skagi húnaflói skagafjörður,

Meira um Ísland


SKAGI
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Skagi er milli Húnaflóa og Skagafjarðar, u.þ.b. 50 km langur og 30 km breiður.  Nyrzt er Skagaheiði, fremur láglend, en sunnar rísa há fjöll og dalir, sem teygjast inn á Eyvindarstaðaheiði.  Strandlengjan er víðast lág og lítt vogskorin.  Hæst ber þar Ketubjörg.  Þarna verpa margar tegundir fugla, dúntekja er talsverð og góð veiði í vötnum og ám.  Á utanverðum Skaga er talsverður reki.  Vegalengdin frá Sævarlandsvík að Skagatá er u.þ.b 30 km.  Byggð er þéttari á vestanverðum Skaga, þar sem er mun grösugra, en austantil eru mörg eyðibýli.

Í maí og júní 2008 stigu tvö bjarndýr á land á Skaga.  Hið fyrra fannst á Þverárfjalli og var skotið þar.  Hið síðara að Hrauni á Skaga.  Ærnu fé var kostað til að láta flytja búr og sérfræðing í deyfingu villtra dýra frá Danmörku.  Allt kom fyrir ekki og nauðsynlegt reyndist að fella þetta dýr líka.  Dýrin voru stoppuð upp og prýða nú söfn á Sauðárkróki og Blönduósi.

Skagatá.  Nyrzti hluti Skaga norðan Hrauns.  Viti reistur 1913 (endurbyggður 1935).

Keta er bær og kirkjustaður á austan- og utanverðum Skaga.  Hvammsprestakall var lagt niður árið 1975 og sóknin lögð til Sauðárkróks.  Ásbúðir og Víkur í Austur-Húnavatnssýslu eru í sókninni.  Keta er fornt höfuðból.  Þaðan var róið til fiskjar og hlunnindi eru talsverð.  Ketubjörg (122m) eru gamall gígtappi úr stuðluðu grágrýti, líklega frá fyrri hluta ísaldar.  Stakur drangur í sjó heitir Kerling.  Þjóðsögur segja frá tröllum í björgunum, sem gerðu ferðamönnum þjóðveginn stundum illfæran.  Grímsborg í túninu er bústaður álfa.


Selvík.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM