04.08.2006

Reykjanesfólkvangur - Útivist í nágrenni Reykjavíkur

Reykjanesfólkvangur - leitið ekki langt yfir skammt
Kjörinn til útivistar og náttúruskoðunar

Á heimasíðu Umhverfissviðs Reykjavíkur er að finna náttúruvef um Reykjanesfólkvang. Vefurinn inniheldur fræðslu, myndir, kort yfir gönguleiðir og greinargóðar leiðarlýsingar. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð og því langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi. Möguleikarnir til að stunda útivist og náttúruskoðun í næsta nágrenni helsta þéttbýliskjarna landsins eru því einstakir.

Reykjanesfólkvangur er náttúrperla sem of fáir vita um eða kunna að njóta. Við ströndina eru t.a.m. litlar víkur, Hælsvík og Keflavík og milli þeirra er strandbergið Krýsuvíkurberg. Fólkvangurinn er kjörinn til útivistar og náttúruskoðunar.

Gönguleiðir í Reykjanesfólkvangi eru við allra hæfi. Á vefnum eru nokkur dæmi fyrir þá sem vilja komast í snertingu við sögu- og náttúruminjar, hugleiða aldalanga búsetu þjóðarinnar í stórbrotnu landi, rýna í fjölskrúðugt gróðurfar eða stunda holla hreyfingu. Það er hægt að stefna á hæstu tinda til að njóta útsýnis og reyna á sig, eða taka því rólega og ganga um fáfarnar slóðir og gæta að hinu smáa í náttúrunni. Á vef Reykjavíkurfólkvangs fylgja um 30 leiðalýsingar og kort á PDF útgáfu fyrir hin ýmsu svæði fólkvangsins. Meðal áfangastaða í Reykjanesfólkvangi er Kleifarvatn, sem er stærsta og dýpsta stöðuvatn á Suðurnesjum, Krýsuvík, Seltún, Húshólmi, Hrútagjá og Grænavatn.

Gróður, dýralíf og jarðfræði

Alls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur. Krísuvíkurberg er stærsta fuglabjarg Reykjanesskaga. Rita er þar yfirgnæfandi, en einnig er mikið af fýl og svartfuglstegundunum, álku, langvíu og stuttnefju. Að auki verpur þar lundi, teista, toppskarfur og silfurmáfur. Undir berginu má stundum sjá útseli og lengra úti má stundum sjá til hvala af bergbrúninni. Reykjanesfólkvangur er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt.

Umgengnisreglur

Í friðlýsingu felst, að öllum er frjálst að fara um og dvelja á svæðinu nema þar sem er girt vatnsból og ræktað land. Virða skal reglur um góða umgengni og umferð. Megin umgengnisreglurnar eru: ökum ekki utan merktra vega, hlífum gróðri, sýnum dýrunum nærgætni, kveikjum ekki elda, hirðum rusl og úrgang, hlöðum ekki vörður, letrum ekki á náttúrumyndanir, göngum vel um hveri og laugar, rífum ekki upp mosa eða hellur, göngum snyrtilega um tjaldstæðin, sleppum hestum ekki lausum.

 reykjanesfolksvangur kort

Reykjanesfólkvangur var stofnaður með reglugerð árið 1975, og standa að honum þessi sveitafélög: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær