Snæfellsjökull þjóðgarður,

Meira um Ísland


Gönguleiðir á Íslandi


ÞJÓÐGARÐURINN SNÆFELLSJÖKULL
Aðdragandi að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Rekja má aðdraganda sð stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi rúmlega 30 ár aftur í tímann en skriður komst fyrst á málið haustið 1994.  Eftir setningu laga um náttúruvernd nr. 47/1971 fjallaði Náttúruverndarráð undir forustu Eysteins Jónssonar um friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps.  Á fyrsta Náttúruverndarþingi árið 1972 var ályktað um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi og í skýrslu um störf náttúruverndarráðs 1972-75 segir:  „Þjóðgarður undir Jökli”.  Í samræmi við ályktun fyrsta Náttúruverndarþings 1972 hefur ráðið unnið að stofnun þjóðgarðs eða annarri friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps.  Málefni er varða friðlýsingu lands á utanverðu Snæfellsnesi voru jafnan til umfjöllunar hjá Náttúruverndarráði og á Náttúruverndarþingum næstu árin.

Í september 1994 skipaði umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, undirbúningsnefnd um stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi undir forustu Sturlu Böðvarssonar.  Nefndin skilaði lokaskýrslu í júlí 1997 og hefur hún verið grunnur að vinnu við þjóðgarðsstofnunina.

Hinn 14. maí 2001 skipaði umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, starfshóp til að vinna að og undirbúa stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi hinn 28. júní 2001.  Starfshópinn skipuðu Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Pétur S. Jóhannsson, svæðisstjóri, Guðríður Þorvarðardóttir, sviðsstjóri hjá Náttúruvernd ríkisins og Stefá Jóhann Sigurðsson, skrifstofustjóri, sem skipaður var formaður nefndarinnar.  Pétur S. Jóhannsson var kosinn ritari.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður á grunddvelli laga um náttúruvernd nr. 44/1999.  Í samræmi við lögin fer Náttúruvernd ríkisins með yfirstjórn þjóðgarðsins en ráðgjafanefnd verður stofnuninni til ráðgjafar um rekstur og skipulag svæðisins.  Í henni sitja fulltrúar frá Snæfellsbæ, Ferðamálasamtökum Snæfellsness, Fornleifavernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins.

Meðal sérstöðu svæðisins er jarðfræði og landmótun, sem þar ber fyrir augu.  Talið er að rekbeltið á Snæfellsnesi hafi verið virkt þar til fyrir u.þ.b. 6 milljónum ára og var virknin svipuð og hún er í núverandi gosbeltum.  Ár, og síðar jöklar, surfu landið og rufu 500-1000 m ofan af jarðlagastaflanum, auk þess tróðust ísúr og súr innskotslög inn í staflann og setlög náðu að hylja berggrunninn.  Gosvirkni hófst að nýju fyrir u.þ.b. 2 milljónum ára og eldstöðvarnar röðuðu sér aðallega í þrjár þyrpingar, sem kenndar eru við Ljósufjöll, Lýsuskarð og Snæfellsjökul.  Þessi virkni er ólík fyrri virkni, þar sem ekki er um neitt rek að ræða og samsetning gosefna önnur.  Snæfellsjökulsþyrpingin nær frá Mælifelli í Staðarsveit út á Öndverðarnes og rís Snæfellsjökull sjálfur hæsti í 1446 m hæð.

Helztu hraun á utanverðu Snæfellsnesi eru Búðahraun, Hnausahraun, Klifhraun, Hellnahraun, Háahraun, Neshraun, Saxhólahraun, Prestahraun og Væjuhraun.  Allt eru þetta úfin apalhraun nema Neshraun, sem kom úr Öndverðarneshólum, er helluhraun.  Af þessum hraunum eru Hnausahraun, Klifhraun, Hellnahraun og Væjuhraun líklega yngri en 1750 ára en Háahraun er talið myndað í gosinu í toppgígnum fyrir u.þ.b. 1750 árum.

Fyrr á öldum var mikið athafnalíf innan marka þjóðgarðsins.  Fjöldi lendinga er á ströndinni og er Dritvík líklega einna þekktust þeirra, en talið er, að útgerð þaðan hafi hafizt um miðja 16. öld.  Athafnalífið í Dritvík var með miklum blóma í nálega tvær aldir en fór að hnigna upp úr miðri 18. öld.  Um 1860 var verstöðin að mestu úr sögunni og lagðist í eyði skömmu síðar.  Sagan segir, að á blómatíma athaflalífsins í Dritvík, hafi 60 bátar róið þaðan á vertíðum og 300-400 vermenn hafizt þar við.  Þar eru nú friðlýstar fornminjar, sem eru verbúðatóftir og völundarhús á hraunhæðinni fyrir sunnan víkina.

Innan þjóðgarðsins er að finna sögusvið sagna og skáldsagna, s.s. Kristnihald undir Jökli eftir Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness.  Meðal skáldsagna, sem einna helzt hefur borið nafn Snæfellsjökuls um heimsbyggðina, er saga franska rithöfundarins Jules Verne, sem nefnist í íslenzkri þýðingu „Leyndardómar Snæfellsjökuls”

Í samræmi við markmið laga um náttúruvernd er áherzla lögð á að auðvelda almenningi för um svæðið og kynni við náttúru landsins og menningarminjar.  Þjóðgarðurinn er ákjósanlegur til fræðslu um menningarminjar, náttúrufar og náttúruvernd fyrir skóla landsins.  Innan Snæfellsbæjar, á jaðri þjóðgarðsins, eru möguleikar til að taka á móti skólanemum og öðrum gestum, sem koma um lengri veg hafa áhuga á fræðslu um þjóðgarðinn.

Auk náttúruverndar verður ferðaþjónusta og útivist helzta landnýting svæðisins og verður lögð áherzla ágæðaþjónustu, sem byggir á grunni sjálfbærrar ferðamennsku.  Gera má ráð fyrir, að fjölmargir gestir verði á eigin vegum og til þess, að þeir fái sem mest út úr heimsókn sinni, verður komið upp umhverfisfræðslu og umhverfistúlkun.  Verndaráætlun verður unnin fyrir þjóðgarðinn og hún mun taka á öllum málefnum, sem varða vendun náttúru- og menningarminja, ásýnd þjóðgarðsins, fræðslu og umgengni o.fl.  Hún er stefnumörkun fyrir svæðið til fimm ára í senn og annast Náttúruverndar ríkisins gerð hennar.

Áhugaverðir staði innan þjóðgarðsins og í næsta nágrenni: Arnarstapi, Djúpalónssandur og Dritvík, GufuskálarHellnar, Ingjaldshóll, Laugarbrekka, Lóndrangar og Þúfubjarg, Snæfellsjökull.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM