Staðarfell í Dölum,

Gönguleiðir Ísland


STAÐARFELL
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Staðarfell er kirkjustaður í Fellsstrandarhreppi á Meðalfellsströnd.  Bærinn stendur undir snarbröttum klettahlíðum samnefnds fjalls.  Yztafellsmúli er einhver bezti útsýnisstaður héraðsins.  Sunnan hans er samnefndur skógur, sem er í umsjá Skógrætar ríkisins.

Magnús Friðriksson (1862-1947) og kona hans, Soffía, gáfu jörðina í minningu einkasonar þeirra, Gests, og fóstursonar, Magnúsar, til stofnunar húsmæðraskóla.  Bræðurnir drukknuðu úti fyrir Staðarfelli 2. október 1920.  Í húsnæði skólans var rekin endurhæfingarstöð á vegum SÁÁ.

Símstöð og bréfhirðing var á Staðarfelli um áratugi fram yfir 1980.  Halldór E. Sigurðsson bjó að Staðarfelli 1937-55.  Hann varð síðar fjármála- og landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins.  Staðarfell er hlunnindajörð með miklu og góðu landi, skógi, selveiði, æðarvarpi, fugla- og eggjatöku.

Á 11. og 12. öld bjó þar Þórður Gilsson, faðir Hvamms-Sturlu, ættföður Sturlunga.  Bærinn brann árið 1808.  Í brunanum glataðist stórt bókasafn og miklar matarbirgðir.

Staðarfellskirkja er í Hvammsprestakalli í Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi.  Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Pétri postula.  Staðarfellskirkja lá lengi undir Skarðsþing á Skarðsströnd og varð síðar útkirkja frá Hvammi í Hvammssveit.  Á árunum 1880-1890 voru Staðarfells-, og Dagverðarneskirkjur sérstakt prestakall, Staðarfellsþing, en það var aldrei staðfest með lögum.  Kirkjan, sem nú stendur, er úr timbri og var vígð 1891.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM