Kjölur Kjalvegur,

HveravellirKerlingarfjollGönguleiðir Ísland


Meira um ÍslandGönguleiðir Ísland


KJÖLUR
(Kjalvegur F-35)
FERÐAVÍSIR

.

Áður en  farið inn á hálendið komið við hjá næstu upplýsingamiðstöð!

Beittu músinni á kortið til að stækka!

.
[Flag of the United Kingdom]
In English


Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug


Gönguleiðin milli
Hveravalla og Hvítárness

Gisting hálendið


The Holy Grail

Kjölur er svæðið milli Langjökuls í vestri og Hofsjökuls í austri, Hvítár í Suðri og Seyðisár og Svörtukvíslar í norðri. Sunnan Hvítár liggur leiðin um Bláfellsháls.  Frá háhálsinum liggur leið norður á Skálpanes.  Bláfell (1204m) er stapi, grágrýtisskjöldur á móbergssökkli, sem hvílir á bólstrabergi.  Risinn Bergþór bjó í Bláfelli (sjá Haukadalskirkju).  Þetta svæði liggur í 600-700 m hæð yfir sjó. Rétt norðan við miðju svæðisins er hraundyngja (Strýtur; 840m), sem kallast Kjalhraun. Rammi þess að austan og sunnan eru berar jökulöldur og sandar. Lágreist fell rísa upp af sléttunni, s.s. Kjalfell, Rjúpnafell og Dúfunefsfell. Kjalarsvæðið er víðkunnugt fyrir fagra fjallasýn á góðum degi. Fyrrum hefur verið mun meiri gróður á Kili en nú. Gróðursvæðin, sem eftir eru, er aðallega að finna á Hvítárnesi, Tjarnarheiði og í Þjófadölum auk gróðurteyginga við vötn, ár og læki. Í sunnanverðu Kjalhrauni eru líka gróðurblettir. Hveravellir eru eina jarðhitasvæði Kjalar, en um þá er fjallað sérstaklega. Það er óhætt að segja, að landslag og náttúra Kjalar sé einkar fjölbreytt og svæðið er upplagt til lengri og skemmri gönguferða allt árið.  Fyrrum var Kjölur afréttur og eign Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu en núna er hann afréttur Biskupstungna. Sundurdráttur fjár fór fram í Gránunesi, þegar svæðið tilheyrði Auðkúlu, en eftir að mæðiveikisgirðingin var sett upp norðan Hveravalla hefur slíkt verið óþarft. Tvær kenningar eru uppi um tilurð nafns svæðisins, Kjölur.  Önnur (Jón Eyþórsson) byggir á landslaginu í Kjalhrauni, sem lítur út eins og bátur á hvolfi séð sunnanfrá. Hin (Guðmundur Kjartansson) gerir ráð fyrir að norska nafnið hafi verið yfirfært. Þetta örnefni er víða notað á landinu, þar sem eru vatnaskil, s.s. á Vestfjörðum. Kjalvegur er u.þ.b. 200 km langur á milli Gullfoss og Blöndudals.

Nyrzt á Kili er Dúfunefsfell (730m).  Sunnan þess eru sléttir melar, sem gætu verið Dúfunefsskeið, sem getið er í Landnámu.  Þórir dúfunef, bóndi á Flugumýri, átti merina Flugu, sem var allra hrossa skjótust..  Hann reið henni suður Kjöl og á Hvinverjadal sat landshornamaðurinn Örn fyrir honum.  Hann veðjaði við Þóri, hvors hross væri skjótara og lögðu þeir hundrað silfurs undir.  „Þeir riðu báðir suður Kjöl, þar til þeir komu á skeið.”  Það heitir síðan Dúfunefsskeið.  Sá var skjótleikamunur hrossanna, að Þórir kom á móti erni á miðju skeiði.  Núna er flugvöllur á melunum.


Seyðisá og vatnasvið hennar eru strangt tiltekið ekki á Kili, en eru á leiðinni yfir sunnanverða Auðkúluheiði og því hafðar hér á síðunni.  Drögin eru stórt og grösugt haglendi sunnan Sandkúlufells undir Búrfjöllum.  Helzta þverá Seyðisár er Beljandi, en fyrrum mun það nafn hafa haldið sér alla leið til Blöndu.  Rennsli Seyðisár er tiltölulega jafnt allt árið, því hún er lindá.  Hún leggur Blöndu til allt frá þriðjungi til helmings vatns í löngum frostaköflum.  Skammt ofan Biskupsáfanga drógu Norð- og Sunnlendingar sundur fé áður en varnargirðingunni var komiðupp þvert yfir Kjöl.  Talsverður silungur  er í vatnakerfi Seyðisár.  Seyðisá var brúuð skamman spöl neðan við vaðið á níunda áratugi 20. aldar.  Gamla leiðin frá Blönduvaði er enn þá greinileg með Seyðisá og Þegjandi suður á Kjalhraun.  Þegjandi á upptök í Tjarnardölum, úr Ytra- og Fremra-Oddnýjargili auk Hvannavallakvíslar og Hveravallár vestan Dúfunefsfells.  Vísan, sem hér fylgir, skýrir vel nöfnin og skipanina fyrrum:

Þrettán kvíslar í Þegjanda,
Þegjandi í Beljanda.
Beljandi í Blöndu þá,
Blanda rennur út í sjá.

Leggjarbrjótur eða Sólkatla (1026m) er dyngja og hraun norðan Hvítárvatns uppi undir Langjökli.  Hraunið rann úr mjög reglulegum gíg til norðausturs í átt að Hrútfelli og Baldheiði.  Jaðrar dyngjunnar til austurs og suðausturs eru allt að 200 m háir hamrar, sem sjást vel frá Hvítárnesi.  Þarna hefur jökull líklega stöðvað rennsli hraunsins á sínum tíma.  Gamlar götur og hleðslur benda til þess, að alfaraleið milli Hvítárvatns og jökuls hafi legið við rætur Leggjarbrjóts.  Þessi leið var líklega hættuminni meðfram vatninu en sunnan vatnsins, þar sem Hvítá var farartálmi.

Skriðufell
(1235m; stapi) er í austurjaðri Langjökuls við Hvítárvatn.  Austan þess gengur skriðjökull niður að vatninu.  Fram að aldamótunum 1800 lá vegur norðan við vatnið meðfram fellinu, sem þýðir, að jökullinn var ekki í veginum.  Til er rituð heimild um þetta frá árinu 1844 auk götuslóðar og hlaðins vegkants vestan undir Leggjarbrjóti.  Jöklar báðum megin fellsins skriðu niður að vatninu á fyrri hluta 20. aldar.  Hinn vestari hefur hopað meira en hinn eystri, þannig að gengt er með honum.

Skúti, Fremri- og Innri- (527m og 710m), er tvö ílöng móbergsfell á sunnanverðum Kili.  Þau eru áberandi á flatlendinu þar.  Skútaver er sunnan Innri-Skúta.

Strýtur (840m) eru á barmi hraunketilsins, sem Kjalhraun rann úr, og eru því hæstu staðir geysistórrar dyngju.  Þvermál gígsins er u.þ.b. 1 km2 og botn hans flatur með kötlum.  Umhverfis hann er landslagið mjög sprungið og sigið og Strýturnar eru leifar hins upprunalega yfirborðs.  Tvær þeirra eru stærstar og er hin austasta sýnu mest.  Stórar hrauntraðir liggja til suðvesturs.  Strýturnar eru mjög áberandi í landslaginu nær og fjær og frá þeim er gott útsýni yfir Kjöl.  Vegalengdin milli Hveravalla og Strýtna er u.þ.b. 6 km.

.
Eftir að Grjótá, Sandá og Seyðisá voru brúaðar varð vegurinn fær öllum bílum á sumrin. Norðurleið hf. heldur uppi áætlunarferðum um Kjalveg á sumrin.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM