Sandfell Öræfi,

Gönguleiðir Ísland

In English


SANDFELL
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Sandfell er eyðibýli í Öræfum.  Þar var kirkjustaður og prestssetur.  Ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnasonar, Þorgerður, er sögð hafa búið þarna fyrst samkvæmt Landnámu eftir að Ásbjörn fórst í hafi.  Hún helgaði sér land með því að leiða kvígu, vorlangan dag, sólsetra milli frá Kvíá að Skeiðará.  Helgi, mágur Þorgerðar, byggði bæ að Rauðalæk í grenndinni.  Þar var síðar höfuðkirkja héraðsins til 1362, þegar Öræfajökull eyddi byggð.  Eftir það var höfuðkirkjan að Sandfelli.

Hlaupin tengd gosunum 1362 og 1727 komu beggja vegna Sandfells og léku bæinn grátt.  Síðara gosið varð efst í Sandfellsfjalli a.m.k. að hluta.  Jökulker (hverir) eru víða í landslaginu, merki um stóra jaka, sem bráðnuðu á sléttunni, s.s. hólar fram af Falljökli, kallaðir Jöklar, og Svartijökull austan Kotár.  Í Háöldu, vestan Kotár, er stórt jakasker rétt við veginn (friðlýst).

Þegar seinna gosið hófst (7. ágúst 1727), var messa í Sandfellskirkju.  Hlaupið kom daginn eftir.  Samkvæmt lýsingu séra Jóns Þorlákssonar (1700-90), sem bjó að Hofi, fórust tvær vinnukonur og smali auk fjöld fjár í seli sunnan Sandfells.

Háalda milli Sandfells og Hofs myndaðist í hlaupinu 1727.  Í henni er geysistórt jökulker (hver) eftir bráðnun risastórs jaka.  Háalda var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975.

Sandfellsfjall er bratt og gróðurlaust.  Uppi í Sandfellsheiði er Klukkugil, þar sem var tröllabyggð.  Nemendur Kunstakademiets Arkitektsskole í Árósum mældu Sandfellsbæinn og gerðu uppdrætti að honum og umhverfi hans árið 1973.  Bærinn var jafnaður við jörð skömmu síðar og minnismerki sett upp á grunni hinnar fornu kirkju.

Söguslóðir á Austurlandi


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM