Torfajökull kaldaklofsfjöll kaldaklofsjökull,

Gisting & tjaldst.
Hálendið


Gönguleiðir Ísland


TORFAJÖKULL
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Torfajökull rís hæst í 1190 m og flatarmál hans er u.þ.b. 15 km².  Hann er ekki auðséður úr öllum áttum, því víða skyggja önnur fjöll á hann, einkum að norðanverðu.  Frá honum falla margar kvíslar til Markarfljóts og Hólmsá á upptök sín í honum.  Ganga á jökulinn er ekki erfið, því hann er greiðfær og útsýni er afbragðsgott á góðum degi.  Umhverfi Torfajökuls er eitthvert litskrúðugusta og fjölbreyttasta ljósgrýtissvæði landsins og þar er gríðaröflugt háhitasvæði.  Einu hrafntinnuhraun landsins eru í næsta nágrenni hans. Þau hafa líklega myndazt í fjórum gosum eftir að ísöld lauk og einhver eftir landnám.  Stór askja myndaðist á Torfajökulsvæðinu á síðasta kuldaskeiði og þessi hraun eru öll á  brúnum hennar.  Háhitasvæðin ná yfir u.þ.b. 100 km² og eru öll innan öskjunnar.  Þar ber mest á brennisteinsaugum og leirhverum en einnig finnast nokkrar laugar.  Margar eldstöðvar eru umhverfis Torfajökul, s.s. Hekla, Eldgjá, Veiðivatnasvæðið, Katla og Eyjafjallajökull.

Kaldaklofsfjöll og Kaldaklofsjökull eru fjalllendi vestan Torfajökuls.  Það er víða hrikalegt og litfögur ljósgrýtisfjöll prýða landslagið.  Auðir tindar standa upp úr jöklinum, sem hefur tengzt Torfajökli fyrrum.  Háskerðingur (1278m) er hæstur.  Austan í fjalllendinu er Kaldaklof og samnefnd kvísl, sem fellur til Markarfljóts auk Ljósár, Torfakvíslar o.fl.  Sunnan Jökulgils og norðar í fjöllunum er annað Kaldaklof.  Líkt og á Torfajökulssvæðinu er þarna mikill jarðhiti og íshvelfingar undir jökli.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM