Vestmannaeyjar,

Meira um Ísland


VESTMANNAEYJAR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Vestmannaeyjar - perlan í hafinu - eru eyjaklasi suður af landinu, sem samanstendur af 15 eyjum og er Surtsey þeirra syðst en Elliðaey nyrst. Surtsey varð til úr miklu neðansjávargosi sem hófst árið 1963 og lauk 1967. Það er lengsta sögulega eldgos á Íslandi.  Heimaey er stærst eyjanna og þar er Vestmannaeyjakaupstaður.

Eldgos hófst á Heimaey árið 1973 og eyðilagði og/eða skemmdi u.þ.b. 60% af öllum húsum bæjarins, u.þ.b. þriðjungur fór undir hraun. Í gosinu fóru nær allir heimamenn upp á land. Þeir voru þá um 5500 talsins, fyrir gos, en flestir sneru aftur að því loknu, og margir fyrr. Einn maður lét lífið í gosinu og nálgast kraftaverk að margir fleiri skyldu ekki farast. Vestmannaeyjar eru hreint náttúruundur, þar er ótal margt að skoða og þarf að eyða þar fleiri dögum til að ná að skoða það allra helzta.

Það er ekki hægt að komast hjá skoðunarferð um Heimaey til að kynnast nýja hrauninu, Eldfelli, Stórhöfða, Herjólfsdal, Heimakletti, byggðasafninu og Sædýrasafninu. Bátsferð umhverfis Heimaey og nærliggjandi eyjar er ógleymanleg.

Frægasti háhyrningur í heimi - Keiko -var fluttur frá Bandarríkjunum til Eyja síðsumars 1998 og kom hann Eyjum aftur á heimskortið. Hann dvelur nú í góðu yfirlæti í Klettsvík. Honum er sleppt út úr víkinni af og til og ráðgert er að sleppa honum lausum árið 2001. Vestmannaeyjar hafa verið mikilvægasta verstöð landsins til fjölda ára og byggist afkoma heimamanna að mestu leyti á fiskvinnslu og útgerð.  Keikó var sleppt á haf út 2003.  Hann hélt sig við Eyjar í nokkra mánuði en tók síðan strikið til Noregs, þar sem hann veslaðist upp og var grafinn með viðhöfn.

Fræg er þjóðhátíð Eyjamanna, sem haldin er ár hvert um verzlunarmannahelgi og dregur til sín fólk alls staðar að af landinu. Til hennar var fyrst stofnað árið 1874, þegar eyjaskeggjar komust ekki til hátíðahalda í landi í tengslum við 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar og móttöku fyrstu stjórnarskrár landsins úr hendi Kristjáns IX, Danakonungs, Á Þingvöllum. Þá ákváðu Vestmannaeyingar að halda sína eigin hátíð. Góðar samgöngur eru við Eyjar hvort sem er með flugi eða ferju.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM