galdrar galdrabrennur

Meira um ÍslandGALDRAR OG GALDRABRENNUR
VESTFIRÐIR

.
[Flag of the United Kingdom]
In English

 

Galdrafárið í Evrópu hófst um 1480 og stóð fram undir 1700. Til Íslands bárust áhrifin frá Danmörku og Þýskalandi. Þeirra tók þó ekki að gæta hér að ráði fyrr en galdraofsóknirnar þar voru í rénum, um miðja 17. öld. Galdrafárið hér var að mörgu leyti ólíkt því sem erlendis var, hér snerust flest galdramálin um meðferð galdrastafa og rúnablaða sem áttu að hafa valdið fólki eða búfénaði skaða.

Djöfullinn kom lítið við sögu í íslenskum galdramálum og galdramessur og pyndingar ekki neitt, auk þess sem konur voru í miklum minnihluta þeirra sem brenndir voru hér á landi.

Um 1660 var galdrafárið víðast hvar í rénum í Evrópu. Árið 1654 er álitið að galdrafárið á Íslandi hafi hafist með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.  Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson sem var brenndur árið 1625 í Svarfaðardal í Eyjafirði.

Umfram neðangreindar galdrabrennur er getið fimm galdrabrenna, sem er ekki einhugur um að teljist með:  Ónefnd norn 1580, Guðrún Þorsteinsdóttir 1608, Sveinn Skotti Axlar-Bjarnarson 1648, Jón ríðumaður (Jónsson Sýjuson) 1650, Halldór Finnbogason 1685.

Galdrabækur og skræður voru vafalítið nokkuð margar, en aðallega er getið sjö slíkra, sem eru enn þá til.  Erfitt er að fullyrða um nokkuð um hvaða fræði liggja að baki galdrastöfum. Sumir virðast eiga rætur að rekja til dulspeki miðalda og fornfræði endurreisnarmanna, en aðrir bera með sér tengsl við Ásatrú og heiðna rúnamenningu. Marga galdra, sem bar á góma við réttarhöld á sautjándu öld, er að finna í galdrabókum sem eru geymdar á handritasöfnum. Tilgangurinn með galdrastöfum getur sagt nokkuð til um amstur, áhyggjur og erfiði alþýðufólks.

Grös af ýmsu tagi eru einn þáttur í þjóðtrú Íslendinga og eru talin koma að haldi við margvíslegar aðstæður, aðallega til lækninga.
Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina.
Dæmi um jurtir:  Brenninetla, burnirót, draumagras, fjandafæla, freyjugras, grídusgras, hjónagras, lásagras, lækjasóley, maríuvöndur, mjaðurt, selja, sæhvönn, reynir, þrjófarót.

Galdra- og náttúrusteinar.  Náttúrusteinar voru taldir gæddir töframagni og til margra hluta nytsamir. Trúin á steina er forn og er þeirra m.a. annars getið í Grágás þar sem lagt er bann við að fara með þá eða magna.

Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina.

Á síðari tímum eru slíkir steinar einkum sagðir fyrirfinnast á ákveðnum stöðum eins og Drápuhlíðarfjalli, Tindastóli, tindinum Kofra, Eyjafjalli á Bölum á Ströndum og víðar.
Dæmi um steina:  Fésteinn, hulinhjálmsteinn, lausnarsteinn, lífsteinn, óskasteinn, segulsteinn, sögusteinn, surtarbrandur.

Galdrasögur.  Í íslenskum þjóðsagnasöfnum er varðveittur aragrúi af sögum af göldrum og galdramönnum.

GALDRAR OG GALDRABRENNUR Á VESTFJÖRÐUM

Þórður Guðbrandsson 1654.  Veikindi og óáran fóru að gera vart við sig í Trékyllisvík árið 1652, einkum meðal kvenna.  Konur fóru að veikjast eftir manntalsþing 1651.  Á þinginu ákvað Þorleifur Kortsson, sýslumaður, að Guðrún Hróbjartsdóttir, skyldi yfirgefa vist hjá Þórði Guðbrandssyni að kröfu bræðra hennar og móður.  Hún varð fárveik, þegar bræðurnir komu að sækja hana, en henni batnaði strax eftir brottförina.  Hún veiktist aftur eftir brottförina frá kirkjunni en var heil heilsu, þegar hún kom í Munaðarnes.  Talið var, að Þórður hefði valdið þessu með göldrum.  Þórður viðurkenndi að hafa séð djöfulinn í tófulíki og sært hann með góðum og illum orðum sem frekast hann mátti.  Hann var brenndur í Kistu í Trékyllisvík.

Egill Bjarnason 1654.  Grunur um fleiri galdramenn í sveitinni kom upp við rannsókn máls Þórðar Guðbrandssonar.  Einkum beindust sjónir að Agli Bjarnasyni, sem var handtekinn og settur í járn.  Hann játaði samneyti við djöfulinn með ristingum, blóðvökum og naglaskurði.  Hann sagðist hafa gert samning við djöfulinn um að vinna þau verk, sem Egill lagði fyrir hann, og þannig hefði hann drepið fé frá bændum í Hlíðarhúsum og í Kjörvogi.  Hann var dæmdur og brenndur með Þórði í Kistu í Trékyllisvík.

Grímur Jónsson 1654. Rétt áður en kveikt var í Þórði Guðbrandssyni, sagði hann, að Grímur væri mestur galdramanna í Trékyllisvík.  Orð hans leiddu til rannsóknar og í ljós kom, að mikið galdraorð hvíldi á honum.  Hann viðurkenndi að hafa notað rúnaspjald frá Þórði til varnar dýrbiti og hafa banað tófu með því að henda í hana rúnakefli.  Hann lofaði að láta af öllum fordæðuskap, ef hann yrði losaður úr járnum, en það kom fyrir ekki.  Hann játaði síðan á sig alls konar kukl, galdravers og særingar.  Hann var dæmdur og brenndur á Kistu í Trékyllisvík („Undrin í Trékyllisvík”).

Jón Jónsson eldri 1656.  Feðgarnir frá Kirkjubóli, báðir Jón að nafni, fengu ákæru vegna veikinda og djöfullegra ásókna, sem séra Jón Magnússon á Eyri í Skutulsfirði varð fyrir.  Þeir játuðu eftir nokkurra mánaða varðhald og eldri Jón viðurkenndi að eiga tvær skræður, hafa skemmt kú, farið með tóustefnu, aðstoðað soninn við kukl og valdið veikindum prestsins með særingum.  Feðgarnir voru dæmdir og brenndir að Kirkjubóli í Skutulsfirði.

Jón Jónsson yngri 1656  viðurkenndi á sig ýmislegt fleira en faðir hans áður en þeir voru brenndir.  Hann sagði frá misheppnuðum lækningatilraunum og kukli og að hafa upplifað djöfulinn í svefni.  Þá sagðist hann hafa rist dóttur prests fretrúnir og galdrastafi til að ná ástum hennar.  Einnig notaði hann glímu- og kveisustafi til að valda veikindum séra Jóns.  Hann var brenndur að Kirkjubóli í Skutulsfirði.

Jón Leifsson 1669.  Helga Halldórsdóttir í Selárdal í Arnafirði veiktist um áramótin 1668-1669og varð fyrir mikilli ásókn ills anda fram á sumar.  Skæður draugagangur varð í dalnum eftir að hún lagðist í kör, svo að allir flúðu brott um tíma.  Jón Leifsson hafði viljað kvænast einni þjónustunni á staðnum, en Helga lagðist gegn því.  Hún kenndi því Jóni um veikindi sín.  Yfirheyrslur leiddu í ljós, aðhann hafði stundað eitthvert kukl og um skeið var tvísýnt um, hvernig skyldi taka á máli hans.  Eggert sýslumaður gekk skörulega fram og ákvað að láta brenna Jón fyrir vestan rétt áður en átti að ríða til þings.  Hann fékk staðfestingu á dómnum eftirá á Þingvöllum.

Þuríður Ólafsdóttir og Jón Helgason 1678.  Heimildir eru óljósar um brennu Þuríðar Ólafsdóttur og sonar hennar Jóns.  Líklega sakaði séra Páll í Selárdal þau um veikindi konu hans.  Þau komu úr Skagafirði sumarið áður og voru sveitarmönnum ókunn.  Í skagfirzkum annál er haft eftir Jóni, að þau hefðu farið yfir vatnsföll án hesta og ferja, sem sýni kunnáttu móður hans.  Þau voru bæði brennd í Barðastrandarsýslu.

Sveinn Árnason 1683. Hann var brenndur á Nauteyri fyrir tilstuðlan Magnúss Jónssonar lögsögumanns vegna galdraáburðar prófastsins séra Sigurðar Jónssonar, sem ritaði um efnið í annála, en sakarefni Sveins var að hafa valdið veikindum prófastfrúarinnar, Helgu, dóttur Páls í Selárdal.
Helga var drykkjumaður, en fátt er vitað um gang þessa máls.
 Líklega mun réttara, að Sveinn var dæmdur á Nauteyri, en brenndur í Arngerðareyrarskógi við Ísafjörð, austasta fjörð í Ísafjarðardjúpi.
Samkvæmt munnmælum átti að flytja hann á Alþingi, en flytjendur nenntu ekki lengra en í skóginn.

Heimildir: 
Ólína Þorvarðardóttir: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000

GALDRAR OG GALDRABRENNUR
Á ÍSLANDI


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM