Akureyri meira,

Gönguleiðir Ísland


Myndaalbúm


Gönguleiðir


AKUREYRI MEIRA
.

 


Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Mennta- og menningarlíf blómstrar í bænum.  Þar starfar fjöldi listamanna, sem sýna og selja gestum og gangandi afurðir sínar, og Leikhús Akureyrar leggur þung lóð á vogarskálarnar á hverju ári.  Meðal menntastofnana eru háskóli og menntaskóli með heimavistaraðstöðu, sem veldur talsverðri fjölgun íbúa í bænum á veturna, og er nýtt til hýsingar ferðamanna á sumrin.

Akureyri er einnig miðstöð heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi.  Þar er stórt og fullkomið sjúkrahús, sem er í útrásarham, líkt og fleiri slíkar stofnanir á landinu.

Akureyringar eru kunnir fyrir skíðamennsku og aðstaðan í
Hlíðarfjalli, rétt ofan við bæinn, laðar að fjölda ferðamanna á veturna.  Á sumrin iðar bærinn af lífi og efnt er til margs konar viðburða til að laða ferðamenn að.  Sundlaugin er meðal vinsælustu afþreyingarstaða bæjarins.  Ferðaþjónustan er mikilvægur og vaxandi atvinnuvegur, sem Akureyringar hlúa vel að.

Úrval veitinga- og gististaða hæfir buddum flestra, sem ákveða að dvelja um stund í bænum.  Mörg fyrirtæki bjóða gestum fjölbreytta möguleika til afþreyingar, s.s. skoðunarferðir vítt og breitt um Norðurland á landi, sjó og í lofti, veiðar í ám og vötnum, strandveiði, sjóstangaveiði, gönguferðir, skautahöll og fjörugt næturlíf.

Akureyri er aðalmiðstöð samgangna á Norðurlandi.  Umferðarmiðstöðin er upphafs- eða endastöð áætlunarbíla og skoðunarferða.  Sama má segja um flugvöllinn, sem tengir bæinn við höfuðborgarsvæðið oft á dag og þaðan er síðan flogið til ýmissa áfangastaða á Norðurlandi.

Meðal skoðunarverðra staða á Akureyri eru öll söfnin, galleríin, Lystigarðurinn, Akureyrar- og Glerárkirkja og gömlu bæjarhlutarnir.  Sunnan Akureyrar er Kjarnaskógur, sem er vinsælt útivistarsvæði, líkt og gönguleiðirnar í Glerárdal, þar sem gamla virkjunin hefur verið endurbyggð.

Atvinnulíf Akureyrar byggist aðallega á fiskveiðum og vinnslu, iðnaði, ferðaþjónustu, menningar- og menntamálum.

Kræklingahlíð er sveitin milli ósa Hörgár og Glerár vestan Eyjafjarðar.  Vestan að henni er Hlíðarfjall og nokkrar smávíkur skerast inn í ströndina, s.s. Skjaldarvík, Krossanesbót, Gæsavík og Dagverðareyrarvík.  Þar var sums staðar síldarverkun fyrrum.  Sveitin er öll gróin, nokkuð flatlend með ströndinni og aðlíðandi og allþéttbýl, víða tvær bæjarraðir.  Mikið land hefur verið ræktað, þannig að mýrlendi hefur minnkað verulega.  Eftir aldamótin 1900 óx þorp við Glerá.  Það og syðstu bæirnir í Kræklingahlíð eru nú hluti af Akureyri.

Eyjafjarðarsveit nær yfir allan Eyjafjarðardalinn.  Þar er margt áhugavert og þaðan fá Akureyringar heita vatnið úr borholum að Laugalandi.  Sé Eyjafjarðardalur ekinn á enda, er hægt að halda áfram á fjallabílum upp úr dalnum til suðurs að Laugafelli og inn á leiðina yfir Sprengisand, vestur á Kjalveg eða niður í Vesturdal í Skagafirði.

Fjöldi veiðistaða, margar ár og vötn, eru í og í nágrenni Akureyrar.  Oft má sjá fjölda fólks með veiðistangir við botn Eyjafjarðar og Eyjafjarðará getur verið gjöful.  Þar er einnig fjölskrúðugt fuglalíf, sem margir náttúruunnendur njóta.  Þá er ekki langt í Hraunsvatn eða Fnjóská.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM