Strandasýsla,

Gönguleiðir Ísland

Sýslumerki Strandasýslu

Skoðunarvert

Menning & saga


STRANDASÝSLA
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

[Flag of the United Kingdom]
In English

Strandasýsla liggur að vestanverðum Húnaflóa, nær frá Geirólfsgnúpi að norðan að Hrútafjarðará og Holtavörðuheiði að sunnan. Sýslan er 2630 km². Strönd sýslunnar er vogskorin, með fjölda fjarða og víkna. Flestir fjarðanna eru stuttir, einkum þó norðan til. Stærstir eru Steingrímsfjörður og Reykjarfjörður. Meðfram ströndinni er aragrúi eyja og skerja og sigling óhrein. Stærst eyja er Grímsey í mynni Steingrímsfjarðar. Fram milli fjarð ganga brött fjöll og múlar en fremur lágt hálendi og heiðar að baki, einkum innan til. Undirlendi er mest upp frá Steingrímsfirði. Veðrátta er hráslagaleg á Norður-Ströndum og hafís oft við land. Bergtegund er blágrýti. Eldstöðvar eru engar. Surtarbrandur og plöntusteingervingar eru víða, einkum við Steingrímsfjörð.

Jarðhiti er allvíða, mestur í Reykjanesi milli Reykjaneshyrnu (316m) og Trékyllisvíkur og í Bjarnarfirði syðri. Norðan til er yfirleitt fremur lítill gróður og með nokkrum fjallablæ en á Inn-Ströndum er gróður meiri, jarðvegur þykkari og betra til ræktunar. Skógur er ekki teljandi en kjarrlendi töluvert. Byggð er strjál í sýslunni og nú komin í eyði norðan Ingólfsfjarðar. Hólmavík er eina kauptúnið en auk þess eru þorp á Drangsnesi og Borðeyri og þorpsvísar á Gjögri og í Djúpuvík, sem nú er þó nær í eyði. Verzlunarstaðir eru, auk Hólmavíkur og Drangsness, á Óspakseyri og í Norðufirði í Árneshreppi.

Sumarverzlun er að Brú í Bæjarhreppi. Úr þorpunum er sóttur sjór en annars er landbúnaður aðalatvinnuvegur og er bústofn bænda sauðfé, sem er þar mjög afurðamikið. Aðalsveitirnar eru sunnan Steingrímsfjarðar. Rekar eru víða miklir, æðarvarp og selveiði víða. Samgöngur eru allgóðar norður í Bjarnarfjörð en lengra norður lokast vegurinn í fyrstu snjóum og er ekki ruddur fyrr en seint á vorin. Strandasýsla er lögsagnarumdæmi og situr sýslumaður á Hólmavík.

Hreppar sýslunnar eru: Árneshreppur, Kaldranahreppur, Hrófbergshreppur, Hólmavíkur- hreppur, Kirkjubólshreppur, Fellshreppur, Óspakseyrarhreppur og Bæjarhreppur. Prestaköll eru: Árnesprestakall (kirkjustaður Árnes), Hólmavíkurprestakall (kirkjustaðir Kaldrananes, Drangsnes (kapella), Staður, Hólmavík og Kollafjarðarnes) og Prestbakkaprestakall (kirljustaðir Prestbakki, Óspakseyri og Staður í Staðarhreppi í V-Húnavatnssýslu). Síðan 1970 er Strandasýsla hluti af Húnavatnsprófastsdæmi.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM