urriðafoss þjórsá,

Gönguleiðir Ísland


URRIÐAFOSS

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Neðsti fossinn í Þjórsá við samnefndar bæ er 1,5 kílómetrum neðan nýju brúarinnar á vegi nr. 1.  Hann er lágur og breiður og hverfur stundum alveg í mestu hörkum á veturna, því áin bólgnar þá mjög og rennur yfir bakka sína.  Fossinn steypist fram af misgengisstalli í Hreppamynduninni. Urriðafoss er einhver vatnsmesti foss landsins og er meðalrennsli Þjórsár við Urriðafoss um 360 m³/sek. Einungis Ölfusá er vatnsmeiri (373 m³/sek). Fallhæð fossins er 6 metrar þar sem hann er hæstur.

Urriðafoss er það sem kallað er höggunarfoss. Þjórsá hefur skorið sig niður á milli hrauns og hlíðar og er komin niður úr Þjórsárhrauninu niður í myndunina þar fyrir neðan. Sú myndun er frá hlýskeiðum ísaldar og hefur verið nefnd Hreppamyndun. Í henni eru fjölmörg misgengi eins og algengt er á þessu svæði og fossinn fellur fram af einu slíku. Hann er því höggunarfoss.

Þjórsá er lengsta á landsins, um 230 km. Hún sækir vatn langt upp á Sprengisand, talsvert norður fyrir mitt hálendið, og til Vatnajökuls, Tungnafellsjökuls og Hofsjökuls. Hún er náttúruleg sýslumörk milli Árnes- og Rangárvallasýslna.

Fossafélagið Títan (Einar Benediktsson) hafði miklar áætlanir um virkjun á þessum stað á fyrri hluta 20. aldar, fyrstur í röð margra fossa.  Árið 1927 varð næstum af þessum áætlunum, því félagið fékk leyfi til að reisa 160.000 ha aflstöð við fossinn.  Framkvæmdir áttu að hefjast 1. júlí 1934.  Raforkuna skyldi flytja til Reykjavíkur til iðjuvers í grennd við bæinn.

Ofan til í Þjórsá er mesta virkjana- og vatnamiðlunarsvæði landsins.  Á vetrum getur áin safnað í sig miklu magni af ís. Ísinn sest til í henni neðan til og þar getur áin bólgnað upp. Stórfenglegt er að koma að gljúfrum Þjórsár neðan Urriðafoss á vorin þegar áin er að ryðja sig. Stór ísbjörg molna og steypast með boðaföllum niður í ána.

Lax gengur upp Þjórsá að fossinum og langt upp fyrir hann. Sagt er að laxastofninn í Þjórsá hafi sérstaklega sterkan og langan sporð til að geta stokkið upp fossinn! Silungur gengur í ána og þar finnst einnig áll. Það er því margvíslegt líf í ánni, þó hún virðist ekki til þess fallin við fyrstu sýn.

Skammt ofan við brúna yfir Þjórsá er eldri brú. Verði af Urriðafossvirkjun kemur stífla skammt ofan við gömlu brúna og ofan hennar lón. Við stífluna yrði vatnið leitt til austurs að stöðvarhúsi neðanjarðar en kæmi aftur inn í farveginn um 3 km neðar. Urriðafoss.

Til að komast að Urriðafossi er farinn vel merktur afleggjari skammt vestan Þjórsárbrúar á þjóðvegi 1.

Söguslóðir Suðurland


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM