Stykkishólmur Snæfellsnes,

Gönguleiðir Ísland


STYKKISHÓLMUR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness.  Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi og er byggðarkjarninn yst á Þórsnesi.  Byggðin stendur á klettaborgum og þar sem voru flóasund á milli þeirra.  Þarna eru þrír aðalklettahryggir, sem liggja frá norðaustri til suðvesturs og heita Ytrihöfði, Höfði og Steinólfshóll.  Fyrir utan bæinn er lítill hólmi sem nefnist Stykki og ber bærinn nafn sitt af honum.  Höfnin er góð frá náttúrunnar hendi, þar sem Súgandisey liggur þvert fyrir landi og ver hana fyrir norðanáttinni.  Uppi á Súgandisey er viti og þangað liggja tröppur frá höfninni.

Útsýni þaðan er frábær í góðu veðri og sagt er að þarna sé góður staður fyrir fólk, sem er í rómantískum hugleiðingum.  Íbúar bæjarins er gjarnan nefndir Hólmarar og hafa þeir gert mjög myndarlegt átak til að varðveita gamlar minjar í bænum, m.a. endurbyggt gömul hús, sem minna á verslun danskra á fyrri öld og í byrjun þessarar aldar.  Jafnframt hefur hús Árna Thorlacius „Norska húsið” verið endurbyggt í upprunarlegri mynd og er þar nú byggðasafn sýslunnar. Hólmarar eru trúir fortíð sinni og halda upp á „Danska daga” á sumarhátíð. 

Hitaveita kom í Hólminn 1999.  Fyrst var sundlaugin tengd og síðan öll húsin í bænum árið 2000.  Borað var að Hofsstöðum í Helgafellssveit, nokkru sunnan bæjarins árið 1996 og upp kom nægilega heitt vatn til verksins.  Framtakssamir menn komu fyrir fiskikerjum við borholuna áður en vatnið var nýtt og fóru að baða sig.  Í ljós kom, að vatnið hafði góð áhrif á húð fólks, einkum þess, sem á við húðvandamál að stríða.  Vatnið var rannsakað og svo virðist sem sölt í því geri það jafngott eða betra til þessa brúks en í heilsulindunum í Baden Baden í Þýzkalandi.  Sundlaug var opnuð í Hólminum 1999.  Árið 1972 var lögð kaldavatnlögn frá lindum við Svelgsárhraun í Helgafellssveit.   

Nýleg kirkja er í Stykkishólmi og þykir hún all sérstök og fögur, minnir helst á fallegan nútímaskúlptúr.

Fransiskussystur reistu sér klaustur, prentsmiðju og kirkju í Stykkishólmi árið 1936.  Þær byggðu síðan spítala þar af miklum stórhug og er hann starfræktur enn. Þær hafa starfrækt barnaheimili fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára.  Árið 2009 voru systurnar aðeins fjórar og ákveðið var, að Maríusysur tækju við af þeim.  Amtbókasafnið var stofnað árið 1847 og árið 1960 var byggt hús yfir það á Þinghúshöfða.  Frá Stykkishólmi eru ógleymanlegar skoðunarferðir um hinar fjölmörgu eyjar Breiðafjarðar.  Almennt má segja að ferðaþjónusta í Stykkishólmi sé mjög fjölbreytt og er þar m.a. boðið upp á veiði á sjó, í vötnum og ám.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM