Kárahnjúkar,

Gönguleiðir Ísland

Myndaalbúm


KÁRAHNJÚKAR

.

.
[Flag of the United Kingdom]
In English


Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Kárahnjúkar eru móbergsfjöll austan Jökulsár á Dal á móti Hafrahvamma-gljúfrum og Glámshvömmum. Ytri hnjúkurinn er hærri, 835 m.y.s. Megingljúfur Hafrahvamma er 5 km langt, en milli Desjaár og Tröllagils eru u.þ.b. 10 km. Dýpsti hlutinn, milli Glámshvamma og Hafrahvamma, er u.þ.b 200 m djúpur og er kallaður Dimmugljúfur. Þar er gljúfrið mjög hrikalegt og þröngt, vafalaust eitthvert hið stórbrotnasta á landinu.

Virkjun Jökulsár á Brú vegna álvers Alcoa við Reyðarfjörð hófst 2003 og Fljótsdalsvirkjunin var gangsett hinn 30. nóvember 2007.  Afköst hennar eru 690 Mw, talsvert meiri en upprunalega var ætlað.Hálslón

Jökulsá á Dal er stífluð við Fremri Kárahnjúk og er þar jafnframt langstærsta stífla Kárahnjúkavirkjunar sem nefnist Kárahnjúkastífla. Stíflan er 700 m löng og 198 m há grjótstífla með steyptri þéttikápu á vatnshliðinni. Kárahnjúkastífla er meðal hinna stærstu í heimi af þessari gerð og hæsta grjótstífla í Evrópu með steyptri þéttikápu.

Desjárstífla er austan við Kárahnjúkastíflu og Sauðárdalsstífla er í dalverpi að vestanverðu. Þessar hliðarstíflur eru grjót- og malarstíflur með þéttikjarna úr jökulruðningi. Saman mynda stíflurnar þrjár Hálslón sem er 57 km² að stærð. Vatnshæðin er 625 m.y.s. við fullt lón.

Í flestum árum fyllist Hálslón síðsumars. Þegar lónið er fullt er vatni veitt um yfirfall og steypist í um 90 m háum fossi niður í Hafrahvammagljúfur.

Um þessar slóðir liggur jeppaslóð frá Brú á Jökuldal, sem aka má áfram inn á Brúaröræfi og út á Kverkfjallaslóðina nærri eystri brúnni inn í Kverkfjallarana eða talsvert norðar við Arnardal. Einnig liggur jeppavegur upp úr Hrafnkelsdal að Snæfelli og inn á Vesturöræfi.

Tveir vegir með bundnu slitlagi, færir öllum bílum, liggja upp úr Fljótsdal að stíflunum, þannig að hægt er að aka hringleið.  Vatnssöfnun í Hálslón hófst 28. sept. 2006 og brúin yfir gljúfrið er þegar komin í kaf.  Ný leið opnast ekki fyrr en sumarið 2007, þegar vegur verður tilbúinn á stíflumannvirkjunum.

Alls urðu rúmlega 1700 vinnuslys við virkjunarframkvæmdir frá árinu 2002 til 2009.  Á annað hundrað voru enn þá óvinnufærir árið 2010.  Flestir hinna slösuðu, 86%, störfuðu hjá verktakafyrirtækinu Impregilo.  Tæplega 20% hinna slösuðu voru meðal yngstu starfmannanna.  Flestir, 37%, voru á aldrinum 30 til 39 ára, 27% á aldrinum 40 til 49 ára.  Tíu urðu fyrir óbætanlegu líkamstjóni, 122  beinbrotnuðu, 49 urðu fyrir eitrun og 35 brenndust, en 4 létu lífið.

Möðrudalur 67 km <Kárahnjúkar> Brú 33 km, Egilsstaðir 115 km.
.

Jeppaslóð upp úr Hrafnkelsdal
Vegur upp úr Fljótsdal

arrow-from.GIF (274 bytes) Egilsstaðir  
Brú
Brúardalir
Laugarvalladalur
Kárahnjúkar
arrow-to.GIF (271 bytes)


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM

Af vefsetri Kárahnjúkavirkjunar árið 2002.

Fyllingarefni í Kárahnjúkastíflu verður alls 8,5 milljónir rúmmetra. Hæð Desjarárstíflu verður allt að 60 metrar.
Jarðgöng vegna virkjunarinnar verða alls um 72 kílómetrar!

Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar          690 megavött
   
 Tryggð orkuvinnslugeta  4.600 gígavattsstundir á ári
   
 Hverflar  Francis, lóðréttur ás

    Fjöldi

 6
    Hönnunarrennsli  24 rúmmetrar á sekúndu hver
    Stærð  115 megavött hver
   
 Hálslón  
    Flatarmál lóns þegar það er fullt  57 ferkílómetrar
    Lengd lóns þegar það er fullt  25 kílómetrar
    Miðlunarrými  2.100 gígalítrar
    Vatnsborðshæð þegar lón er fullt  625 metrar yfir sjávarmáli
    Lágmarkshæð vatnsborðs við rekstur  575 metrar yfir sjávarmáli
    Vatnasvið  1.806 ferkílómetrar
    Áætlað meðalrennsli í Hálslón  107 rúmmetrar á sekúndu
   
 Kárahnjúkastífla  
    Mesta hæð stíflu  198 metrar
    Lengd stíflu  700 metrar
    Fyllingarefni í stíflu  8,4 milljón rúmmetrar
   
 Desjarárstífla  
    Mesta stífluhæð  68 metrar
    Lengd stíflu  1.100 metrar
    Fyllingarefni í stíflu  2,9 milljón rúmmetrar
   
 Sauðárdalsstífla  
    Mesta stífluhæð  29 metrar
    Lengd stíflu  1.100 metrar
    Fyllingarefni í stíflu  1,6 milljón rúmmetrar
   
 Ufsarlón  
    Flatarmál lóns þegar það er fullt  1 ferkílómetri
    Vatnsborðshæð þegar lónið er fullt  625 metrar yfir sjávarmáli
    Vatnasvið  430 ferkílómetrar
    Áætlað meðalrennsli í Ufsarlón  31 rúmmetri á sekúndu
   
 Ufsarstífla  
    Mesta stífluhæð  37 metrar
    Lengd stíflu  600 metrar
    Fyllingarefni í stíflu  0,5 milljón rúmmetrar
   
Kelduárlón  
    Flatarmál lóns þegar það er fullt  7,5 ferkílómetrar
    Vatnsborðshæð þegar lónið er fullt  669 metrar yfir sjávarmáli
    Miðlunarrými  60 gígalítrar
   
 Kelduárstífla  
    Mesta stífluhæð  26 metrar
    Lengd stíflu  1.700 metrar
    Fyllingarefni í stíflu  0,7 milljón rúmmetrar
   
 Jarðgöng  Alls um 72 kílómetrar
    Aðrennslisgöng frá Hálslóni (þvermál: 7,2-7,6 metrar)  39,7 kílómetrar
    Aðrennslisgöng frá Ufsarlóni (þvermál: 6,5 metrar)  13,3 kílómetrar
    Þrenn aðgöng vegna aðrennslisganga (þvermál: 7,2-7,6 m)  6,9 kílómetrar
    Tvenn hjáveitugöng og aðkoma við Kárahnjúkastíflu  2,4 kílómetrar
    Bergþéttingargöng undir Kárahnjúkastíflu  500 metrar
    Sveiflugöng (þvermál: 4,5 metrar)  1,7 kílómetrar
    Tvenn göng í Hraunaveitu (þvermál: 4,5 metrar)  3,7 kílómetrar
    Tvenn fallgöng að stöðvarhúsi (þvermál: 4,0 metrar)  800 metrar
    Aðkomugöng að stöðvarhúsi (þvermál: 7,5 metrar)  1,0 kílómetri
    Frárennslisgöng (þvermál 9,0 metrar)  1,3 kílómetrar
    Strengjagöng (þvermál 4,0 metrar)  1,0 kílómetri
   
  Frárennslisskurður í Fljótsdal  
    Lengd  2,1 km
    Grafið rúmmál  700.000 rúmmetrar
   
 Heildarfallhæð frá Hálslóni í stöðvarhús í Fljótsdal  599 metrar
   
 Hönnunarrennsli (mesta mögulega rennsli)  144 rúmmetrar á sekúndu
   
 Meðalrennsli  110 rúmmetrar á sekúndu
Meira en hálf öld er liðin frá því að hugmyndir um virkjun Bessastaðaár og Jökulsár í Fljótsdal skutu upp kollinum. Hér er stiklað á stóru frá upphafinu 1946 og nefndir nokkrir af helstu áföngum allt fram á þennan dag þegar nýir og nýir kaflar eru skrifaðir eftir því sem framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun vindur fram.
 • 1946 kemur fram hugmynd um Gilsárvatnavirkjun Bessastaðaáar í skýrslu Sigurðar Thoroddsen og Höskuldar Baldvinssonar. Er hún síðar kölluð Bessastaðaárvirkjun.
 • 1954 setur Sigurður Thoroddsen fram tillögu um Múlavirkjun í Jökulsá í Fljótsdal, með stíflu við Eyjabakkafoss og Eyjabakkalóni þar fyrir ofan. Virkja skyldi ána hjá Arnaldsstöðum.
 • 1969 kemur tillaga frá Orkustofnun um Hólsvirkjun/Fljótsdalsvirkjun, þ.e. að veita Jökulsá úr Eyjabakkalóni í Gilsárvatnalón og virkja með Bessastaðaá og fleiri ám hjá Hóli við Valþjófsstað. Um sama leyti kynntar hugmyndir um Austurlandsvirkjun; samveitu allra jökulánna á NA-hálendinu og virkjun í Fljótsdal.
 • 1974 eru sett lög um Bessastaðaárvirkjun þar sem RARIK var heimilað að reisa og reka virkjun með allt að 32 MW afli og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði virkjunarinnar.
 • 1975 hefjast umhverfisrannsóknir vegna Bessastaðaár- og Fljótsdalsvirkjana. Vegur lagður upp á Fljótsdalsheiði frá Bessastöðum inn á Grenisöldu og reistar vinnubúðir þar.
 • 1979 ákveður iðnaðarráðherra að ráðist skuli í framkvæmd Bessastaðaárvirkjunar en Bragi Sigurjónsson eftirmaður hans í ráðherrastól afturkallar þá ákvörðun mánuði síðar.
 • 1980 er lokið lagningu Kröflulínu og raforkukerfi Austurlands samtengt raforkukerfi landsins. Bessastaðaárvirkjun ekki talin hagkvæmur virjunarkostur eftir það en aukin áhersla lögð á Fljótsdalsvirkjun.
 • 1981 samþykkir Alþingi lög þar sem Landsvirkjun er heimilað að reisa og reka virkjun Jökulsár í Fljótsdal ásamt Blönduvirkjun og fleiri virkjunum sunnan- og norðanlands.
 • 1982 samþykkir Alþingi ályktun þar sem kveðið er á um að Blönduvirkjun skuli ganga fyrir Fljótsdalsvirkjun en hún komi næst á eftir Blöndu í virkjanaröðinni. Iðnaðarráðherra veitir leyfi sama ár fyrir virkjun Blöndu og hefjast framkvæmdir strax.
 • 1990 fellir Alþingi úr gildi ályktun um virkjanaröð frá 1982 og samþykkir að nýtingarmöguleikar orkunnar ráði virkjunarröð. Þó gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að Fljótsdalsvirkjun verði næst á dagskrá, náist samningar um álver á Keilisnesi.
 • 1991 gefur iðnaðarráðherra Landsvirkjun leyfi til að hefja framkvæmdir við allt að 210 MW Fljótsdalsvirkjun með tilheyrandi orkuveitum. Landsvirkjun skal ábyrgjast úrlausn vandamála sem upp kunna að koma vegna athugasemda við virkjunaráformin. Undirbúningsframkvæmdir hefjast strax sama ár og m.a. sprengd 100 metra löng jarðgöng í Teigsfjall. Framkvæmdum hætt eftir að samningar við Atlantsálshópinn fara út um þúfur.
 • 1999 er Hallormsstaðaryfirlýsingin svokallaða undirrituð, um vilja íslenskra stjórnvalda, Norsk Hydro og Landsvirkjunar til að kanna hagkvæmni þess að reisa álver í Reyðarfirði sem knúið yrði orku frá Fljótsdalsvirkjun. Harkalega tekist á um virkjunaráform. Annars vegar háværar kröfur um að virkjunin fari í mat á umhverfisáhrifum, samkvæmt lögum frá 1994 en hinsvegar bent á að í bráðabirgðaákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum er skýrt tekið fram að undanþegnar væru framkvæmdir sem fengið hefðu leyfi fyrir setningu laganna, þ.á.m. Fljótsdalsvirkjun. Landsvirkjun gerir úttekt á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar og birtir skýrslu um málið haustið 1999. Í framhaldi af því staðfestir Alþingi virkjunarleyfið fyrir jól 1999.

2000

 • 2000 tekur málið nýja stefnu þegar íslenskir og norskir fjárfestar sem hyggjast reisa álverksmiðjuna í Reyðarfirði óska eftir endurskoðun á fyrri áformum, af hagkvæmniástæðum. Vilja þeir byggja stærra álver og til að mæta orkuþörfinni er Kárahnjúkavirkjun, með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal, komin á dagskrá.
 • Júní 2000:  Landsvirkjun birtir tillögu að mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Hún er kynnt á fréttamannafundi og á sérstakri heimasíðu, karahnjukar.is. Hönnun, verkfræðistofa, ráðin til að fara með verkefnisstjórn mats á umhverfisáhrifum.
 • Ágúst 2000: Skipulagsstofnun fellst á tillögu að mati á umhverfisáhrifum með tilteknum athugasemdum.

2001

 • Maí 2001: Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar afhent Skipulagsstofnun ásamt fylgigögnum (43 sérfræðiskýrslum og 26 viðaukaskýrslum). Niðurstöður matsins kynntar á fjölda funda með fulltrúum stofnana, samtaka, stjórnvalda og í Opnu húsi fyrir almenning í Reykjavík og á Austurlandi, auk þess sem fjallað er um málið á heimasíðu verkefnisins.
 • Júní 2001:  Kynningu lýkur á mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun berast yfir 300 athugasemdir í bréfum, tölvupósti og símskeytum, auk þess sem von er á álitsgerðum sem Skipulagsstofnun óskaði sérstaklega eftir frá stofnunum og sveitarfélögum.
 •  Ágúst 2001: Skipulagsstofnun leggst gegn Kárahnjúkavirkjun vegna ,,umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar.” Landsvirkjun birtir yfirlýsingu samdægurs þar sem segir m.a. að ,,standi þessi úrskurður óbreyttur verður ekki séð að vatnsorka í jökulánum á Austurlandi verði nýtt.”
 • Ágúst 2001: Meirihluti landsmanna er hlynntur Kárahnjúkavirkjun ef marka má niðurstöður nýrra skoðanakannana Gallup, DV og PricewaterhouseCoopers. Athygli vekur að niðurstöðurnar eru nánast samhljóða. DV-könnunin er gerð fyrir úrskurð Skipulagsstofnunar en hinar tvær eftir úrskurð með tilheyrandi opinberum umræðum.
 • 1. september 2001: Skipulagsstofnun fellst á að reist verði álver við Reyðarfjörð          en setur jafnframt skilyrði sem eigendur Reyðaráls telja ekki vandkvæði að uppfylla.
 • 4. september 2001: Landsvirkjun afhendir umhverfisráðherra stjórnsýslukæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Forstjóri Landsvirkjunar segir að í kærunni sé ,,sýnt fram á að ráðherra hafi öll efni til að taka afstöðu og breyta úrskurði Skipulagsstofnunar.”
 • 12. september 2001: Aðilar NORAL-yfirlýsingarinnar (ríkisstjórnin, Landsvirkjun, Norsk Hydro, Reyðarál og Hæfi) lýsa yfir að endanlegri ákvörðun um hvort reist verði álver og tengd raforkumannvirki á Austurlandi sé frestað frá 1. febrúar 2002 til 1. september 2002. Þörf sé á rýmri tíma til að vinna að umhverfismálum virkjunarinnar og fjármögnun álversins.
 • 20. desember 2001: Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, fellst á        Kárahnjúkavirkjun og fellir úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 þar sem lagst var gegn framkvæmdinni.  Ráðherra segur jafnframt skilyrði í 20 liðum þar sem þyngst vegur að fallið skuli frá nokkrum smærri veitum og yfirfallsvatn úr Hálslóni skuli renna niður í Hafrahvammagljúfur en ekki um Desjarárdal.

2002

 • 22. mars 2002: Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, birtir yfirlýsingu á Alþingi um að Norsk Hydro treysti sér ekki til að standa við það ákvæði NORAL-yfirlýsingarinnar að endanleg ákvörðun um álver og virkjun á Austurlandi verði tekin fyrir 1. september 2002. Hydro kveðst þurfa lengri tíma til að meta fjárfestingarstefnu sína til lengri tíma í ljósi nýlegra kaupa fyrirtækisins á þýska fyrirtækinu WAW.
 • 3. apríl 2002: Iðnaðarráðherra  skipar þriggja manna nefnd til að kanna hug annarra álfyrirtækja en Norsk Hydro til fjárfestingar í álveri við Reyðarfjörð. Finnur Ingólfsson, Seðlabankastjóri, er formaður nefndarinnar og með honum starfa Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í iðnaðarráðuneytinu. Bæði Finnur og Friðrik eru fyrrverandi iðnaðarráðherrar!
 • 8. apríl 2002: Alþingi samþykkir frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimild til handa Landsvirkjun um að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal með allt að 750 MW afli og virkja til þess Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal.  Lögin voru samþykkt með 44 atkvæðum gegn 9, tveir þingmenn sátu hjá en átta voru fjarstaddir atkvæðagreiðslu.
 • 19. apríl 2002: Fulltrúar bandaríska álfyrirtækisins Alcoa og Fjárfestingarstofunnar-orkusviðs samþykkja viðræðuáætlun um möguleika á að reisa álver í Reyðarfirði.
 • 23. maí 2002: Fulltrúar Alcoa og Fjárfestingarstofunnar-orkusviðs undirrita       samkomulag um framhald viðræðna um byggingu álvers í Reyðarfirði. Gert er ráð           fyrir 320.000 tonna álveri sem reist verði í einum áfanga. Ákveðið verði með   framhald viðræðna fyrir 18. júlí n.k.
 • 12. júlí 2002: Stjórn Alcoa samþykkir að fela stjórnendum fyrirtækisin að halda            áfram viðræðum um byggingu nýs álvers á Íslandi sem fengi orku frá        Kárahnjúkavirkjun.
 • 19. júlí 2002: Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, G. John Pizzey, aðstoðarforstjóri Alcoa Inc. og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingu um framhald viðræðna um ,,mat og hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni sem tekur til byggingar álvers á Austurlandi.” Jafnframt er formlega slitið viðræðum við Norsk Hydro. Viljayfirlýsingin kveður meðal annars á um eftirfarandi:
  • Áætluð framleiðslugeta nýs álvers verður u.þ.b. 295.000 tonn af áli á ári.
  • Undirbúningur virkjunarframkvæmda hefst þegar í stað og Alcoa ber hluta þeirrar fjárhagsáhættu sem Landsvirkjun tekur vegna þessa.
  • Landsvirkjun ræðst í að reisa Kárahnjúkavirkjun með uppsettu afli allt að 630 MW samkvæmt heimild Alþingis frá 16. apríl 2002. Miðað er við að tryggja álverinu rafmagn snemma á árinu 2007 eða fyrr.
 • 2. september 2002: Iðnaðarráðherra veitir Landsvirkjun heimild til byggingar allt að 750 MW virkjun við Kárahnjúka ásamt aðalorkuveitum á grundvelli laga nr. 38/2002 um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar – og laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Leyfið var veitt á þeirri forsendu m.a. að Landsvirkju beri að taka tillit til skilyrða umhverfisráðherra í úrskurði frá 20. desember 2001.
 • 5. október 2002: Fyrsta steypuvinnan við Kárahnjúkavirkjun. Starfsmenn Malarvinnslunnar hf. á Egilsstöðum renna steypu í mót millistöpuls undir nýja brú á Jökulsá á Dal (Jöklu) innan við væntanlegt stæði Kárahnjúkastíflu.
 • 5. desember 2002: Fjölmenn vígsluathöfn Kárahnjúkavegar og nýrrar brúar yfir Jöklu í félagsheimilinu Végarði í Fljótsdal.
 • 6. desember 2002: Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo með lægstu tilboð í Kárahnúkastíflu og aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar, tvo stærstu þætti framkvæmdanna. Ítalirnir eru vel undir kostnaðaráætlun í báðum tilvikum.
 • 13. desember 2002: Samninganefndir Landsvirkjunar og bandaríska álfyrirtækisins Alcoa ljúka gerð raforkusamnings vegna fyrirhugaðs álvers við Reyðarfjörð. Fyrirvari um samþykki stjórna fyrirtækjanna.

2003

 • 10. janúar 2003: Stjórnir Alcoa og Landsvirkjunar samþykkja raforkusamning vegna álvers við Reyðarfjörð.
 • 2. febrúar 2003: Oddvitar Norður-Héraðs og Fljótsdalshrepps afhenda Landsvirkjun formlegt framkvæmdaleyfi vegna Kárahnjúkavirkjunar.
 • 7. febrúar 2003: Stjórn Landsvirkjunar samþykkir samninga við Impregilo og felur forstjóra fyrirtækisins að gefa út veitingabréf fyrir ítalska verktakann vegna Kárahnjúkastíflu og aðrennslisganga Kárahnjúkavirkjunar.
 • 15. mars 2003: Stóriðjusamningar í íþróttahúsinu á Reyðarfirði að viðstöddum um þúsund manns. Fulltrúar íslenska ríkisins, Alcoa, Landsvirkjunar og Fjarðabyggðar undirrita 14 samninga á íslensku og ensku, alls 42 skjöl. Þjóðhátíðarstemmning á Austfjörðum og flugeldum skotið á loft um kvöldið.
 • 18. mars 2003:  Landsvirkjun og Impregilo undirrita formlega samninga um Kárahnjúkastíflu og aðrennslisgöng virkjunarinnar. Samningar hljóða upp á um 38 milljarða króna auk virðisaukaskatts.
 • 21. maí 2003: Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar íslenska ríkið og Landsvirkjun af kröfum Atla Gíslasonar, Guðmundar Páls Ólafssonar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ólafs S. Andréssonar um að úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 skuli dæmdur ómerkur. Ógildingarkröfunni hafnað með afgerandi hætti.
 • 5. júní 2003: Fosskraft, félag í eigu fjögurra íslenskra og erlendra verktakafyrirtækja, á lægsta tilboð í gerð jarðganga og stöðvarhússhvelfingar í Fljótsdal.
 • 27. júní 2003: Landsvirkjun opnar sýningu um Kárahnjúkavirkjun fyrir almenning í Végarði í Fljótsdal og tekur þar með í notkun nýja gestastofu fyrirtækisins í félagsheimili Fljótsdælinga.
 • 9. september 2003: Landsvirkjun og Fosskraft undirrita samninga um göng og stöðvarhússhvelfingu í Fljótsdal. Samningsupphæð um 8,3 milljarðar króna.
 • 6. október 2003: Landsvirkjun og Va Tech Escher Wyss frá Þýskalandi undirrita samninga um framleiðslu og uppsetningu véla- og rafbúnaðar Kárahnjúkavirkjunar. Samningsupphæð 7,5 milljarðar króna að meðtöldum virðisaukaskatti.
 • 7. október 2003: Heilbrigðisstofnun Austurlands, Impregilo og Landsvirkjun undirrita samning um heilbrigðisþjónustu á virkjunarsvæðinu.
 • 14. nóvember 2003: Biskupinn yfir Íslandi og prestar lúterskra og katólskra kynna sér framkvæmdir á Kárahnjúkasvæðinu og blessa mötuneyti Landsvirkjunar, Impregilo og Fosskrafts.
 • 21. nóvember 2003: Landsvirkjun og þýska fyrirtækið DSB Stahlbau GmbH undirrita samning um stálfóðrun fallganga Kárahnjúkavirkjunar. Samningsupphæð hátt í 2,3 milljarðar króna auk virðisaukaskatts.
 • 6. desember 2003: Starfsmenn Impregilo við Kárahnjúka minnast að katólskum sið dags heilagrar Barböru, verndardýrlings manna er fást við jarðvinnu, sprengiefni og málmbræðslu.
 • 16. desember 2003: Sjónvarpið sýnir heimildarmynd um Kárahnjúkavirkjun, fyrsta hluta þáttaraðar sem Saga Film framleiðir fyrir Landsvirkjun á framkvæmdatíma virkjunarinnar.
 • 18. desember 2003: Hafrahvammagljúfur stíflað Jökulsá á Dal veitt um 835 metra löng hjáveitugöng fram hjá stæði Kárahnjúkastíflu. Vatnið mun renna þar til stíflan verður fullbyggð haustið  2006.
 • 19. desember 2003: Suðurverk hf. í Hafnarfirði á lægsta tilboð í hliðarstíflur Kárahnúkavirkjunar: Desjarárstíflu og Sauðárdalsstíflu.
 • 20. desember 2003: Fyrsta risaborvél af þremur komin í Glúmstaðadal eftir sjóferð frá Cleveland í Bandaríkjunum til Reyðarfjarðar og þaðan áfram á dráttarvögnum í níu klukkustundir á áfangastað við aðgöng þrjú. Borvélin er alls um 130 tonn, stærsta stykki tækisins vegur um 70 tonn. Þetta eru mestu þungaflutningar um þjóðveg hér á landi sem sögur fara af.

2004

 • 23. janúar 2004: Hæstiréttur hafnar með afgerandi hætti kröfu um að úrskurður umhverfisráðherra, frá 20. desember 2001, verði ógiltur. Hæstiréttur staðfestir þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. maí 2003.
 • 24. febrúar 2004: Landsvirkjun og Suðurverk undirrita samning um Sauðárdalsstíflu og Desjarárdalsstíflu. Samningsupphæð ríflega 2,4 milljarðar króna að meðtöldum virðisaukaskatti. 
 • 27. febrúar 2004: Oddviti Fljótsdalshrepps tekur við lyklum að nýju og gjörbreyttu félagsheimili, Végarði,eftir viðbyggingu og víðtækar endurbætur í vetur. Þarna verður aðsetur sveitarstjórnar og miðstöð Landsvirkjunar vegna sýningarhalds og upplýsingamiðlunar um Kárahnúkavirkjun.
 • 3. mars 2004: Lokið við að setja samanf yrstu risaborvélina af þremur sem nota á við að bora aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar. Vélin flutt að munna aðganga 3.
 • 2. apríl 2004: Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir á samráðsfundi fyrirtækisins að raforkuframleiðsla í Kárahnjúkavirkjun hefjist um mitt ár 2007 og þá aukist orkuvinnsla Landsvirkjunar um 60%. Heildarfjárfesting í nýjum stóriðjuverkefnum hér á landi, sem komin eru í framkvæmd eða eru í undirbúningi, verður á bilinu 250-300 milljarðar króna.
 • 2. apríl 2004: Virkjunarandstæðingar reyndu ,,með áróðursbrögðum” að koma í veg fyrir þátttöku erlendra banka í stóru sambankaláni Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar, segir forstjóri Landsvirkjunar. Umrætt lán er upp á 400 milljónir Bandaríkjadala, stærsta sambankalán sem tekið hefur verið af íslenskum aðila á alþjóðlegum bankamarkaði. Þrír stærstu íslensku bankarnir eru nú í fyrsta skipti meðal þeirra 19 banka sem tóku þátt í láninu.
 • 24. apríl 2004: Fyrsta risaborvélin gangsett í aðgöngum 3 í Glúmstaðadal. Hún tekur 1,8 metra í hverri færu (stroke). Borinn er skorðaður með tjökkum út í gangaveggina og látinn bora eina færu, hann síðan fluttur fram, skorðaður á nýjan lek og næsta færa tekin. Þannig koll af kolli. Alls verða þrír sams konar risaborar notaðir til að heilbora um 50 kílómetra af aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjuna, yfir 7 metra í þvermál.
 • 24. apríl 2004: Um 130 manns eru viðstaddir opnun sýningar um Kárahnjúkavirkjun í nýrri gestastofu Landsvirkjunar í Végarði í Fljótsdal. Fljótsdælingar fjölmenna í Végarð og þarna eru líka gestir af Héraði, neðan af fjörðum og að sunnan, þar á meðal Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
 • 3. maí 2004: Varnarstíflan í Hafrahvammagljúfri tilbúin.  Í hana hafa farið yfir 56 þúsund rúmmetrar af fyllingarefni og hún er um 50 metra há. Hæsta stífla landsins til þessa.
 • 3. maí 2004: Portúgalir eru nú fjölmennastir útlendinga í hópi alls 1.250 starfsmanna á virkjunarsvæðinu á Austurlandi. Impregilo og undirverktakar fyrirtækisins hafa alls um 1.100 manns á launaskrá um þessar mundir við stíflugerð og borun aðrennslisganga. Hjá Fosskrafti og undirverktökum í Fljótsdal eru um 100 manns við gangagerð og hjá framkvæmdaeftirliti Landsvirkjunar á svæðinu starfa alls um 50 manns. Portúalir eru langfjölmennasti hópur útlendinga, hátt í 400 manns. Þá eru á svæðinu um 100 Ítalir, 60 Kínverjar og um 30 Slóvakar.
 • 9. júlí 2004: Landsvirkjun og Arnarfell ehf. á Akureyri undirrita samning um framkvæmdir við Ufsarveitu: 3,4 km löng jarðgöng, inntak í göng úr Ufsarlóni í Jökulsá í Fljótsdal og 13 km langan veg með bundnu slitlagi frá Laugafelli að Kelduá. Arnarfell átti lægsta tilboðið í verkið og samningurinn um Ufsarveitu mun vera stærsta jarðgangaverkefni sem alíslenskt fyrirtæki tekst á hendur.
 • 26. júlí 2004: Önnur risaborvélin af þremur við Kárahnjúka er komin á blað. Byrjað er að bora með henni í aðgöngum 2 og nú er unnið allan sólarhringinn á tvískiptum vöktum.
 • 5.–12. ágúst 2004: Flóð í Jöklu setja tímabundið strik í reikninginn við framkvæmdirnar og brú yfir gljúfrið er lokuð um hríð. Varnarstíflan í gljúfrinu var hækkuð um 17 metra í öryggisskyni og gegndi hlutverki sínu fullkomlega. Í ljós kemur að hjáveitugöngin í stæði Kárahnjúkastíflu flytja 10-15% minna vatn en gert var ráð fyrir. Aldrei var hætta á að í stífluna kæmi skarð eða að hún gæfi eftir undan þrýstingi flóðvatnsins. 
 • 15. september 2004: Bor í Valþjófsstaðarfjalli er komin upp á yfirborðið í frárennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar og lýkur þar með við að bora lóðrétt fallgöng, 420 metra löng og yfir 4 metrar í þvermál. Tvenn slík göng verða hluti mannvirkja Kárahnjúkavirkjunar.
 • 28. september 2004: Kárahnjúkastífla fyllir Hafrahvammagljúfur nægilega mikið til í dag til að starfsmenn Impregilo geti ekið bíl eftir henni af öðrum gljúfurbarminum yfir á hinn.  Hæð stíflunnar er orðin um 80 metrar frá gljúfurbotni en hún verður nær 200 metra há fullbyggð.
 • 1. október 2004: Allar þrír risaborvélar eru í fyrsta sinn samtímis í gangi í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar eftir að þriðja og síðasta vélin var sett saman og gangsett.
 • 10. október 2004: Slippstöðin ehf. á Akureyri hefur samið við þýska fyrirtækið DSB Stahlbau GmbH um að að stálfóðra fallgöng Kárahnjúkavirkjunar í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal og setja niður tilheyrandi búnað í stöðvarhúsi virkjunarinnar. Í þetta fara um 4.400 tonn af stáli. Tvenn lóðrétt 420 metra löng göng hafa verið boruð úr inntakshelli í fjallinu niður að stöðvarhúshellinum og niður þau mun vatn falla úr aðrennslisgöngunum áleiðis inn á hverfla til framleiðslu rafmagns.
 • 25. nóvember 2004: Hnoðsteypa (RCC-steypa) notuð í fyrsta sinn á Íslandi við Kárahnjúkastíflu. Hnoðsteypa var upprunalega notuð við stíflugerð í Ameríku og kallast þar í landi RCC (Roller Compacted Concrete): sementsblönduð möl sem lögð er út með jarðvinnutækjum og síðan þjöppuð í lögum með valtara. Hlutfall sements í hnoðsteypu er 130 kíló í hverjum rúmmetra af möl en í venjulegri steypu eru að minnsta kosti 350 kíló af sementi í rúmmetra af möl.
 • 1. desember 2004: Lokið við að grafa jarðgöng, hella og skúta í Valþjófsstaðarfjall Fljótsdal, mörgum vikum á undan áætlun. Það hefur tekið verktakann, Fosskraft, aðeins 13,5 mánuði að grafa þrenn göng inn í fjallið, tvo gríðarstóra hella fyrir stöðvarhús og spenna og tilheyrandi ganganet. Byrjað var að sprengja fyrir aðrennslisgöngunum 22. október 2003.
 • 6. desember 2004: Fuglum stafar hvorki hætta af virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka né Norðlingaöldu. Þetta er niðurstaða fastanefndar Bernarsamningsins um vernd villtra dýra, plantna og vistgerða í Evrópu.   Nefndin hélt árlegan fund sinn í Strasbourg núna um mánaðarmótin nóvember/desember.

 2005

 • 10. febrúar 2005: Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo keypti vörur og þjónustu af íslenskum fyrirtækjum fyrir rúmlega 8,3 milljarða króna frá upphafi framkvæmda við Kárahnjúka til ársloka 2004. Impregilo samdi í febrúar 2003 við Landsvirkjun um gerð Kárahnjúkastíflu og aðrennslisganga Kárahnjúkavirkjunar.
 • 23. mars 2005: Landsvirkjun ákveður að taka tilboði Fosskrafts sf. í hlaðhús Kárahnjúkavirkjunar, þjónustubyggingar sem rísa mun í Fljótsdal. Fosskraft átti lægsta tilboð í verkið. Fyrirtækið er í eigu fjögurra fyrirtækja: E.Phil & Sön í Danmörku, Hochtief í Þýskalandi, Íslenskra aðalverktaka hf. og Ístaks hf.
 • 8. apríl 2005: Sameiginlegt verkefni Landsvirkjunar og Alcoa um sjálfbæra þróun á Austurlandi er komið í gang og á sér ekki hliðstæðu í veröldinni. Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, gerði grein fyrir því á ársfundi fyrirtækisins í dag. Dæmi má nefna um það sem fylgst verður með í verkefninu: Hver verða áhrif framkvæmdanna á heiðargæsina? Breytist kyn- og aldurssamsetning fólks á Austurlandi? Breytast tekjur Austfirðinga samanborið við landsmeðaltalið?
 • Apríl 2005:  Tunnelling and Trenchless Construction, stærsta fagtímarit á sviði gangagerðar í heiminum, útnefnir verktakafyrirtækið Impregilo verktaka ársins 2005 í aprílhefti sínu. Tímaritið, sem státar af lesendum í yfir 120 löndum, veitir Impregilo þessa viðurkenningu fyrir Kárahnjúkavirkjun. Dómnefndin segir þetta vera eitt flóknasta verkefni sem lagt hafi verið í auk þess að vera unnið á afskekktu svæði þar sem allra veðra sé von.
 • 19. maí 2005: Lokið við að steypa svokallaðan távegg Kárahnjúkastíflu, mannvirki sem á sér enga hliðstæðu hérlendis en verður ekki sýnilegt nema í skamman tíma í viðbót eða þar til það hverfur inn í stífluna. Táveggurinn gegnir því hlutverki að þétta botn gljúfursins og að vera traust undirstaða kápu sem steypt verður vatnsmegin á stífluna. Yfir 50.000 rúmmetrar af steypu fóru í távegginn, álíka mikið og þarf í 400 einbýlishús.
 • Maí 2005:  Landsvirkjun semur við Fornleifastofnun Íslands um rannsókn á rústum á Hálsi sunnan Kárahnjúka. Mögulegt er talið að rústirnar séu af Reykjaseli, sem kemur við sögu í Hrafnkelssögu Freysgoða.
 • 31. maí 2005: Fyrsti snigillinn hífður á sinn stað í stöðvarhúsinu í Fljótsdal, 29 tonna stykki sem framleitt er á Ítalíu. Snigillinn er hluti af hverfli einnar af sex vélum sem framleiða munu rafmagn Kárahnjúkavirkjunar.
 • 23. júní 2005:  Starfsmenn Impregilo byrja að steypa klæðningu á vatnshlið Kárahnjúkastíflu og nota til þess rafknúið skriðmót.
 • Júlí 2005: Verktakafyrirtækið Arnarfell semur við björgunarsveitina Hérað um viðbúnað á vinnusvæði sínu eystra þar til framkvæmdum lýkur og gefur um leið sveitinni fullbúinn björgunarbíl í viðurkenningarskyni fyrir ómetanlegt starf hennar.
 • Júlí 2005: Síðari hálfleikur hafinn við að flytja fyllingarefni í Kárahnjúkastíflu. Alls eru nú komnar 4,5 milljónir rúmmetra efnis í stífluna af af um 8,5 milljónum rúmmetra að verki loknu.
 • 29. ágúst 2005: Rústir þriggja húsa á Hálsi við Kárahnjúka eru meira en þúsund ára gamlar. Þetta er staðfest með niðurstöðum rannsókna á öskulögum. Garðar Guðmundsson, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun, segir það vera mjög merkilegt að svo gömul hús skuli finnast langt inni á hálendinu, í tæplega 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Páll Pálsson, bóndi á Aðalbóli, fann rústirnar á árinu 2004 og ákvað Landsvirkjun í framhaldi af því að láta rannsaka þær.
 • 2. september 2005: Alls hafa liðlega tíu þúsund gestir komið í Végarð í Fljótsdal í ár til að skoða sýningu Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun. Talan miðast við lok ágústmánaðar og er ívið hærri en á sama tíma í fyrra. Gestir í Végarði voru rétt um 10.000 talsins til loka ágúst 2004 en um 10.200 á sama tíma árið 2005. Sérstaka athygli vekur mikið hve útlendum gestum hefur fjölgað.
 • September 2005: Þýska fyrirtækið DSD Stahlbau GmbH segir upp samningi við Slippstöðina á Akureyri vegna vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Þetta gerist í framhaldi af því að Slippstöðin, undirverktaki DSD,  fékk heimild til greiðslustöðvunar. Verkefnið varðar stálfóðringu tvennra lóðréttra aðrennslisganga í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal (fallganga) og áfram að túrbínum Kárahnjúkavirkjunar. Þýska fyrirtækið stefnir nú að því að taka sjálft við verkinu.
 • Október 2005: Starfsmönnum Impregilo tekst að losa bor 2 og koma honum í gegnum miklar og erfiðar misgengissprungur á 170 metra dýpi í grennd við Þrælaháls. Borinn hefur að mestu verið fastur þarna í hálft ár eða frá því í maí 2005.
 • Október 2005: Framkvæmdir hefjast við að steypa yfirfallsskurð Hálslóns. Tjaldað er yfir vinnusvæðið í yfirfallinu og heitu lofti dælt þar inn til að halda hita á starfsmönnum og sjálfri steypunni.
 • 17. október 2005: Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fer um virkjunarsvæðið og kynnir sér gang mála. Morgunblaðið hefur m.a. eftir honum: „Þarna hafa menn staðið frammi fyrir mjög flóknum verkefnum en ég sé ekki betur en menn séu að leysa þetta allt saman. Þrátt fyrir ákveðnar tafir eru menn enn bjartsýnir á að standast þær tímaáætlanir sem settar voru í upphafi.“
 • 14. nóvember 2005: Tímamót í virkjunarframkvæmdunum þegar fyrsta einingin í stálfóðringu lóðréttra fallganga Kárahnjúkavirkjunar, liðlega 45 tonn að þyngd, er látin síga þar um 400 metra ásamt 6 tonna stýrivirki – alls yfir 50 tonn. Þetta er þyngsta stykki sem hefur verið híft eða látið síga úr svo mikilli hæð á Íslandi til þessa.
 • 18. nóvember 2005: Georg Þór Pálsson rafmagnstæknifræðingur ráðinn stöðvarstjóri Kárahnjúkavirkjunar. Hann vinnur nú sem aðstoðarstöðvarstjóri á Þjórsársvæði en hefur verið hjá Landsvirkjun undanfarin fjögur ár. Á árunum 1994-1997 vann hann einnig hjá Landsvirkjun í Blöndustöð.
 • 19. desember 2005:  Allir þrír risaborarnir snúast nú samtímis í  aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar eftir að bor 3 var ræstur þar á nýjan leik í dag. Þeir hafa ekki verið í gangi allir í einu frá því í byrjun maí 2005. Bor 2 lenti í afar erfiðu misgengi í vor og var stopp mánuðum saman. Bor 3 var stöðvaður á leið sinni í átt að Hálslóni í júlí og ákveðið að snúa honum við til að bora í hina áttina, til móts við bor 2. Draga þurfti bor 3 alla leið út undir bert loft, taka hann í sundur og setja saman aftur. Þessar tilfæringar tóku langan tíma en nú er sem sagt borað á öllum vígstöðvum samtímis.

2006

 • 1. janúar 2006: Landsvirkjun tilkynnir um að samið hafi verið við verktakafyrirtækið Arnarfell um að gera ný aðkomugöng í stóru aðrennslisgöngin, nálægt Hálslóni, til að unnt sé að hraða framkvæmdum og tryggja að staðið verði við tímaáætlun Kárahnjúkavirkjunar. Munni nýju ganganna verður skammt neðan við Desjarárstíflu. Hin nýju aðgöng 4 verða um 400 metra löng og býsna brött.
 • Janúar 2006: Landsvirkjun semur við Héraðsverk ehf. á Egilsstöðum um að grafa frárennslisskurð Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal á grundvelli lægsta tilboðs í verkið. Skurðurinn verður 2,1 km langur og 9 metra breiður í botninn, frá munna frárennslisganga virkjunarinnar út í Jökulsá í Fljótsdal.
 • 26. janúar 2006: Þrír af hverjum fjórum Austfirðinga (76,5%) hafa jákvæð viðhorf til Landsvirkjunar en 10,5% hafa neikvæð viðhorf gagnvart fyrirtækinu. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun IMG Gallups sem er liður í svokölluðu sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, samstarfi sem miðar að því að fylgjast með áhrifum framkvæmda við stóriðju og virkjun á Austurlandi á efnahagslíf, umhverfi og samfélag í fjórðungnum.
 • 21. febrúar 2006: Verktakafyrirtækið Fosskraft skilar af sér mikilvægum verkhluta í stöðvarhúsinu í Fljótsdal: uppsteyptu húsi umhverfis vélar 1, 2 og 3.  Ljúka á við að steypa í kringum hinar þrjár vélarnar í ágúst 2006.
 • 21. febrúar 2006: Góðum áfanga fagnað þegar Impregilo ,,slær í gegn“ í svokölluðum sveiflugöngum í Fljótsdal. Göng eru 1,7 km löng, mikið hallandi og boruð/sprengd skáhallt niður á við. Impregilo hefur sem undirverktaka fyrirtæki frá Slóvakíu, Váhostav að nafni.
 • 27. mars 2006: Starfsmaður verktakafyrirtækisins Arnarfells lést af völdum grjóthruns eftir sprengingu í bergi í aðgöngum 4 í Desjarárdal. 
 • 2. apríl 2006: Starfsmaður verktakafyrirtækisins Suðurverks lést þegar vinnuvél valt við Desjarárstíflu.
 • 10. apríl 2006: Landsvirkjun beinir því til allra verktaka á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka að fara yfir öryggismál sín með það að markmiði að koma í veg fyrir fleiri alvarleg slys og fækka óhöppum svo sem verða má. Þetta kemur fram í bréfi sem Landsvirkjun sendi verktakafyrirtækjum á virkjunarsvæðinu og framkvæmdaeftirliti fyrirtækisins. Þar er sagt að það sé með öllu óviðunandi að fólk láti lífið við virkjunarframkvæmdirnar. Þess vegna verði allir sem hlut eiga að máli að taka öryggismálin alvarlega og kappkosta að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir fleiri slys og óhöpp. Jafnframt er tekið fram að ekki sé verið að saka verktaka um lausatök í öryggismálum heldur sé markmiðið að koma því á framfæri að alltaf megi gera betur varðandi öryggi og vinnuvernd, í samstarfi verktakafyrirtækja, framkvæmdaeftirlits og opinberra stofnana á þessu sviði.
 • Apríl 2006: Landsvirkjun semur við verktakafyrirtækið Arnarfell um framkvæmdir við lokaáfanga Kárahnjúkavirkjunar: gerð Ufsarstíflu og Hraunaveitu. Verkið er í þremur þáttum og Arnarfell átti lægsta tilboð í þá alla.
 • 11. maí 2006:  Ólafur Ragnar Grímsson leggur hornstein að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal og Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdælinga, tilkynnir að stöðvarhúsið hafi fengið heitið Fljótsdalsstöð. Þetta gerðist við hátíðlega athöfn að viðstöddum á fjórða hundrað gesta.
  • Í blýhólknum, sem forsetinn múraði í hornsteininn er meðal annars að finna skjöl, með sjónarmiðum andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar annars vegar og  Landsvirkjunar hins vegar, varðandi undirbúning og ákvörðun um virkjunina.
  • Sex grunnskólanemar aðstoðuðu forsetann við að leggja hornsteininn. Þeir voru á aldrinum níu til fjórtán ára og höfðu skilað framúrskarandi úrlausnum í samkeppni Landsvirkjunar um orkumál í grunnskólum.
  • Ávörp fluttu Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Athöfninni lauk með blessunarorðum séra Láru Oddsdóttur á Valþjófsstað.  Kór Landsvirkjunar söng og með honum Björg Þórhallsdóttir.
 • 6. júní 2006: Hálslón Kárahnjúkavirkjunar fyllist af auri á margfalt lengri tíma en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þetta er álit þriggja fræðimanna við verkfræðideild Háskóla Íslands, kynnt á ráðstefnu um áhrif loftlagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa á Norðurlöndum. Fræðimennirnir umræddu, Birgir Jónsson, Jónas Elíasson og Sigurður Magnússon, telja að Hálslón fyllist af auri á nokkur þúsund árum en ekki á 400-500 árum eins og talað er um í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.
 • 7. júní 2006: Landeigendur á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar leggja fram kröfur sínar varðandi vatnsréttindi. Landsvirkjun gefur af því tilefni út yfirlýsingu þar sem meðal annars kemur fram að hæsta krafa um greiðslur fyrir vatnsréttindi, fyrir hönd 50 jarða við Jökulsá á Dal, sé upp á tæplega 96 milljarða króna og svari til alls stofnkostnaðar Kárahnjúkavirkjunar. Slík kröfugerð komi á óvart og virðist til þess eins fallin að vekja upp væntingar sem flestum megi vera ljóst að geti ekki staðist.
 • 12. júní 2006: Eldur kviknar í miðjum fallgöngum 2 í Fljótsdal, í um 220 metra hæð. Engan sakaði og tjón reyndist mun minna en óttast var í fyrstu. Líklegt að kviknað hafi í út frá rafmagni.
 • 14. júní 2006:  Fyrsti rafall Kárahnjúkavirkjunar kominn inn á gólf í í Fljótsdalsstöð. Hann er um 110 tonn að þyngd, framleiddur hjá VA Tech í Austurríki.
 • 26. júní 2006: Impregilo afhendir öðrum ítölskum verktaka, Calzoni, lokumannvirkin við Hálslón. Calzoni setur upp lokubúnað og ristar í inntaki aðrennslisganganna.
 • 12. júlí 2006: Efsta gólf í kringum vél 6 í stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar steypt í dag og því er nú lokið steypuvinnu þar og í spennasalnum við hliðina. 
 • 13. júlí 2006: Fjórir listamenn hljóta viðurkenningu fyrir tillögur að útilistaverkum tengdum Kárahnjúkavirkjun, annars vegar við Kárahnjúka og hins vegar við stöðvarhúsið í Fljótsdal: Jónína Guðnadóttir, Helgi Kristinsson, Ólafur Þórðarson og Vignir Jóhannsson.
 • 15. júlí 2006: Starfsmenn verktakafyrirtækisins Arnarfells sprengja burt síðasta berghaftið næst inntaki Hálslóns í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Í janúar 2006 var Arnarfelli falið að búa til ný aðkomugöng í Desjarárdal, aðgöng 4, til að flýta fyrir því að  bora og sprengja á hefðbundinn hátt þann kafla sem bor 3 skildi eftir þegar ákveðið var að snúa honum við. Arnarfell hefur nú sem sagt opnað göngin í átt til Hálslóns og leggur síðan til atlögu við kaflann sem eftir er hinum megin aðganga 4.
 • 17. ágúst 2006: Fyrsti spennir Kárahnjúkavirkjunar fluttur frá Reyðarfirði inn í Fljótsdal. Hann vegur 120 tonn og er þyngsti hluturinn sem fluttur hefur verið inn á virkjunarsvæðið eystra frá því framkvæmdir hófust. Heildarþyngd flutningabíls, vagns og spennis er 195 tonn. Ítrustu varúðar gætt þegar ekið var yfir Grímsá og fylgst með því í mælitækjum hvaða áhrif flutningslestin hefði á brúna.  Þessi brú yfir er 70 metra löng í tveimur 35 metra höfum. Mesta sveigja í miðju brúarhafinu mældist tæplega 7 sentimetrar þegar ekið var með spenninn, nákvæmlega í samræmi við niðurstöður í burðarþolsreiknilíkani Vegagerðarinnar – sem var forsenda þess að hún gaf flutningsleyfið. Brúin stóðst því álagið og vel það.
 • 21. ágúst 2006: Lokið við að stálfóðra tvenn fallgöng Kárahnjúkavirkjunar frá botni til topps þar sem þau tengjast aðrennslisgöngunum, 420 metrum ofan við stöðvarhúsið í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal. Þessi verkþáttur hefur gengið afar vel undanfarnar vikur og mánuði.
 • 1. september 2006: Góðum áfanga náð í  gangagerð Kárahnjúkavirkjunar þegar starfsmenn Arnarfells „slógu í gegn“ í aðrennslisgöngunum. Upphaflega var gert ráð fyrir að bor 3 tæki allan þennan áfanga ganganna í átt til Hálslóns en ákveðið var að stöðva borinn á þeirri leið á árinu 2005, snúa við göngunum og bora í hina áttina. Í staðinn skyldi opna þennan hluta aðrennslisganganna með því að bora og sprengja á hefðbundinn hátt.
 • 4. september 2006: Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fer um framkvæmdasvæðið við Kárahnjúka og kynnir sér stöðu mála ásamt eiginkonu sinni, Ingu Jónu Þórðardóttur, Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Leiðsögumaður hópsins var Guðmundur Pétursson, yfirverkefnisstjóri Kárahnjúkavirkjunar á vegum Landsvirkjunar.
 • 9. september 2006: Risabor 1 „slær í gegn“ í aðrennslisgöngunum, fimmtán kílómetrum og tveimur árum eftir að hann fór að snúast. Fjölmargir gestir biðu handan 2,5 metra þykks berghafts sem eftir var og fögnuðu ákaft þegar borinn braust í gegn. Atburður af þessu tagi hefur aldrei fyrr átt sér stað á Íslandi.
 • 23. september 2006: Brúin yfir Jöklu, innan við Kárahnjúkastiflu, fjarlægð. Áin var brúuð þarna við upphaf framkvæmda en nú styttist í að byrjað verði að safna vatni í Hálslón og þar með lýkur brúin hlutverki sínu.
 • 25. september 2006: Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra greinir frá því að hafið sé formlegt samstarf hennar og almannavarnanefndar Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri um gerð viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegs rofs stífla Kárahnjúkavirkjunar.
 • 28. september 2006: Hálslón er byrjað að myndast. Á tíunda tímanum í morgun gaf Agnar Olsen, framkvæmdastjóri verkfræði- og framkvæmdasviðs Landsvirkjunar, fyrirmæli um það í talstöð á austurbakka Hafrahvammagljúfra að Impregilomenn á vesturbakkanum byrjuðu að láta lokur síga niður fyrir munna hjáveituganganna. Lokurnar eru tvær og um hálftíma síðar voru þær komnar niður í framtíðarskorður sínar. Beljandi fljótið hafði þá á skömmum tíma breyst í stöðuvatn og vatnsborð þess tók að rísa hratt enda gljúfrin þröng á þessum slóðum.
  • Fréttasjónvarpið NFS á vegum 365 miðla sendi beint frá Kárahnjúkum um gervihnött þegar byrjað var að safna vatni í Hálslón. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvarpsstöð notar slíkt gervihnattasamband til að koma fréttnæmum atburði á framfæri beint í æð áhorfenda og áheyrenda af vettvangi hérlendis.   Tölvunotendur gáfu einnig fylgst með útsendingunni á fréttavefnum visir.is og ekki fór á milli mála að mikill áhugi var fyrir því sem var að gerast eystra því heimasíðan kiknaði undir álaginu um hríð á tíunda tímanum í morgun. Ásóknin var meiri en hægt var að ráða við og mun meiri en menn hafa séð áður þar á bæ.
 • 30. september 2006: Bor 2 stöðvaður í aðrennslisgöngunum og þar með hefur hann lokið hlutverki sínu í þeim þætti virkjunarframkvæmdanna. Bor 3 heldur áfram og lýkur því sem eftir er í heilboruðu göngunum milli Hálslóns og Fljótsdals. 
 • 31. október 2006: Bor 1 hefur verið tekinn í sundur inni í aðrennslisgöngunum og verður nú dreginn út undir bert loft þar sem hann verður búinn undir flutning úr landi. Hann hóf för sína inni í aðgöngum 1 á Teigsbjargi í Fljótsdal í september 2004 og lauk við að bora sína 15 km í september 2006.
 • 5. nóvember 2006: Starfsmenn á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar eru yfirleitt ánægðir með marga mikilvæga þætti vinnumhverfis síns, meðal annars öryggismál, samskipti á vinnustað og samskipti við yfirmenn. Þetta kemur fram í niðurstöðum umfangsmikillar viðhorfskönnunar Tryggva Hallgrímssonar, nema í Háskólanum í Tromsö, frá síðastliðnu sumri. Starfsmennirnir hafa flestir unnið að svipuðum framkvæmdum áður og vilja helst halda áfram í vinnu af þessu tagi í framtíðinni. Laun eru helsta ástæða þess að erlendir starfsmenn komu hingað til lands, hvort heldur á í hlut ófaglært eða sérfræðimenntað fólk.
 • 25. nóvember 2006: Starfsmaður króatísks verktakafyrirtækis á vegum Landsnets lést í vinnuslysi á Fljótsdalsheiði þar sem verið var að leggja byggðalínuna að norðan á nýjum stað áleiðis að tengivirki í Fljótsdal. Sama dag slasaðist kínverskur starfsmaður Impregilo alvarlega á Kárahnjúkastíflu og var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.
 • 5. desember 2006: Bor 3 „sló í gegn“ í aðrennslisgöngunum. Ætlunin var að láta þetta gerast í gær (4. desember) en þá brunnu tveir rafmótorar borsins yfir og það tók tæknimenn alla nóttina að gera tækin klár í síðasta áfangann. Með gegnumbrotinu í dag opnast frárennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar um 40 kílómetra leið úr Hálslóni niður á Teigsbjarg, ofan við stöðvarhúsið í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal. Gegnumbrotið er tvímælalaust merkasti áfangi virkjunarframkvæmdanna frá því þær hófust og kemur þar tvennt til. Annars vegar fylgir því óhjákvæmileg óvissa að heilbora tugi kílómetra af jarðgöngum. Hins vegar er borun aðrennslisganganna stærsti einstaki verksamningur framkvæmdanna við Kárahnjúkavirkjun.
 • 8. desember 2006:   Botnlokur Hálslóns opnaðar í fyrsta sinn frá því byrjað var að safna vatni í lónið 28. september. Þetta er gert í prófunarskyni og búnaðurinn reyndist í alla staði eins og ráð var fyrir gert. Fyrst voru lokurnar opnaðar  5%, síðan 20% og loks til hálfs.  Að lokum voru þær dregnar alveg frá í um hálfa klukkustund og rennslið var þá um 260 rúmmetrar á sekúndu um hjáveitugöngin undir Kárahnjúkastíflu og út í Hafrahvammagljúfur neðan stíflunnar.
 • 15. desember 2006: Stjórn Landsvirkjunar lýsir áhyggjum sínum af tíðum slysum við Kárahnjúkastíflu og í aðrennslisgöngunum og felur forstjóra fyrirtækisins að beina því til verktaka og eftirlitsaðila að tryggja að farið sé í einu og öllu eftir þeim reglum og kröfum sem gerðar eru til öryggis á vinnustað.
 • 18. desember 2006: Gestir í kynningarmiðstöð Landsvirkjunar í Végarði í Fljótsdal voru yfir 16.000 talsins sumarið 2006 og fjölgaði um hátt í 35% frá sama tímabili árið 2005.
 • 15. desember 2006: Orkusvið Landsvirkjunar fær afhent fyrsta fullbúa mannvirki Kárahnjúkavirkjunar, hlaðhúsið í Fljótsdal. Þar er aðalstjórnstöð Fljótsdalsstöðvar og eftirlit með stíflumannvirkjum og stöðvarhúsinu í fjallinu.

2007

 • 10. janúar 2007: Siverth K. Heilman, atvinnumálaráðherra í grænlensku heimastjórninni, kynnir sér framkvæmdir við Kárahnjúka ásamt fríðu föruneyti. Alls eru 19 manns í þessum gestahópi frá Grænlandi, þar á meðal bæjarstjórar í Maniitsoq og Sisimut og fulltrúar bæjaryfirvalda í höfuðstaðnum Nuuk.
 • 11. janúar 2007: Lokið er að bera slitsterka málningu á innanvert stálið í öðrum fallgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Göngin sem slík eru þar með tilbúin til notkunar og í framhaldinu verður einingum í efri beygju ganganna komið á sinn stað og þær steyptar niður. Stálið í göngunum er fyrst grunnmáluð og síðan er borin á það epoxí-málning sem gert er ráð fyrir að endist sem tæringar- og slitvörn í að minnsta kosti tvo áratugi eftir að virkjunin verður tekin í gagnið.
 • 22. janúar 2007: Vatnsveita Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal hefur verið tekin í notkun. Á níunda áratug síðustu aldar voru sprengd rannsóknargöng inn í fjall í Fljótsdal, skammt innan við þar sem nú hafa risið hlaðhús Kárahnjúkavirkjunar og tengivirkishús Landsnets. Þessum göngum er nú fundið óvænt hlutverk því í munna þeirra hefur verið komið fyrir 400 rúmmetra vatnsgeymi nýrrar veitu. Vatnið er aðallega ætlað til kælingar véla virkjunarinnar inni í fjallinu en að sjálfsögðu einnig sem drykkjarvatn til notkunar í Fljótsdalsstöð.
 • 26. janúar 2007: Byrjað að steypa undirstöður lokumannvirkja í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar á þeim stað þar sem væntanleg göng Jökulsárveitu úr Ufsarlóni tengjast aðalgöngunum úr Hálslóni niður í Fljótsdal. Steypunni er rennt í trekt á yfirborðinu og áfram um borholu niður í göngin. Þannig flýta menn verulega fyrir sér, enda mun tímafrekara að flytja steypuna með bílum og á járnbrautarvögnum inn í göngin. 
 • Febrúar 2007: Landsvirkjun hefur ráðið átta menn til starfa í Fljótsdalsstöð Kárahnjúkavirkjunar af alls ellefu sem þar munu vakta orkuframleiðsluna í framtíðinni. Georg Þór Pálsson var ráðinn stöðvarstjóri síðla árs 2005 og nú hafa verið ráðnir sex stöðvarverðir og viðhaldsstjóri að auki.
 • 24. febrúar 2007: Ný fræðslumynd um virkjunarframkvæmdirnar við Kárahnjúka  frumsýnd í dag á bandarísku sjónvarpsstöðinni National Geographic. Myndin er í einni vinsælustu þáttaröð stöðvarinnar, Megastructure, þar sem kastljósum er beint að risamannvirkjum af ýmsu tagi. Starfsmenn National Geographic kasta ekki höndum til verksins þegar þeir framleiða fræðsluefni, eins og þeir vita sem fylgst hafa með útsendingum stöðvarinnar. Kárahnjúkamyndin sór sig í ætt við annað slíkt efni í Megastructure. Hún er vönduð, skemmtileg og meira að segja spennandi og dramatísk á köflum líka, enda ber hún heitið Rock Eaters of Iceland eða ,,bergætur á Íslandi"! Þar er vísað til risaboranna þriggja sem bryðja í sig bergið þegar þeir búa til aðrennslisgöng virkjunarinnar.
 • 26. febrúar 2007: Verktakafyrirtækið Impregilo er að bæta við um 100 starfsmönnum til að sinna margvíslegum verkum í aðrennslisgöngunum og tryggja að unnt verði að standa við þá tímaáætlun að hleypa vatni á göngin fyrir lok maí.  Alls verða um 650 manns við frágang af ýmsu tagi í endilöngum göngunum, frá Hálslóni niður í Fljótsdal.
 • 19. mars 2007: Verkefnisstjórn Kárahnjúkavirkjunar kemur saman í 100. sinn frá því framkvæmdir hófust. Allir þræðir liggja inn í þennan hóp og þar er fylgst grannt með gangi einstakra þátta og verksins í heild.    Verkefnisstjórnin kom fyrst saman 21. febrúar 2003. Hún hittist að jafnaði aðra hverja viku og oftar ef þurfa þykir.
 • 27. mars 2007: Vél 1 í Fljótsdalsstöð tengd raforkukerfinu í fyrsta sinn. Þar með hefur fyrsti hluti Kárahnjúkavirkjunar í raun verið tekinn í gagnið til varanlegrar raforkuframleiðslu. Vatn er ekki farið að renna í gegnum stöðvarhúsið, til að knýja þar vélar, heldur var orka af byggðalínunni notuð í því skyni. Í fyrstu fær álverið við Reyðarfjörð raforku af landskerfinu (byggðalínunni) til starfsemi sinnar. Með því að tengja einn rafala Fljótsdalsstöðvar við landskerfið (vél 1) er unnt að flytja um 100 MW til Reyðarfjarðar.  Það dugar álverinu til að byrja með eða þar til vatnsaflið fer að knýja vélar stöðvarinnar.
 • 29. mars 2007: Bor 2 byrjaði í dag að bora aðrennslisgöng Jökulsárveitu, síðasta áfanga verksins sem risaborunum þremur er ætlað að takast á við í Kárahnjúkavirkjun. Þessi bor vann í aðrennslisgöngunum milli Hálslóns og Fljótsdals frá 2004 til 2006 þegar hann var stöðvaður, dreginn til baka og tekinn í sundur. Borinn var síðan settur saman að nýju með tilheyrandi viðhaldi og nú er hann sem sagt kominn á skrið á nýjan leik til að bora ný göng úr væntanlegu Ufsarlóni. Honum er ætlað nú að bora 8,7 km á um 15 mánuðum en Arnarfell borar og sprengir á móti honum einn kílómetra aðrennslisganganna samkvæmt samningi þar að lútandi frá því í mars 2007.
 • 20. apríl 2007:  Um 40 starfsmenn við aðgöng 2 í aðrennslisgöngunum voru óvinnufærir í dag vegna magaveiki sem grunur leikur á að rekja megi til þess að hreinlæti hafi verið ábótavant. Fulltrúi heilbrigðisyfirvalda fór á vettvang og lagði fyrir verktakann, Impregilo, að bæta úr þegar í stað. Heilbrigðiseftirlit Austurlands setur í kjölfarið fram kröfur og tillögur um breytta meðferð matvæla og um hreinlætismál yfirleitt.
 • 24. apríl 2007: Vinnueftirlit ríkisins stöðvar vinnu á um 12 kílómetra kafla í aðrennslisgöngunum, á milli aðganga 2 og 3, vegna loftmengunar. Verktakafyrirtækinu Impregilo gert að skila áætlun um úrbætur. Mengunin á að líkindum rætur að rekja til útblásturs dísilvéla sem notaðar eru þar sem unnið er að því að þétta og steypufóðra göngin á kafla undir svokölluðum Þrælahálsi.
 • 30. apríl 2007: Fulltrúar landlæknisembættisins, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Impregilo, Landsvirkjunar, framkvæmdaeftirlitsins og heilsugæslunnar við Kárahnjúka hittast á framkvæmdasvæðinu og ræða atburði síðustu viku: loftmengun og magaveikindi. Vinna er hafin að nýju á hluta þess svæðis sem lokað var og áfram unnið að því að bæta loftræstingu í aðrennslisgöngunum. Impregilo birtir yfirlýsingu og mótmælir harðlega ásökunum yfirlæknis heilsugæslunnar við Kárahnjúka, sem sagt hafði í Útvarpsfréttum að alls hefðu 180 manns veikst vegna loftmengunar og matareitrunar í aðrennslisgöngunum.
 • 15. maí 2007: Þéttingu bergs til beggja enda Kárahnjúkastíflu, og undir stíflunni, er nú lokið. Þar með er stórum og mikilvægum áfanga náð í virkjunarframkvæmdunum. ,,Þéttingartjald“ var myndað niður á 100 metra dýpi með því að bora fjölda hola í bergið undir sjálfri stíflunni og til beggja enda stíflunnar. Sementsblöndu var síðan dælt í þessar holur undir þrýstingi til að þétta sprungur og koma í veg fyrir vatnsleka.
 • 6. júní 2007: Ákveðið að vinna að hluta upp tafir í frágangi í frárennslisgöngunum með því að forgangsraða þar verkum. Frágangi verður fyrst lokið í neðsta hluta ganganna (norðan aðganga 2 og Axarár). Grunnvatn verður síðan látið safnast þar fyrir þar til það fyllir þennan hluta ganganna og þrýstipípurnar sömuleiðis. Með þessu móti verður unnt að keyrsluprófa vélasamstæður í stöðvarhúsinu fyrr en ella og á sama tíma verður unnt að halda áfram frágangsvinnu í efri hluta aðrennslisganganna.
 • 9. júní 2007: Efnt til svokallaðrar rýmingaræfingar á Jökuldal í því skyni að láta reyna á nýja viðbragðsáætlun almannavarnakerfisins á áhrifasvæði Hálslóns. Í viðbragðsáætluninni er fjallað um hvernig bregðast skuli við ef vart yrði leka í stíflum Hálslóns og hætta yrði talin á að stífla þar rofnaði með tilheyrandi flóðahættu.
 • 13. júní 2007:  Ákveðið er að „tappa af Hálslóni“ í sumar með því að opna botnrásarlokur Kárahnjúkastíflu af og til næstu vikur og mánuði. Þegar opnað er að fullu renna út í Hafrahvammagljúfur um 300 rúmmetrar á sekúndu.
 • 20. júní 2007: Vatnið í Hálslóni er komið að Desjarárstíflu. Vinnuvegur Suðurverks vestan stíflunnar fór undir vatn í gær (19. júní).
 • 22. júní 2007: Matthías Halldórsson landlæknir kemst að þeirri niðurstöðu, í greinargerð sinni ,,um veikindi starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun í apríl 2007 og viðbrögð heilbrigðisstarfsmanna við þeim“, að á annan tug manna hafi ,,líklega eða örugglega" veikst af völdum mengaðs lofts í jarðgöngum virkjunarinanr í apríl. Í fjölmiðlum mátti hins vegar skilja, vegna ummæla yfirlæknis á virkjunarsvæðinu, að um væri að ræða allt að 180 manns.   Landlæknir segir að ummæli yfirlæknisins hafi verið ,,óheppileg og orðum aukin" en mikilvægt sé að það yfirskyggi ekki aðalatriði málsins, sem sé að verkamönnum sé boðin starfsaðstaða sem stofni ekki heilsu þeirra í hættu í bráð og lengd.  Ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga úr mengun lofts í göngunum og grannt hafi verið fylgst með loftgæðum eftir að þetta mál kom upp . Síðasta mánuðinn (þ.e. í maí 2007) hafi engar tilkynningar borist um loftmengun ,,sem bendir til þess að úrbætur hafi borið tilætlaðan árangur.“
 • 22. júní 2007: Steindór Jónsson veitingamaður hefur opnað þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn skammt frá Desjarárstíflu. Spölkorn þar frá hefur verið útbúinn útsýnisstaður þar sem sést vel til Kárahnjúkastíflu, Desjarárstíflu og yfir neðsta hluta Hálslóns.
 • 23. júní 2007: Bor 2 setti í dag heimsmet í borun jarðganga: 106,12 metra á einum sólarhring. Engin önnur dæmi eru um slíkan árangur í heiminum.   Þessi sami bor átti Íslandsmetið í borun sem þarna féll, það var 92 metrar á sólarhring frá því í júní 2006.
 • 25. júní 2007: Starfsmaður Stálsmiðjunnar ehf., undirverktaka fyrirtækisins VA-Tech, lést af völdum áverka sem hann fékk við fjögurra metra fall niður á steingólf í Fljótsdalsstöð, stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal.
 • 30. júní 2007:  Starfsmenn verktakafyrirtækisins Arnarfells „slá í gegn“ í þeim hluta aðrennslisganga úr Ufsarlóni sem þeir hafa unnið við að grafa frá því í nóvember 2004. Þessi áfangi jarðganga er alls 3,5 km.
 • 6. júlí 2007: Verktakafyrirtækið Fosskraft hefur skilað af sér síðasta verkáfanga vegna stöðvarhúss Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Svokallað viðtökuvottorð var gefið út í dag en samkvæmt verksamningi hefði slíkt átt að gerast í síðasta lagi 31. október 2007. Landsvirkjun hefur þar með tekið við öllu því sem Fosskraft framkvæmdi vegna Fljótsdalsstöðvar. Alls voru skráðir 33 skiladagar einstakra þátta í verkinu og Fosskraft skilaði hverjum einasta þeirra á réttum tíma eða áður en skilafrestur rann út.
 • 8. júlí 2007: Hálslón umlykur nú Sandfell og þar með er fellið orðið eyland í lóninu: Sandey.
 • 16. júlí 2007: Vatnið í Hálslóni er komið að Sauðárdalsstíflu og þar með nær lónið nú að öllum þremur stíflunum sem mynda það.
 • 27. júlí 2007: Lokið við gerð bráðabirgðastíflu ofan við stæði væntanlegrar Ufsarstíflu og nú rennur allt vatn Jökulsár í Fljótsdal um skurð og botnrás - fram hjá stíflustæðinu.
 • 28. júlí 2007: Merkum áfanga virkjunarframkvæmdanna er náð nú þegar byrjað er að safna jarðvatni (grunnvatni) í neðri hluta aðrennslisganganna. Þar með hafa göngin verið tekin í notkun að hluta. Með þessu verklagi vinnast að nokkru leyti upp tafir í frágangsvinnu í frárennslisgöngunum.
 • 14. ágúst 2007: Byrjað að prófa vélar 2 og 3 í Fljótsdalsstöð og notað til þess jarðvatn sem lekur inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar.
 • Vika 33 í ágúst 2007: Bor 2 setur nýtt vikumet í afköstum í virkjunarframkvæmdunum þegar hann skilar tæplega 364 metrum í aðrennslisgöngum Jökulsárveitu. Fyrra vikumetið átti bor 3  frá því í júní 2004.  Robbins, fyrirtækið sem framleiðir borana, staðfestir að heimsmet í afköstum bors af þessari stærð sé 372 metrar á einni viku, sett í fráveitukerfi Chicago í Bandaríkjunum. Bor 2 vantaði því einungis 9 metra upp á að slá það.
 • 22. ágúst 2007: Sérstök matsnefnd úrskurðar að vatnsréttareigendur í við Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá skuli fá alls 1,6 milljarða króna fyrir vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar. Vatnsréttareigendur við Jökulsá á Dal fái 1.223 milljónir króna, vatnsréttareigendur við Jökulsá á Fljótsdal fái 301 milljón króna og vatnsréttareigendur við Kelduá 111 milljónir króna eða alls ríflega 1.6 milljarða króna. Þórður Bogason, lögmaður Landsvirkjunar, segir að bæturnar séu vissulega hærri en það sem Landsvirkjun taldi viðeigandi en að sama skapi staðfesting á að kröfur vatnsréttareigenda hafi ekki verið raunhæfar.
 • 23. ágúst 2007: Bor 2 setur nýtt heimsmet í aðrennslisgöngum Jökulsárveitu: 115,6 metra á einum sólarhring. Sami bor hefur áður sett heimsmet í afköstum á einum sólarhring: 106,1 metra. Það gerðist 23. júní 2007, einnig í  í Jökulsárveitu.
 • 28. ágúst 2007:  Vél 2 í Fljótsdalsstöð tengd við raforkukerfið í fyrsta sinn og látin ganga á 22 megavöttum í um 10 mínútur. Þar með lýkur prófunarferli sem staðið hefur yfir í þrjár vikur og vélin er útskrifuð með ágætiseinkunn.
 • 30. ágúst 2007: Vél 3 prófuð og tengd raforkukerfinu í fyrsta sinn og látin ganga á rúmlega 22 megavöttum í 45 mínútur.
 • 17. september 2007: Vatnsleki í gegnum stíflur Hálslóns er miklu minni en hönnuðir þeirra gerðu ráð fyrir. Þetta kom fram á alþjóðlegri tækniráðstefnu um Kárahnjúkavirkjun í Reykjavík. Sérfræðingar töldu að leki úr lóninu öllu gæti orðið allt að 5.500 lítrar á sekúndu en er í reynd einungis brot af því. Til dæmis var búist við að allt að 300 sekúndulítrar rynnu í gegnum Desjarárstíflu en reyndin er einungis um 50 lítrar á sekúndu. Undan Kárahnjúkastíflu renna núna um 170 sekúndulítrar og undan Sauðárdalsstíflu um 80 sekúndulítrar.
 • 28. september 2007: Eitt ár liðið frá því Hálslón tók að myndast.  Vatnsborðið komið í 622,61 metra hæð yfir sjávarmáli og vantar því 2,39 metra upp á að lónið fyllist. Sumarið 2007 hefur verið hægt verulega á fyllingu Hálslóns með því að opna botnrás Kárahnjúkastíflu og ,,tappa af" lóninu út í gljúfrið neðan stíflu.
 • 29. september 2007: Impregilo lýkur við að steypa yfirfallsrennu  Hálslóns fram á gljúfurbarm neðan Kárahnjúkastíflu. Þar með eru yfirfallsmannvirkin tilbúin að taka við vatni þegar lónið fyllist.
 • 4. október 2007: Botnrás Kárahnjúkastíflu lokað til fulls. Hún hefur verið opin meira og minna allt sumarið 2007 til að hægja á fyllingu Hálslóns.
 • 5. október 2007: Aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar tilbúin til notkunar, alls um 40 kílómetrar frá Hálslóni niður að stöðvarhúsinu í Fljótsdal. Aðeins er nú eftir að steypa „tappa“ í tvenn aðkomugöng á leiðinni til að unnt sé að hleypa vatni á göngin. Fulltrúar Landsvirkjunar, verktakafyrirtækisins Impregilo, framkvæmdaeftirlitsins (VIVJ) og hönnuðanna (KEJV) gerðu úttekt á göngunum í tveimur áföngum, 30. september og  5. október. Áður höfðu þeir tekið út göngin til beggja enda, þ.e. kaflann næst Hálslóni annars vegar og hins vegar kaflann frá aðgöngum 2 niður að stöðvarhúsinu – sem hefur reyndar verið fullur af vatni um nokkurra vikna skeið.
 • 15.-17. október 2007: Kastljósum beint Kárahnjúkavirkjun á alþjóðlegri ráðstefnu um vatnsaflsvirkjanir í Granada á Spáni og ítarlega fjallað um virkjunina í sérútgáfu bresks fagrits, The International Journal of hydropower & dams, í tilefni ráðstefnunnar. Tilheyrandi veggblað fylgdi þessu tölublaði til lesenda í 183 löndum.
 • 17. október 2007: Merkur áfangi í virkjunarframkvæmdunum þegar vatni úr Hálslóni er hleypt á aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar. Jóhann Kröyer, verkefnisstjóri Landsvirkjunar við gangagerðina, ræsti um hádegisbil  búnað sem lyfti aðallokunum í inntakinu við Hálslón og vatn byrjaði að streyma úr lóninu inn í göngin.
 • 18. október 2007: Vatn byrjar að skvettast yfir yfirfall Hálslóns og 19. október er rennsli á yfirfalli orðið stöðugt. Hálslón er því orðið fullt en byrjað var að safna vatni í það rúmu ári áður eða 28. september 2006.
 • 6. nóvember 2007: Vél 2 í Fljótsdalsstöð stóðst í morgun nauðsynlega lokaprófraun til að sérfræðingar framleiðandans, Va-Tech, gætu útskrifað hana og Landsvirkjun tekið við henni. Svokölluð frásláttarprófun með fullu afli tókst eins vel og hugsast getur og þar með er fyrsta vél Kárahnjúkavirkjunar komin í rekstur.
 • 22. nóvember 2007: Kárahnjúkafoss er horfinn og farinn í frí - þar til Hálslón yfirfyllist að nýju, á næsta ári að því er ætla má. Vatn byrjaði að renna á yfirfalli Kárahnjúkastíflu fimmtudaginn 18. október og í dag hætti rennslið.
 • 23. nóvember 2007:  Fjórar vélar komnar í rekstur í Fljótsdalsstöð og gætu annað fullri orkuþörf álversins ef á þyrfti að halda.
 • 29. nóvember 2007: Arnarfellsmenn ljúka jarðvinnu hvelfingunni sem þeir hafa gert í Jökulsárgöngum til undirbúnings því að taka bor 2 í sundur á fyrri helmingi ársins 2008.
 • 30. nóvember 2007: Kárahnjúkavirkjun formlega gangsett við athöfn í Fljótsdalsstöð og á Hóteli Reykjavík Nordica. Boðsgestir að sunnan komust ekki austur á land vegna illviðris og því var brugðið á það ráð að boða þá til samkomu í Reykjavík og tengja landshlutana saman með fjarfundabúnaði. Ráðherrarnir Árni M. Mathiesen og Össur Skarphéðinsson ræstu virkjunina syðra með því að senda  tilheyrandi fyrirmæli austur í máli og mynd.  Árni Benediktsson, verkefnisstjóri véla og rafbúnaðar og  Georg Þór Pálsson stöðvarstjóri tóku við skilaboðunum eystra og settu í gang. Fimm vélar af sex eru komnar í rekstur þegar hér er komið sögu í virkjunarframkvæmdunum.  Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra lýsti þeirri skoðun sinni við gangsetningarathöfnina að um leið og Kárahnjúkavirkjun væri tekin í notkun væri „settur lokapunktur í hörðustu deilum á Íslandi um langt árabil“. Páll Magnússon, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði við sama tækifæri að hvert og eitt verkefni, sem Landsvirkjun hefði ráðist í, allt frá virkjun Þjórsár við Búrfell, hefði  haft mikil áhrif á atvinnu- og efnahag þjóðarinnar: „Kárahnjúkavirkjun er þar engin undantekning. Verkefnið hefur þegar haft afgerandi áhrif á atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Þannig er Landsvirkjun áhrifavaldur í samfélaginu í dag rétt eins og fyrir rúmum fjörutíu árum við stofnun fyrirtækisins".
 • 18. desember 2007: Hátíðarsamkoma á vegum Arnarfells í hvelfingu í Jökulsárgöngum að viðstöddum á þriðja hundrað starfsmanna og gesta. Kristján Jóhannsson söng,  léttsveit Viggós Brynjólfssonar, áttræðs ýtustjóra hjá Arnarfelli, lék og sömuleiðis  hljómsveit pólskra verkamanna og rokkhljómsveitin Dúkkulísurnar. Séra Lára G. Oddsdóttir á Valþjófsstað las jólaguðspjallið og bað viðstadda um að minnast þeirra sem látist hafa af slysförum við virkjunarframkvæmdirnar með einnar mínútu þögn. Samkomunni lauk með því að allir viðstaddir sungu jólasálminn Heims um ból, hver á sínu móðurmáli að sjálfsögðu.

2008

 • 24. janúar 2008: Landsvirkjun ákveður að taka yfir samninga verktakafyrirtækisins Arnarsfells vegna framkvæmda við Jökulsár- og Hraunaveitur Kárahnjúkavirkjunar austan Snæfells vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Arnarfells. Upphafleg samningsupphæð var alls um 6 milljarðar króna auk virðisaukaskatts og verktakinn hefur lokið við um tvo þriðju hluta verksins.
 • 7. febrúar 2008: Hraunaveita ehf., nýtt dótturfélag Landsvirkjunar, tekur til starfa á framkvæmdasvæði Jökulsárveitu austan Snæfells eftir að hafa yfirtekið alla fjóra verksamninga Arnarfells ehf. þar. Langflestir starfsmenn Arnarfells við virkjunarframkvæmdirnar hafa ráðið sig til starfa hjá Hraunaveitum ehf. Nýja félagið hefur nú þegar gert ráðningarsamning við um 40 Íslendinga sem áður unnu hjá Arnarfelli og mun semja við að minnsta kosti 10 Íslendinga til viðbótar úr starfsmannahópi Arnarfells. Þá er von á allt að 50 Pólverjum til starfa á svæðinu.
 • 10. febrúar 2008: Snjókoma og fannfergi á virkjunarsvæðinu er meiri fyrstu vikur ársins en dæmi eru um frá þvi framkvæmdir hófust. Vaktir á risabornum í Jökulsárgöngum voru til dæmis felldar niður í tvígang í þessari viku vegna þess að starfsmenn komust ekki úr vinnubúðunum til starfa sinna.
 • 21. janúar 2008: Kárahnjúkavirkjun er arðsamari en reiknað var með í mati þar að lútandi árið 2002 og 2006 samkvæmt nýju arðsemismati Landsvirkjunar. Capasent yfirfór matið og telur það vera vel grundað og skilmerkilegt. Capasentbætir viðað forsendur nýja matsins séu ,,í nokkrum tilvikum óþarflega varfærnar", einkum varðandi tekjur af raforkusölu. Arðsemi virkjunarinnar reynist vera meiri en áætlað var áður, aðallega vegna þess aðháttálverð skilar meiri tekjum en gert hafði verið ráð fyrir.
   • Arðsemi eigin fjár reiknast nú 13,4% en var 11,9% í upphaflegu arðsemismati.
   • Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar, umfram arðsemiskröfur eigenda, er 15,5 milljarðar króna eða 8,9 milljörðum króna umfram upphaflega áætlun.
   • Hagnaður af Kárahnjúkavirkjun, fyrir skatta, er áætlaður 4,2 milljarðar króna að jafnaði á ári, á verðlagi ársins 2008.
 • 25. febrúar 2008: Starfsmenn Fljótsdalsstöðvarhafa fengið formlegastaðfest að vinnustaður þeirra og starfsemisé með ISO-9001 og ISO-14001 gæða- og umhverfisvottun. Ytri úttekt fór fram í desember 2007 á vegum Vottunar hf. og Rafskoðunar ehf. Í kjölfarið var vottun Fljótsdalsstöðvar staðfest.
 • Mars 2008: Tímaritið National Geographic helgar Íslandi 28 blaðsíður í nýtkomnu marshefti sínu. Meginþemað í umfjölluninni er landið, fólkið og gagnstæð viðhorf til orkufreks iðnaðar með álver við Reyðarfjörð og Kárahnjúkavirkjun sem útgangspunkt.
 • 5. mars 2008: Tölfræðileg gögn gefa ekki tilefni til að rekja megi jarðhræringar við Upptyppinga til fyllingar Hálslóns, segja tveir vísindamenn sem könnuðu fylgni vatnssöfnunar í Hálslón og skjálftavirkni við Upptyppinga. Sérfræðinganefnd um stíflur Kárahnjúkavirkjunar hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að tengsl lóns og jarðhræringa væru hvorki líkleg né studd eðlisfræðilegum rökum. Landsvirkjun fékk dr. Birgi Örn Arnarson verkfræðing, og dr. Hrafnkel Kárason, verkfræðing og jarðeðlisfræðing, til að greina hvort tölfræðileg fylgni væri milli fyllingar Hálslóns og jarðskjálfta við Upptyppinga árið 2007.
 • 7. apríl 2008:  Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks hf., undirrita samning um að verkþátt KAR-29 við Kárahnjúkavirkjun sem varðar margvíslegan frágang á Kárahnjúkastíflu og í grennd við hana, meðal annars í gljúfrinu neðan við stífluna og í hlíð Fremri-Kárahnjúks. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við þessi frágangsverk standi yfir sumarið 2008 og sumarið 2009.
 • 9. apríl 2008: Risabor 2 ,,sló í gegn" í Jökulsárgöngum í dag. Þar með lauk borunum jarðganga vegna Kárahnjúkavirkjunar og jafnframt lauk merkilegum kafla íslenskrar framkvæmdasögu sem hófst í desember 2003 með flutningi fyrstu borvélar þessarar tegundar af þremur til landsins. Fjöldi fólks var í göngunum og fylgdist með viðburðinum. Göngin sem opnuðust eru hluti af síðari áfanga framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og tengja Jökulsárveitu hennar við aðrennslisgöngin milli Hálslón og Fljótsdals.
 • 9. apríl 2008: Síðasta berghaftið sprengt í Kelduárgöngum austan Snæfells. Göngin eru um 1,8 km að lengd, á milli væntanlegra Ufsar- og Kelduárlóna. Þessi mannvirki eru öll hluti af Jökulsár- og Hraunaveitum Káraahnúkavirkjunar.
 • 2. maí 2008: Ístak hf. á lægra tilboð af tveimur sem berast Landsvirkjun í verkþátt KAR-25 við Kárahnjúkavirkjun, sem er að ljúka framkvæmdum við Hraunaveitu. Þessi verk höfðu áður verið boðin út og samið við verktakafyrirtækið Arnarfell um að annast þau. Á áliðnu ári 2007 mögnuðust rekstrarerfiðleikarArnarfells og 24. janúar 2008 lýsti Landsvirkjun því yfir að hún tæki yfir alla verksamninga við verktakann vegna Jökulsár- ogHraunaveitna. Í kjölfarið stofnaði Landsvirkjun dótturfélag, Hraunaveitu ehf., til halda framkvæmdum áfram tímabundið á eigin vegum.Verkefnið KAR-25 er sögulegt að því leyti að það er síðasti stóri verkþáttur Kárahnjúkavirkjunar sem boðinn er út.
 • 28. maí 2008: Verktakafyrirtækið Ístak tekur við framkvæmdum við Jökulsár- og Hraunaveitur Kárahnjúkavirkjunar í samræmi við samning þess við Landsvirkjun á grundvelli tilboðs Ístaks frá 2. maí 2008.
 • 25. júní 2008: Djasshátíð Egilsstaða á Austurlandi hefst með því að úrvalslið listamanna frumflytur dans- og tónverkið Drauma í aðkomugöngum Fljótsdalsstöðvar að viðstöddum um 300 gestum. Einar Bragi samdi tónlistina og Irma Gunnarsdóttir dansinn í Draumum. Flutningur verksins tók um stundarfjórðung en alls stóð samkoman yfir í um eina klukkustund 300-400 metra inni í göngunum sem liggja frá hlaðhúsi inn í stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar., Fljótsdalsstöð.
 • 15. ágúst 2008: Hálslón fylltist og vatn fer að sullast yfir á yfirfalli þess. Þremur dögum síðar steypist myndarlegur foss niður í Hafrahvammagljúfur neðan Kárahnjúkastíflu.
 • Ágúst 2008: Ítalski verktakinn Impregilo færir Fljótsdælingum að skilnaði járnbrautarlest sem notuð var við gerð aðrennslisganga Kárahnjúkarvirkjunar til minningar um hlutdeild fyrirtækisins í verkefninu. Lestinni er komið fyrir við upplýsingamiðstöðina í Végarði. Þetta er 27 tonna dráttarvagn og flutningavatn upp á 4 tonn ásamt 12 metra löngum brautarteinum.
 • 9. september 2008: Fulltrúar verkkaupa, verktaka, hönnuða og framkvæmdaeftirlits lýkur við úttekt á lokakafla Jökulsárganga formlega uppáskrifað að göngin öll séu  frágengin og tilbúin til notkunar. Jökulsárgöng eru alls 13,3 km frá inntaki Ufsarlóns að stóru frárennslisgöngunum sem liggja úr Hálslóni að stöðvarhúsinu í Fljótsdal.
 • 11. september 2008: Lokum rennt fyrir botnrás í lokuhúsi við Ufsarstíflu Jökulsárveitu. Þar með er Jökulsá í Fljótsdal stífluð og vatn fer að myndast í Ufsarlón, lítið inntakslón sem verður einn ferkílómetri að flatarmáli þegar það fyllist.
 • 11. september 2008: Listaverkið Eilífðardraumurinn eftir Ólaf Þórðarson afhjúpað úti á stríðu straumvatni sem stöðugt flæðir úr Fljótsdalsstöð áleiðis til sjávar. Þetta er vinningstillaga í samkeppni á vegum Landsvirkjunar um útilistaverk, hátt í sjö tonna og 12 metra langt líkneski af báti úr einangrunarefninu pólýúreþani.Listamaðurinn segir að fleyið sigli endalaust á móti straumi í frárennslisvatninu í Fljótsdal og sé á sífelldri hreyfingu án þess að hreyfast úr stað.
 • 20. september 2008: Kelduá stífluð til bráðabirgða og vatninu veitt inn í Kelduárgöng áleiðis til Ufsarlóns.Þar með þornar farvegur Kelduár á stíflusvæðinu og unnt verður að fylla í skarð Kelduárstíflu.
   
 • 22. september 2008: Starfsmenn verktakafyrirtækisins Ístaks sprengjasíðasta haftið í Grjótárgöngum. Þar með lýkur jarðgangagerð vegna Kárahnjúkavirkjunar eftir að boraðir hafa verið og sprengdir alls 73 kílómetrar af jarðgöngum af ýmsu tagi!Grjótárgöng eru 1.665 metra löng, hluti af Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar. Vatn mun renna um þau úr Grjótárlóni í Kelduárlón, síðan áfram um Kelduárgöng í Ufsarlón og áfram niður í Fljótsdalsstöð um aðrennslisgangakerfið.
 • Október 2008: Þrjú verkefni varðandi Kárahnjúkavirkjun og áhrif hennar rædd á fundi á Egilsstöðum: rannsóknir á lífríki Lagarfljóts, fossar á áhrifasvæði virkjunarinnar og örnefni í stæði Hálslóns. Sameiginlegt öllum verkefnunum er að Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur á þar einhvern hlut að máli. Þarna var fjallað um nýútkomna skýrslu um fossa á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, sömuleiðis um örnefnaskrá fyrir svæðið sem fór undir Hálslón og tilheyrandi örnefnakort og um lífríkisrannsóknir í Lagarfljóti sem miðuðu að því að afla upplýsinga um botnþörunga fyrir Kárahnjúkavirkjun og eftir að virkjunin var tekið í gagnið.
 • Október 2008:Yfirfallsfossinn við Kárahnjúkastíflu skal heita Hverfandi. Starfsmenn Landsvirkjunar efndu til samkeppni um heiti á fyrirbærið. Alls bárust 49 tillögur og tveir höfundar reyndust hafa fengið þá hugmynd sem fyrir valinu varð, Pétur Bjarni Gíslason í Kröflu og Sigurður Páll Ásólfsson í Búrfelli. Nafnið vísar að sjálfsögðu til þess eðlis fossins að koma og fara, allt eftir því hvort Hálslón er fullt eða ekki.
 • 6. október 2008: Síðasta vatnsbunan rennur á yfirfalli Hálslóns í ár. Lónið hefur verið yfirfullt frá því 15. ágúst.
 • 16. október 2008: Jökulsárveita tekin formlega í gagnið. Vatn úr Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá rennur þá í fyrsta sinn gegnum vélar Fljótsdalsstöðvar.  Þar með var Jökulsár- og Ufsarveita Kárahnjúkavirkjunar tekin í rekstur, sem telst til eins af stærstu áföngum virkjunarframkvæmdanna.
 • Desember 2008:Grjótár- og Kelduárlón Hraunaveitna myndast hægt og sígandi.Þá eru öll veitumannvirki Jökulsár- og Hraunaveitu komin í gagnið og um leið öll veitumannvirki Kárahnjúkavirkjunar, þar sem fyrst skal nefna til sögu sex stíflur og 54 kílómetrar af sprengdum og heilboruðum aðrennslisgöngum. Til viðbótar koma aðgöng og vinnugöng eða alls um 72 kílómetrar sem voru grafnir og boraðir vegna virkjunarinnar.
 • Desember 2008: Ístak hf. hefur lokið störfum á virkjunarsvæðinu austan Snæfells og farið með mannskap sinn af vettvangi. Starfsmenn fyrirtækisins eru hins vegar alveg fram undir jól að flytja til grjót á botni Hafrahvammagljúfurs neðan Kárahnjúkastíflu, efni sem hrundi eða var sprengt niður eftir að sprunga fór að gliðna í haust á austurbakka gljúfursins og bergfylla losnaði. Alls er gert ráð fyrir að flytja ríflega 100.000 rúmmetra efnis og gert ráð fyrir að ljúka verkinu í janúar 2009.
 • Jól 2008: Engir starfsmenn eru í vinnubúðum á virkjunarsvæðinu um jól, í fyrsta sinn frá því framkvæmdir hófust við Kárahnjúkavirkjun. Einungis fjórir starfsmenn eru eftir á svæðinu á vegum Landsvirkjunar og sinna þar gæslustörfum og skilum á verkbúi. Þeir hafa aðsetur í byggð á Austurlandi en ekki til fjalla.