TUNGNAÁRÖRÆFI
UPPLÝSINGAR, VEIÐIVÖTN, JÖKULHEIMAR
,

Þessu nafni nefnist svæðið milli Skaftár og Köldukvíslar frá vesturjaðri Vatnajökuls suður undir Landmannaleið. Fjallshryggirnir Fögrufjöll og Tungnaárfjöll með Breiðbak girða Langasjó af syðst. Norðar eru Tungnaárbotnar, Gjáfjöll, Heljargjá, Tröllahraun og Veiðivatnahraun. Þetta er mjög eldvirkt svæði eins og sést á Veiðivatnasvæðinu, sem varð til í eldgosi seint á 15. öld. Tröllahraun er frá seinni hluta 19. aldar og mjög sandorpið þegar. Þjórsárhraunin runnu af þessum slóðum niður Skeið og Flóa til sjávar fyrir u.þ.b. 8000 árum. Tungnaá kemur upp hjá Kerlingum og fellur til suðvesturs frá Fremri-Tungnaárbotnum og sveigir til norðurs við Austur-Bjalla og aftur til suðvesturs eftir bugðuna við Svartakrók

Fyrst var ekið yfir Tungnaá árið 1950 (Guðmundur Jónasson) á Hófsvaði við Svartakrók og síðan var vaðið notað þar til brúin var byggð yfir ána við Sigöldu 1968. Neðar í ánni eru Vestur-Bjallar. Þar er Bjallavað, sem var notað til að koma fé yfir ána í og úr sumarhögum þar til farið var að ferja það á bátum. Þeir voru geymdir í skýlum, sem enn standa á báðum bökkum. Tungnaárjökull skríður fram milli Kerlinga og Tungnaárfjalla og Tungnaá kemur undan honum.

Á árunum 1996-97 skreið jökullinn allmikið fram og hrannaðist upp, en ella hefur hann verið greiðfær og mikið notaður til að koma rannsóknar- og könnunarleiðöngum upp á Vatnajökli ár hvert. Framan við norðanverða jökultunguna eru Jökulgrindur. Tveir skálar Jöklarannsóknarfélagsins standa í Jökulheimum við jaðar Tungnaárjökuls og skáli Ferðafélags Íslands og Upprekstrafélags Landmanna er við Tjaldvatn í Veiðivötnum.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM