Valþjófsstaður Fljótsdalur,

VALÞJÓFSST.
KIRKJAGönguleiðir Ísland


VALÞJÓFSSTAÐUR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Þetta forna höfuðból og kirkjustaður frá a.m.k. 14. öld er í Fljótsdal. Staðarkirkjan var Maríukirkja að fornu en varð aðalkirkja 1306, sem áður var að Bessastöðum. Núverandi kirkja er steinsteypt með forkirkju, sönglofti og turni og sæti fyrir 95 manns. Teikningar hennar eru frá Húsameistara ríkisins og hún var vígð 1966. Í henni eru kaleikur, patína og oblátuöskjur frá 18. öld, gerðir af Sigurði Þorsteinssyni gullsmið. Dönsk altaristafla, sem sýnir ummyndunina á fjallinu, prýðir kirkjuna. Skírnarsáir eru tveir, annar nýlegur, erlendur og hinn frá miðri 18. öld. Innri útihurðin er eftirlíking Valþjófsstaðarhurðarinnar frægu, sem er varðveitt í Þjóðminjasafni.

Eftirmyndina skar Halldór Sigurðsson frá Miðhúsum. Brottfluttir Fljótsdælingar gáfu kirkjunni hana á vígsludaginn. Þessi gamla Valþjófsstaðahurð mun vera
frá 13. öld, fyrst skálahurð í bústað höfðingja og síðar í stafkirkju Valþjófsstaðar, sem stóð um aldir, allt fram yfir siðaskipti. Hún er 206,5 sm á hæð og sett saman úr þremur borðum með nót og fjöður. Á framhlið hennar eru tveir kringlóttir reitir með útskurði (97 sm í þvermál hvor). Milli reitanna er stór járnhringur með greyptri silfurskreytingu. Margir mætir menn hafa lokið upp einum munni um útskurðinn og talið hann einhvert stílhreinasta, rómanska verk á Norðurlöndum.

Árið 1852 var hurðin seld til Kaupmannahafnar en kom þaðan aftur með fleiri íslenzkum listaverkum árið 1930. Kirkjan átti mikið land og ítök og var eftirsótt vegna mikilla tekna, góðra húsa og veðursældar inni í Fljótsdalnum. Bróðursonur eins klerkanna, Sigurðar Gunnarssonar, var rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson, sem fæddist á Valþjófsstað og ólst þar upp fyrstu árið. Ofan bæjar á Valþjófsstað eru athyglisverðar bergmyndanir í hlíð Valþjófsstaðafjalls (562m). Þar sést hve blágrýtislögin liggja hvert ofan á öðru og í gegnum þau, á ská, liggur berggangurinn Tröllkonustígur". Séra Ágúst Sigurðsson hefur skráð sögu staðarins í „Forn frægðarsetur".


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM