Torfajökull,

Meira um Ísland


Gönguleiðir Ísland


TORFAJÖKULL
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Torfajökulssvæðið umgirðir stærsta háhitasvæði landsins, u.þ.b. 140 km² að flatarmáli og eldvirka sprungubelti þess er u.þ.b. 6 km breitt og 31 km langt.  Þarna er líka stærsta kunna ríólítsvæði landsins, þar sem ljósleitt og súrt berg þekur 300-400 km² svæði.  Á sama svæði er einnig að finna ýmiss konar brotaberg, blágrýtishraun, ísúr hraun, móberg, jökulset og ríólithrauka.  Víða má rekja uppruna jarðmyndana til síðasta hlýskeiðs og jökulskeiðs ísaldarinnar.

Hæsti tindur svæðisins er Háskerðingur í Kaldaklofsfjöllum, 1278 m og hálendið er mjög giljótt.  Í grennd Landmannalauga ber mikið á ríólíti, s.s. í Brennisteinsöldu, sem myndaðist bæði á síðasta hýskeiði og jökulskeiði auk nútíma.  Bláhnjúkur varð til við gos undir jökli og Laugahraunið telst vera frá gosskeiðinu í kringum 1480 eins og Námshraun.  Nútímaeldvirknin hefur aðallega verið vestantil á svæðinu frá Laufafelli í suðri að Stút og Ljótapolli í norðri.  Þaðan liggur sprunguþyrping Veiðivatnasvæðisins allt að Bárðarbungu.

Tvílitt gjóskulag frá 10. öld, sem er kallað landnámslagið, var lengi talið eiga uppruna sinn á norðanverðu Torfajökulssvæðinu en síðari tíma kenningar hafa byggzt á því, að dökki hluti lagsins sé kominn úr Vatnaöldum hjá Veiðivötnum í kringum árið 900.  Ríólíthluti lagsins er rakinn til eldvirkni á Torfajökulssvæðinu samtímis myndun Hrafntinnuhrauns.  Syðstu minjar eldgosa eru hjá Laufafelli og Skyggnisvötnum við Miðveg (Fjallabakleið syðri).

Eldvirkni á Veiðvatnasvæðinu í kringum árið 150 e.Kr. hefur verið staðfest.  Samtímis varð sprungugos í grennd við Hnausapoll (Sigölduleið) og Dómadalshraun myndaðist í súru gosi (Dómadalsleið).  Ekki er fulljóst, hve mörg ríólíthraun skal telja á Torfajökussvæðinu en þau gætu verið 8-11.

Meira


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM