galdrar galdrabrennur

Meira um Ísland


GALDRAR
GALDRABRENNUR


GALDRAR OG GALDRABRENNUR
NORÐURLAND
 

.
[Flag of the United Kingdom]
In English

 

Galdrafárið í Evrópu hófst um 1480 og stóð fram undir 1700. Til Íslands bárust áhrifin frá Danmörku og Þýskalandi. Þeirra tók þó ekki að gæta hér að ráði fyrr en galdraofsóknirnar þar voru í rénum, um miðja 17. öld. Galdrafárið hér var að mörgu leyti ólíkt því sem erlendis var, hér snerust flest galdramálin um meðferð galdrastafa og rúnablaða sem áttu að hafa valdið fólki eða búfénaði skaða.

Djöfullinn kom lítið við sögu í íslenskum galdramálum og galdramessur og pyndingar ekki neitt, auk þess sem konur voru í miklum minnihluta þeirra sem brenndir voru hér á landi.

Um 1660 var galdrafárið víðast hvar í rénum í Evrópu. Árið 1654 er álitið að galdrafárið á Íslandi hafi hafist með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.  Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson sem var brenndur árið 1625 í Svarfaðardal í Eyjafirði.

Umfram neðangreindar galdrabrennur er getið fimm galdrabrenna, sem er ekki einhugur um að teljist með:  Ónefnd norn 1580, Guðrún Þorsteinsdóttir 1608, Sveinn Skotti Axlar-Bjarnarson 1648, Jón ríðumaður (Jónsson Sýjuson) 1650, Halldór Finnbogason 1685.

Galdrabækur og skræður voru vafalítið nokkuð margar, en aðallega er getið sjö slíkra, sem eru enn þá til.  Erfitt er að fullyrða um nokkuð um hvaða fræði liggja að baki galdrastöfum. Sumir virðast eiga rætur að rekja til dulspeki miðalda og fornfræði endurreisnarmanna, en aðrir bera með sér tengsl við Ásatrú og heiðna rúnamenningu. Marga galdra, sem bar á góma við réttarhöld á sautjándu öld, er að finna í galdrabókum sem eru geymdar á handritasöfnum. Tilgangurinn með galdrastöfum getur sagt nokkuð til um amstur, áhyggjur og erfiði alþýðufólks.

Grös af ýmsu tagi eru einn þáttur í þjóðtrú Íslendinga og eru talin koma að haldi við margvíslegar aðstæður, aðallega til lækninga.
Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina.
Dæmi um jurtir:  Brenninetla, burnirót, draumagras, fjandafæla, freyjugras, grídusgras, hjónagras, lásagras, lækjasóley, maríuvöndur, mjaðurt, selja, sæhvönn, reynir, þrjófarót.

Galdra- og náttúrusteinar.  Náttúrusteinar voru taldir gæddir töframagni og til margra hluta nytsamir. Trúin á steina er forn og er þeirra m.a. annars getið í Grágás þar sem lagt er bann við að fara með þá eða magna.

Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina.

Á síðari tímum eru slíkir steinar einkum sagðir fyrirfinnast á ákveðnum stöðum eins og Drápuhlíðarfjalli, Tindastóli, tindinum Kofra, Eyjafjalli á Bölum á Ströndum og víðar.
Dæmi um steina:  Fésteinn, hulinhjálmsteinn, lausnarsteinn, lífsteinn, óskasteinn, segulsteinn, sögusteinn, surtarbrandur.

Galdrasögur.  Í íslenskum þjóðsagnasöfnum er varðveittur aragrúi af sögum af göldrum og galdramönnum.

GALDRAR OG GALDRABRENNUR Á NORÐURLANDI

Jón Rögnvaldsson 1625.  Sigurður á Urðum í Svarfaðardal varð fyrir mikilli ásókn sendingar, sem Jóni Eyfirðigi var kennt um.  Hann átti að hafa vakið upp draug til að gera Sigurði mein.  Draugsa tókst þó ekki að skaða Sigurð, en olli öðrum óskunda og drap nokkra hesta.  Magnús Björnsson, sýslumaður í Vaðlaþingi, á Munkaþverá, fékk málið í hendur.  Jón þverneitaði galdrasökum.  Heima hjá honum fundust rúnablöð og grunsamlegum teikningum.  Það var talið duga til að dæma hann á bálið.  Hann var brenndur á Melaeyrum í Svarfaðardal.  Mál hans kom aldrei fyrir þing og níu ár liðu til næstu galdrabrennu.

Erlendur Eyjólfsson 1669.  Jón Leifsson hélt því fram fyrir dauða sinn, að Erlendur hefði kennt honum galdur.  Því mun séra Páll prófastur hafa sent Þorleifi Kortssyni lögmanni og Sigurði Jónssyni bréf, þar sem hann kennir Jóni um alla mæðuna, sem gekk yfir fjölskyldu hans í Selárdalnum, og vissulega væri Erlendur meðsekur.  Þetta dugði til þess, að Erlendur var brenndur í Vesturhópi í Húnavatnssýslu sama ár.  Hann viðurkenndi að hafa framið galdra og kennt öðrum.

Magnús Bjarnason 1675.  Ekkert lát varð á galdraofsóknum í Selárdal, þótt búið væri að brenna tvo menn.  Húsfrúin varð aftur fárveik auk tveggja sona þeirra hjóna.  Nú voru veikindi hennar af völdum Magnúsar í Arnarfirði í Barðastrandarsýslu.  Hjá honum fannst að minnsta kosti einn galdrastafur og dómabók Þorleifs Kortssonar segir frá lostugri meðkenningu.  Hann lét flytja Magnús til sín að Þingeyrum, dæmdi hann á bálið og brenndi hann í Húnavatssýslu.

Stefán Grímsson drengmenni 1678.  Hann var líklega ættaður úr Borgarfirði.  Honum var meðal annars kennt um nytmissi átta kúa.  Hann játaði margs konar brot eftir að dómur var upp kveðinn, s.s. hórdómsbrot og að hafa verið með glímustaf í skó sínum.  Hann játaði ekki sakargiftir.  Tengsl hans við mál séra Árna Jónssonar, sem strauk frá landinu áður en prestastefna tók mál hans fyrir, voru nefnd við málaferlin gegn Stefáni.  Hann var brenndur í Húnavatnssýslu eftir dómsuppkvaðningu.

GALDRAR OG GALDRABRENNUR
Á ÍSLANDI


Heimildir: 
Ólína Þorvarðardóttir: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM