Reykjanes,

Meira um Ísland


Gönguleiðir Ísland


REYKJANES
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur.  Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum.  Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið.  Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri.  Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali.  U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²).  Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Reykjanes:  Jarðskjálftar tíðir.  Fjögur til fimm söguleg gos á Reykjanesi á tímabilinu 875 - 1340 og hraun u.þ.b. 16 talsins.  Hraun við Hlíðarvatn frá 1340. Ögmundarhraun frá 1150.  Hraun efst í Heiðmörk og Í Bláfjöllum u.þ.b. 1000 ára.  Svínahraun gæti verið kristintökuhraunið  frá  1000.  Svartahraun við Bláa lónið frá 1226.  Kapelluhraun frá 1150.  Afstapahraun frá sögulegum tíma.  Stampahraun og Arnarseturshraun frá 1226.  Sjá Jökul frá 1988 (kort af Reykjanesi), Eldfjallafræði eftir Decker og Decker, nýjustu útgáfu Jarðfræði Þorleifs Einarssonar, Náttúrufræðingurinn 52 (80-86); 53 (13-60); 53 (53-85); 54 (77-85); 54 (149-154) eftir Svein Jakobsson, Acta Naturalia Islandica (Náttúrufræðistofnun); The Petrology of recent rocks in the eastern volcanic zone 1979 eftir Svein Jakobsson.

Búrfellshraun er ca. 7200 ára (C14), gæti verið eitthvað yngra vegna skekkjuvalds C14 aðferðarinnar, sem er óþekktur.

Kapellu- eða Nýjahraun rann á fyrri hluta 11. aldar (1010-1020).  Heilög Barbara, verndari ferðamanna, jarðfræðinga og málmbræðslumanna.  Lindir austan álvers gáfu Straumsvík nafn (nú listamannamiðstöð).  Einnig miklar lindir austan Straumsvíkur.

Hrútagjárdyngjuhraun ná frá Hvaleyrarholti að Vatnsleysuströnd (Vatnsleysuvík).  Þar taka við

Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun).  Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja.  Dalur milli dyngnanna.  Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun.  Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því).  Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra.  Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri.  Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi).  Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið.  Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára).  Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára).  Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.

Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin.  Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim.  Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur.

Vogar (áður Kvíguvogar) og Vogastapi (Kvíguvogastapi; grágrýti).  Stakksvogur á milli.

Misgengi sunnan vegar við Vogastapa, Grímshóll með vörðu (75m).  Lábarið grjót alls staðar meðfram vegi um Vogastapa.  Vogastapi og Miðnesheiði eru gamlar dyngjur.  Keflavíkurflugvöllur er á dyngju.  Sandfellshæð er dyngja.

Stapafell myndaðist undir ís eða í sjó.  Þar er mikið bólstraberg með ólívínkristöllum neðst í bólstrunum.  Ástæður fyrir myndun bólstrabergs eru lítt kannaðar en talið er, að mismunur hitastigs hrauns og vatns og þrýstingur í vatninu hafi áhrif á myndun þess.  Í bólstrunum er ólívín (meira neðst vegna sökks), plagíóklas og ágít (svart).  Svört lög í Stapafelli eru aska (bendir til blandaðs goss), sem hefur setzt til í vatni (mjög reglulega lagskipt).  Sprungur liggja víða í gegnum Stapafell.  Búið er að fjarlægja slatta af fjallinu til mannvirkjagerðar, m.a. Keflavíkurflugvallar.

Rauðamelur er fyrrum sjávargrandi, sem liggur austur úr Stapafelli, myndaður úr efni úr fellinu.  Hann varð til við hærri sjávarstöðu, þegar sjór braut úr því.  Síðan flæddu hraun.  Þau eru úr Sandfellshæð (4 km³).  Hringvegur liggur um Stapafell.

Súlur heitir tindur vestan Stapafells (móberg).  Píkrítblágrýti (auðugt af ólívíni) er vestan Sandfellshæðar.

Seltjörn, sunnan Vogastapa, er lægsti hluti sigdals.  Sunnan tjarnarinnar eru berglög, sem hafa snarast til suðurs og hallast á milli sprungna.

Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur.  Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði.  Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því.  Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára.  Án þess væri engin höfn í Grindavík.  Grindavík fær neyzluvatn frá Svartsengi en fékk áður 12°C heitt vatn, sem hafði flest einkenni hitaveituvatns.

Sandey í Þingvallavatni er u.þ.b. 2000 ára.

Leitarhraun, þar sem Raufarhólshelli er að finna, er u.þ.b. 4800 ára.

Stuðlar myndast hornrétt á kólnunarflöt hrauna.  Þar sem rósir og sólir koma fram í bergi er líklega um gígtappa eða þrönga hraunrás að ræða, þar sem hraunið hefur kólnað frá öllum hliðum.  Bergið storknar hægast í miðju og verður þéttast þar.

Neyzluvatn liggur í lögum ofan á sjónum undir hraunum Reykjanesskagans.  Rúmlega 100 holur hafa verið boraðar til rannsókna.  Grunnvatnslagið er 35-40m þykkt og endurspeglar landslagið.  Um sprungusvæði skagans rennur mikið og straumþungt grunnvatn, ef hitt þrýtur.

HELZTU ELDFJÖLL JARÐAR

MESTA SÖGULEGA ELDGOS JARÐAR


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM