hrafnkelsdalur jökuldalur austurland,

Meira um Ísland


HRAFNKELSDALUR
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Hrafnkelsdalur gengur suður úr Jökuldal á móti Brú.  Hann er 18 km langur og skiptist í tvo afdali, Þuríðarstaðadal og Glúmsstaðadal.  Víðast er dalbotninn sléttur, velgróinn og í u.þ.b. 400 m.y.s.  Nokkuð er um birkikjarr og víðirunna og jarðhiti finnst á nokkrum stöðum.

Rústir Laugarhúsa eru í dalnum austanverðum, gegnt Aðalbóli.
Þar sér enn til húsatófta og túngarðsleifa.  Laugarhús drógu nafn sitt af heitri laug eða lind, sem á uppsprettu sína fyrir ofan bæinn og rennur lækur frá henni um tætturnar.  Einhvern tíma í búskaparsögu Laugarhúsa hefur laugin verið hlaðin upp og lögð grjóti í botninn.  Í máldaga Valþjófsstaðakirkju frá 1397 kemur fram að hún átti selland að Laugarhúsum.  Árið 1902 gerði Daniel Bruun uppdrátt af rústunum.  Taldi hann að hluti þeirra væri eftir fornbýli en aðrar tóftir væru leifar selsins frá Valþjófsstað.  Mannvistarleifarnar á Laugarhúsum eru í allmikilli rústabungu um  20 metra í þvermál.  Borað var í rústirnar á nokkrum stöðum til að kanna aldur þeirra út frá jarðvegslögum.  Þær rannsóknir leiddu í ljós, að byggð var á staðnum á ýmsum tímum á miðöldum, en flestar virtust rústirnar vera frá því um 1400.  Í Hrafnkelssögu Freysgoða er sagt að Bjarni, faðir þeirra Sáms og Eyvindar, hafi búið á Laugarhúsum.  Þeir feðgar elduðu löngum grátt silfur við Hrafnkel, nágranna sinn á Aðalbóli.  Sóknarlýsing Þorvaldar Ásgeirssonar í Hofteigi, frá 1874 nefnir skóga í sókninni, sem nú séu „alveg eyðilagðir.“  Þ.á.m. er getið um Laugarhúsaskóg sem var rauðvíðiskógur.

Aðalsögusvið Hrafnkelssögu freysgoða er í dalnum.  Einu bæirnir, sem eftir eru í byggð, eru Aðalból og Vaðbrekka, en talið er, að fjöldi annarra býla hafi verið í dalnum.  Rannsóknir hafa leitt fornar byggðarleifar í ljós.  Engir aðrir bæir á landinu eru fjær sjó.

Upp úr dalnum liggur vegur inn að Snæfelli.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM