Krafla Leirhnjúkur Gjástykki,

Meira um Ísland


Gönguleiðir Ísland


KRAFLA - LEIRHNJÚKUR - GJÁSTYKKI
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Kröflusvæðið er megineldstöð. Gífurlegir kraftar toga jarðskorpuna sundur og rífa í hana sprungur sem blasa við augum. Þær eru um 100 km langar og stefna nokkurn veginn í norður til Öxarfjarðar og suður í Bláfjall. Landið vestan sprungnanna rekur stöðugt í vestur en eystri hlutinn þokast til austurs. Sprungusvæðið gliðnar að meðaltali um 2 sm á ári. Stóragjá er skýrt dæmi um einkenni þessa landreks. Sumar sprungurnar hafa missigið og stöllótt landslag myndazt. Dalfjall hefur orðið til með þeim hætti. Eldgos verða gjarnan á slíkum sprungum. Myndast þá annaðhvort gígaraðir eins og Þrengslaborgir eða hraunelfur sem Eldá er gott dæmi um. Frá þeim hafa ýmist runnið flákar af helluhrauni, sem er tiltölulega slétt og birtist okkur t.d. í Reykjahlíðarhrauni, eða apalhraun, úfið og illt yfirferðar, eins og Nýjahraun.

Fyrir rúmum tíu þúsund árum lá ísaldarjökull yfir svæðinu. Hann hindraði hraunið í því að renna burt frá gossprungunni svo að það hlóðst upp í móbergshryggi eins og Skógarmannafjöll. Búrfell er dæmi um móbergsstapa, sem varð til er gosið náði að brjótast upp úr jöklinum og fylla upp í geilina með gosefnum. Í nokkrum tilfellum hefur súrt hraun myndast undir jöklinum svo úr hefur orðið gljáandi hrafntinna. Hrafntinnuhryggur er dæmi um slíkt fyrirbæri.

Nær allir hverir sem hér vella eru leirhverir, s.s. í Hverarönd og við Leirhnjúk. Frá þeim renna ekki heitir lækir nema neðanjarðar.  Grjótagjá gott dæmi um slíkan læk. Í Leirbotnum má sjá hvernig öflugir gufustrókar stíga oft upp af slíkum hverum. Stundum verður gufuþrýstingurinn svo mikill að hann sprengir af sér yfirborðið og skilur eftir pytti eins og í Hveragili. Víti er stór gígur er varð til við sprengigos af þessu tagi og Hverfjalli var ausið upp af fjölda slíkra sprenginga.

Eitt helsta einkenni megineldstöðva er askjan, sem verður oftast til í miðju þeirra. Fyrir rúmlega eitt hundrað þúsund árum seig eða féll miðja eldstöðvarinnar umhverfis Leirhnjúk um nokkur hundruð metra í stórkostlegu gosi og myndaði öskju sem var 8 -10 km í þvermál. Á löngum tíma hefur hún smám saman fyllst af gosefnum, hrauni og ösku. Hún er því nærri horfin og leita þarf vandlega til að sjá ummerki hennar.

Undir Leirhnjúki er kvikuhólf á 3 -8 km dýpi, fullt af fljótandi hrauni. Á nokkurra alda fresti brýtur hraunið sér leið út í neðanjarðarsprungu eða upp á yfirborðið í sprungugosi og þá gliðnar landið um nokkra metra. Slík umbrot standa oft lengi, jafnvel í áratug eins og á árunum 1975 -1984.
Þá urðu alls níu sprungugos og samfara þeim og milli þeirra bæði landris og landsig vegna kvikuhlaupa.  Mesta landris mældist í upphafi goshrinunnar 1975 alls 2,3 m.  Heildarflatarmál nýrra hrauna í lok Kröfluelda var tæplega 66 km².

Sprungugosin í tímaröð:
20. desember 1975 – febrúar 1976.  Við Leirhnjúk.  Hraun 0,036 km².
27. – 29. apríl 1977.  Norðan Leirhnjúks.  Hraun 0,001 km².
8. – 9. september 1977.  Norðan Leirhnjúks.  Hraun ½ km².
16. marz 1980.  Við Sandmúla.  Hraun 1,3 km².
10. – 18. júlí 1980.  Snagaborgir.  Hraun 5,3 km².
18. – 23. október 1980.  Við Sandmúla.  Hraun11,5 km².
30. janúar – 4. febrúar 1981.  Éthólaborgir.  Hraun 6,3 km.
18. – 23. nóvember 1981.  Suðvestan Sandmúla.  Hraun 17 km².
4. – 18. september 1984.  Hraun 24 km².


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM