Dagsferðir frá Reykjavík,

Meira um Ísland


Gönguleiðir Ísland


DAGSFERÐIR FRÁ REYKJAVÍKFerðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Gullfoss-Geysir 1-2 dagar.
Stytzta leiðin austur í Hveragerði  er um Hellisheiði.  Þaðan er haldið í átt að Selfossi og beygt upp Grímsnesið, þar sem er upplagt að kíkja á Kerið og etv. Skálholt áður en komið er að Gullfoss og Geysi..  Þaðan er haldið um Laugardalinn og Laugarvatn, yfir Laugarvatnsvelli og Gjábakkaveg til Þingvalla. Þessari leið er vitaskuld hægt að snúa við og vegalengdin er u.þ.b. 265 km.

Reykjanes-Bláa lónið-Grindavík

Það er ýmislegt hægt að gera á leiðinni til eða frá Bláa lóninu, m.a. að heimsækja Bessastaði, Grindavík, Gjána í Svartsengi, Festarfjall eða jafnvel að aka alla leið út á Reykjanestá og um Hafnir til baka.  Vegalendin er u.þ.b. 120 km.

Suðurströndin.
Leiðin liggur um Hellisheiði eða Þrengsli til Hveragerðis.  Þegar Suðurlandsundirlendinu sleppir, liggur vegurinn nær sjó undir Eyjafjöllum.  Á leiðinni eru aðallega tveir fossar, Seljalandsfoss og Skógafoss, heimsóttir og sumir bregða sér á snjósleða upp á Mýrdalsjökul.  Skógasafn er meðal athyglisverðustu byggðasafna landsins og þar rís nú samgöngusafn að auki.  Bezt er að aka alla leið til Víkur og bregða sér út í Dyrhólaey og upp að Sólheimajökli í bakaleiðinni.  Það er upplagt að koma við á Eyrarbakka og Stokkseyri á leiðinni heim.  Þessi leið er u.þ.b. 390 km löng.

Kaldidalur.
Það er hægt að aka um Kaldadal hvora leiðina sem er, annaðhvort fyrst um Borgarfjörð eða Þingvelli.  Óhætt er að mæla með leiðinni fyrir Hvalfjörð á góðum degi, yfir Svínadal og Dragháls, fyrir Skorradal upp að Deildartunguhver,
Reykholti , Hraunfossum og Húsafelli.  Kaldidalur var fjölfarnasti fjallvegur landsins á fyrri tíð og er enn vinsæll.  Uxahryggjaleið liggur upp úr Lundareykjadal og kemur inn á Kaldadalsleið við Brunna.  Þar fyrir sunnan á leiðinni til Þingvalla eru Hallbjarnarvörður, Biskupsbrekka, Víðiker, Tröllháls, Ormavellir, Sandkluftir, Hofmannaflöt, Sleðaás og Bolabás.

Veiðiferð.
Það þarf ekki að fara langt frá höfuðborgarsvæðinu til að komast í veiði, bæði í vötnum og ám.  Kíktu á veiðivefinn.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM