Perlan Reykjavík,

Gönguleiðir Ísland


PERLAN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

Efst á Öskjuhlíðinni trónir eitt nýjasta kennimerki höfuðborgarinnar, sem Hitaveita Reykjavíkur lét reisa og er nú meðal eigna Orkuveitu Reykjavíkur eftir sameiningu nokkurra borgarveitna.  Perlan er ekki einungis leikvangur og aflþreyingarstaður borgara landsins og erlendra ferðamanna, heldur veitir hún yl inn á mörg heimili og stofnanir.

Um þessar mundir annast Orkuveita Reykjavíkur dreifingu á heitu vatni til rúmlega 55% þjóðarinnar frá fjórum jarðhitasvæðum.  Þaðan streyma rúmlega 55 milljónir rúmmetra af heitu vatni inn á dreifikerfin.  Í grennd við Laugaveginn er dælt upp á fjórða hundrað þúsunda lítra af 127°C heitu vatni og í Elliðaárdalnum er magnið á þriðja hundrað þúsund lítra af 88°C heitu vatni.

Í Mosfellssveit kom upp um borholur 1850 l/sek af 86 gráðu heitu vatni og síðan 1990 hefur heitu vatni verið dælt frá háhitasvæðinu á Nesjavöllum um 27,2 km leið til höfuðborgarsvæðisins.  Við full afköst framleiða þessar orkuveitur sem samsvarar 400 MW í hitaveitu og 80 MW af rafmagni og anna vaxandi þörfum svæðisins.  Fjórir tankanna á Öskjuhlíð geyma 24.000 tonn af 80°C heitu vatni til dreifingar og hinir tveir taka við bakflæðisvatni.  Alls eru þrjú dreifikerfi í höfuðborginni með varabirgðum af heitu vatni til að mæta hámarksálagi.

Byggingin á Öskjuhlíðinni er u.þ.b. 30 m há og 20.000 m³.  Hæðirnar sex og kjallari eru nærri 3.700 m², þar af er flatarmál jarðhæðarinnar 1.000 m².  Jarðhæðin er gjarnan notuð til alls konar sýningahalds og hátíðarhalda.  Það tók þrjú ár að byggja Perluna.  Byggingarefni og tæknibúnaður var fluttur inn frá sex Evrópulöndum auk þess, sem keypt var hérlendis, og BNA.  Kúpullinn, sem er byggður úr holri stálgrind og endurskinsgleri,  rís í 14 m hæð yfir sexstrendum útsýnispallinum.  Á veturna rennur heitt vatn um stálgrindina og kalt á sumrin.  Bílastæðin fyrir framan Perluna eru upphituð.

Mannvirkið er talsvert tæknivætt, því að auk snúningsflatar veitingahússins er tölvustýrður gosbrunnur, hita- og vökvunarkerfi.  Hljómbúnaður er af beztu gerð og lagaður að hljómburði hússins.  Í kjallaranum eru beztu tæki til sýningarhalds fyrir allt að 50 manns, og góð aðstaða til ráðstefnuhalds.

Hæð Perlunnar dregur athygli að henni frá öllum sjónarhornum nær og fjær.  Hæðin frá gólfi jarðhæðar að gólfi kaffiteríunnar er 10m og þaðan að gólfi veitingastaðarins 5m.  Frá gólfi veitingastaðarins upp í hæsta punkt kúpulsins eru 9m.  Reynt var að gera miðburðarvirkið með lyftunum og tröppunum sem minnst áberandi.

Upprunalega hugmyndin að Perlu á Öskjuhlíð fæddist í huga Jóhannesar Kjarvals, listmálara.  Framtíðarsýn hans byggðist á glæsilegu hofi, helguðu listagyðjunni, á hinni 61 m háu Öskjuhlíð.  Þessi draumur rættist 11. maí 1991, líklega ekki alveg í sömu mynd og Kjarval hafði gert sér, þótt ýmsum greinum listarinnar sé sinnt þar reglulega.

Ingimundur Sveinsson, arkitekt, teiknaði Perluna fyrir Hitaveitu Reykjavíkur.  Tankarnir eru klæddir silfurlituðum plötum.  Innanhúss blasa við gráir veggir þeirra og gler á milli, þannig að gestir fá tilfinningu fyrir rýminu, sem er prýtt pálmum og fíkjutrjám.  Þessar suðrænu plöntur þrífast vel í tölvustýrðu loftslagi og við sjálfvirka vökvun.

Á jarðhæðinni er auðvelt að taka á móti allt að 600 manns og salurinn er tilvalinn til alls konar sýninga og uppákomna.  Við innganginn er stuðlabergsstöpull, prýddur litlum gullskjöldum með nöfnum brúðarpara, sem hafa fagnað þessum merkisáfanga í lífinu í Perlunni.  Hann er táknrænn á þann veg, að þessi hjón byggja framtíðarsambúð sína á trausum grunni.  Einn tankanna sex var tæmdur og inni í honum var komið fyrir vaxmyndasafni, sem sýnir persónur, umhverfi og atburði sögualdar.

Í miðri byggingunni snúast tröppurnar alla leið upp í veitingahúsið og tvær lyftur liggja þar í stokkum sömu leið.  Tölvustýrður gosbrunnurinn í kjallaranum minnir á goshveri landsins og þeytir vatnssúlu upp í 15 m hæð með reglulegu millibili.  Kaffiterían er opin daglega kl. 11:30-22:00.  Þar er boðið margs konar sætabrauð og annað brauð og afbragðsgóður, ítalskur ís, léttir málsverðir og narzl.  Allan hringinn í kringum hana er útsýnisveröndin, sem er meðal beztu útsýnisstaða á höfuðborgarsvæðinu.  Fjórir stöplar veita upplýsingar um það, sem fyrir augu ber, á íslenzku og erlendum tungum.

Veitingahúsið á efstu hæðinni rúmar 340 gesti, sem snúast heilan hring á 1½ klst á meðan á máltíð stendur og hafa þar með náð yfirsýn yfir allt umhverfið á góðum degi eða kvöldi.  Matseðillinn er í samræmi við glæsilegt umhverfið og verðlag er í samræmi við það.  Sex meistarakokkar sjá um að kitla bragðlauka gestanna, sem standa að öllu loknu saddir og sælir upp frá borðum.  Barinn, með sætum fyrir 40-50 manns, er undir hæsta stað kúpulsins.  Þar hittast gestir gjarnan fyrir kvöldmatinn og/eða eftir hann til að ljúka góðu samkvæmi.  Þar er myndum prýdd súla, sem sýnir höfuðáttirnar.  Tegundarframboð drykkja gefur engum öðrum bar eftir og úrval léttvína er mjög gott.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM