), 26,5 úr Grímsá (1975-84), 16,1 úr Kelduá (1998-2003), 7,5 frá Fellsá (1998-2003), tæ´plega 3 úr Bessastaðaá (1971-89) og 11,3 úr Eyvindará (1953-84)  Rennslissveiflur eru mjög miklar.  Mesti flóðtoppurinn, 950 m3/sek, mældist við Strauma 30. nóvember 2002 og vatnshæð á sama tíma 22,99 m.y.s. við Lagarfljótsbrú.  Meðalrennslið þar er 20,44 m.y.s. (1974-2003).  Eftir að Kárahnjúkavirkjun var gangsett 30. nóvember 2007 bættust 110 rúmmetrar á sekúndu við fljótið.  Aðrar minni aðflutningsleiðir vatns skila því u.þ.b. 16 rúmmetrum til Fljótsins.  Vænn silungur veiddist í net en lítið veiðist á stöng vegna slæms skygginis í vatninu, sem versnaði til muna eftir að vatn úr Hálslóni bættist við.

Lagarfljótsormurinn er sagður vera stór og langur, eins og sést á myndskreytingunni á húshlið kaupfélagsins á Egilsstöðum. Hann er sagður sjást af og til, síðast í upphafi árs 2012 frá Hrafnkelsstöðum.  Bóndanum tókst að ná góðum myndum af honum. Annar samnefndur ormur hóf reglulegar siglingar með skemmtiferðamenn á Leginum sumarið 1999 og bauð upp á veizlur um borð. Nokkuð gasuppstreymi er í Fljótinu úti af Hreiðarsstöðum og Buðlungavöllum, þannig að þar eru vakir á veturna og betra að fara varlega á ísnum samanber Droplaugarsona sögu.

Söguslóðir á Austurlandi

Milli Egilsstaða og Fellabæjar er fyrrum lengsta brú landsins, 301 m, og þar er talið að Lögurinn endi. Neðan brúar taka við hallalitlir flóar, Vífilsstaðaflói og Steinsvaðsflói rétt fyrir ofan Lagarfoss. Ferjustaður með dragferju var við Steinsvað. Laxastigi var steyptur í Lagarfossi árið 1935. Eftir að miðlunarstífla Fljótsdalsvirkjunar var byggð gætir vatnshækkunar alla leið inn í Fljótsdal. Lagarfossvirkjun var vígð árið 1975 (7,5 MW).

Tölulegar upplýsingar eru úr bókinni Hallormsstaður í Skógum eftir Hjörleif Guttormsson og Sigurð Blöndal.

Þegar hverflar Kárahnjúkavirkjunar fóru að snúast, var verulegu vatnsmagni (110 m³/sek) árinnar veitt til Lagarfljóts, þannig að Jökla varð ekki svipur hjá sjón og hinn mikli framburður hennar hvarf, því hann verður eftir í lóninu mikla handan risastíflunnar í gljúfrum hennar.  Talið er, að lónið fyllist af framburði á fjórum öldum.  Engum er ljóst, hvaða áhrif þessar breytingar kunna að hafa á umhverfinu uppi á hálendinu og við ósa árinnar.  Margir bændur óttast, að þær verði verulegar við Héraðsflóa.  Örn Þorleifsson, ferða- og nytjabóndi á Húsey, telur, að verulegur hluti lands umhverfis bæjarhólinn geti farið undir vatn.

Íslenzka heimildamyndin
Baráttan um landið er saga landsins, sem fór undir vatn og mannvirki til raforkuframleiðslu fyrir stóriðju.  Þessa sögu segir fólkið, sem býr á og unnir þessu landi á auðmjúkan hátt.  Myndin segir sögu náttúrunnar, sem er í hættu vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda fyrir stóriðju á Íslandi.  Sagan nær einnig til ómetanlegra náttúruperlna, sem hefur nú þegar verið fórnað.  Næstum 80% framleiddrar raforku fara til erlendrar stóriðju.  Sögumenn myndarinnar spyrja á hógværan hátt:  „Hvernig lífi viljum við lifa og hvernig viljum við hafa umhverfi okkar?  Verða fleiri álver reist?  Er þetta stefnan, sem við viljum taka?
Höfundur myndarinnar er Helena Stefánsdóttir og meðhöfundur Arnar Steinn Friðbjörnsson.  Undraland er framleiðandi.  Myndin var frumsýnd 4. apríl 2012 í Bíó Paradís. 
Hér má sjá brot úr myndinni.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM