Þingvellir söguágrip,


BLÁSKÓGAR


Galdrar
galdrabrennurLandrekMyndaalbúm

 


ÞINGVELLIR
Helgistaður allra Íslendinga

.

.

Gönguleiðir Þjóðgarðurinn
Hengilsvæðið

 

 

Á Þingvöllum við Öxará komu Íslendingar saman í fyrsta sinni árið 930. Upp frá því voru Þingvellir Fundarstaður þjóðarinnar allt til ársins 1798 eða í 868 ár samfleytt.

Fyrsti hluti þessarar sögu hefur verið nefndur "gullöld Íslendinga". Með þeim orðum er skírskotað til íslenska Þjóðveldisins er stóð frá 930 til 1262. Þann tíma allan voru Íslendingar sjálfstæð þjóð. Æðsta yfirstjórn landsins var í höndum Alþingis á Þingvöllum. Alþingi var löggjafarsamkoma og dómþing. Þar voru settar niður deilur af öllu landinu. Að fornu starfaði Alþingi um tveggja vikna bil í júnílok ár hvert en á síðari öldum eina viku í júlíbyrjun.

Á "gullöld Íslendinga" eru Þingvellir í afar mörgum tilvikum vettvangur sagnanna eins og Íslendingasögur greina frá. Íslendingasögur eru flestar ritaðar á 13. öld. Þær eru hornsteinn íslenskrar þjóðmenningar allt fram á þennan dag.

Eftir 1262 varð Ísland hluti af veldi Noregskonungs og síðar Danakonungs (Margrét I, 1380). En Alþingi hélt áfram að koma saman á Þingvöllum sem ráðgefandi þing og dómsstóll fram að lokum 18. aldar. Merki um almenningshátíð á Þingvöllum getur einnig að líta á þessu skeiði. Þannig voru Þingvellir sem fyrr miðstöð þjóðlífs um þingtímann ár hvert.

Á 19. öld voru nokkrar samkomur haldnar á Þingvöllum. Áhrifamest var þjóðhátíðin 1874 þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá. Þá kváðu skáldin um Þingvelli og staðurinn varð táknmynd alls þess sem íslenzkt er. Á 20. öld héldu Íslendingar fjölmennar hátíðir á Þingvöllum. Þeirra merkust er Lýðveldishátíðin 17. júní 1944 en þá var Lýðveldið Ísland stofnað. Aðrir merkisviðburðir, sem hefur verið fagnað á Þingvöllum, eru eittþúsund ára afmæli Alþingis árið 1930, ellefuhundruð ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 og fimmtíu ára afmæli lýðveldisins árið 1994.  Árið 2000 bar hæst Kristnitökuhátíðina, sem var haldin hátíðleg um allt land og og ekki sízt á Þingvöllum 1. og 2. júlí.  Í tilefni þess var vegakerfið til Þingvalla bætt, s.s. GrafningsvegurGjábakkavegur og Þingvallaleið.   Við þessi tíðindi og önnur hafa Þingvellir orðið "helgistaður allra Íslendinga" eins og segir í Lögum um friðun Þingvalla frá árinu 1928.

Auk þess sem að ofan greinir eru Þingvellir markverðir af náttúrufræðilegum ástæðum. Alþingisstaðurinn forni liggur í sigdal. Dældin er hluti af Atlantshafssprungunni miklu er liggur um Ísland frá suðvestri til norðausturs. Þingvallasigdældin hefur tekið á sig núverandi mynd á síðustu tíu þúsund árum. Þingvallavatn er stærsta stöðuvatn á Íslandi og afar auðugt af lífi.

Þingvellir hafa verið friðaðir síðan 1928 og eru elzti þjóðgarður landsins. Hann lýtur stjórn Þingvallanefndar Alþingis.  Árið 2004 voru Þingvellir settir á heimsminjaskrá UNESCO.

Söguslóðir Suðurland


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM