Ásatrú,

Meira um Ísland


ÁSATRÚ
Inntak hins heiðna siðar.

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Hinn forni siður byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir náttúrinni og öllu lífi. Megin inntak siðarins er að hver maður er ábyrgur fyrir sjálfum sér og gerðum sínum. Þessi ábyrgð er algjör andstaða við kristna trú sem byggir á iðrun og fyrirgefningu. Ì Hávamálum, sem mælt eru af Óðni, er einkum að finna siðareglur Ásatrúarmanna. Heimsmynd Ásatrúarmanna er að finna í Völuspá. Þar er sköpunarsögunni lýst, þróun heimsins, endalokum hans (ragnarökum) og nýju upphafi. Ì trúarlegum efnum hafa Ásatrúarmenn aðallega hliðsjón af hinum fornu Eddum. Ásatrúarmenn líta frekar á Ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en trúarbrögð. Þegar félagið fékk löggildingu á sínum tímavar hins vegar ekki leyft að nota nafnið Vor siður eða eitthvað því líkt. Að kalla siðinn Ásatrú er reyndar villandi þar sem átrúnaður er ekki bundinn við Æsi eina. Heimilt er að viðurkenna fleiri guði, einnig landvættir og aðrar máttugar verur. Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar meðan ekki brýtur í bága við landslög. Þeir geta helgað goðunum líkneskjur og önnur tákn en ekki er skylda hvers og eins að tilbiðja þær. Ásatrúarmenn sameinast um heitið: Hefjum til vegs fornan sið og forn menningarverðmæti.

Starfsemi Ásatrúarfélagsins
Tilgangur félagsins er að starfa að eflingu Ásatrúar og annast þá trúarlegu þjónustu sem því er samfara. Þessu markmiði hyggst félagið ná með fræðslu- og trúarstarfi. Það er hins vegar ekki neitt markmið í sjálfu sér að félagatalan hækki. Þvert á móti segir í reglum félagsins að trúboð sé óþarft (óþurftarverk). Samkvæmt reglum félagsins skulu fjögur höfuðblót haldin árlega og fylgja þau hinu forna missera- og vikutali. Hið fyrsta skal haldið um jafndægur að hausti, annað á jólum um vetrarsólhvörf, hið þriðja á Sumardaginnfyrsta og hið fjórða á Þórsdegi í tíundu viku sumars um sumarsólstöður á Þingvöllum. Ásatrúarfélagið gefur út fréttabréf sem sent er félagsmönnum. Fréttabréfið, sem heitir Vor siður, er gefið út fyrst og fremst til að koma skilaboðum til félagsmanna, en einnig skiptast menn þar á skoðunum og reynt er að birta einhvern fróðleik. Nokkuð er um hjónavígslur sem allsherjargoði framkvæmir. Í flestum tilfellum kemur fólk erlendis frá til þess að láta gefa sig saman. Á Sumardaginn fyrsta fór einning fram unglingavígsla.

Allsherjarlög
1. grein.
Menn skulu eigi hafa höfuðskip í haf, en ef þeir hafa, þau skulu þeir af taka höfuðið áður en þeir koma í landsýn, og sigla eigi að landi með gapandi höfðum eða gínandi trjónum, svo fælist landvættir við.

2. grein.
Vor siður kallast Ásatrú og félag vort Ásatrúarfélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er allt landið.

3. grein.
Tilgangur félagsins er efling vors forna siðar og að annast þá trúarlegu þjónustu sem því er samfara.

4. grein.
Fjögur höfuðblót skulu haldin árlega.

5. grein.
Allsherjargoði fer fremstur meðal jafningja. Hann er leiðtogi vors siðar (Hann gegnir stöðu forstöðumanns eins og hún er skilgreind í landslögum). (Lögrétta skal útfæra nánar í allsherjargoðaþætti).

6. grein.
Goðar sitja í umboði þingmanna sinna. Fjöldi goða fer eftir ákvörðun Lögréttu hverju sinni, en aldrei mega þeir vera fleiri en 36. Allsherjargoði stofnar gildi, sem veita "heiðursgoða nafnbót". Ákvæði til bráðabirgða: Á meðan félagið er ekki fjölmennara en raun ber vitni eru goðar útnefndir af allsherjargoða og Lögréttu og staðfestir á allsherjarþingi. (Lögrétta skal útfæra nánar í goðorðaþætti).

7. grein.
llsherjarþing fer með æðsta vald í félaginu og skal það sett Þórsdaginn í tíundu viku sumars ár hvert, en þingi síðan frestað til fyrsta vetrardags. Þingmenn (fulltrúar á allsherjarþingi með tillögu- og atkvæðisrétti) eru allir þeir, sem skráðir eru Ásatrúar í Þjóðskrá og eru fullra 16 vetra, einnig þeir, sem gengist hafa undir siðfestu og eru fullra 12 vetra.

8. grein.
Allsherjarþing úrskurðar í ágreiningsmálum. Þolandi á sök, ef hann vill eigi, á sá sök sem vill. (Lögrétta skal setja reglur í rannsóknarþætti og þingskapaþætti, með hliðsjón af Grágás.

9. grein.
Lögréttu skipa goðar ásamt kjörnum fulltrúum og lögsögumanni. Lögréttumenn skulu skipta með sér verkum. Meirihluti fullskipaðrar Lögréttu réttir af lögin og úrskurðar í málum á milli þinga. Úrskurðir Lögréttu sæta kæru til allsherjarþings.

10. grein.
Lögrétta kýs lögsögumann úr hópi félagsmanna. Lögsögumaður má einnig gegna embætti goða nema allsherjargoða.

11. grein.
Lagaþættir Ásatrúarfélagsins skulu byggðir á grunnlagaþætti og siðareglum og verða að samþykkjast af meirihluta fullskipaðrar Lögréttu.

12. grein.
Ákvæðum grunnlagaþáttar verður aðeins breytt (nýmæli gerð) með tveim þriðju atkvæða fullskipaðrar Lögréttu og samþykkt næsta allsherjarþings, að undangenginni kynningu. Ef álitamál koma upp um túlkun skal höfð hliðsjón af Grágás.

Reglur Ásatrúarfélagsins

Siðaþáttur
Grein 1.
Ásatrú er nafn vors siðar en eigi er átrúnaður bundinn við Æsi eina.

Grein 2.
Heimilt er að viðurkenna fleiri guði, einnig landvættir og aðrar máttkar verur.

Grein 3.
hver maður ber ábyrgð á sjálfum sér og öllum gerðum sínum.

Grein 4.
Eigi má vanvirða heilög goð eða annað það sem heilagt er.

Grein 5.
Heimilt er að helga goðunum líkneskjur og önnur tákn, en ekki er skylda hvers eins að tilbiðja þær.

Grein 6.
Allir þeir sem telja sig Ásatrúar geta gengið í félagið með skráningu í þjóðskrá.

Grein 7.
Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar, meðan ekki brýtur í bága við landslög og allsherjarreglu.

Grein 8.
Siðareglur Ásatrúarmanna er einkum að finna í Hávamálum. Í trúarlegum efnum höfum við aðallega hliðsjón af Eddum, sem heild.

Grein 9.
Heimilt er og sjálfsagt að fræða aðra um Ásatrúarfélagið og heiðinn sið en skipulagt trúboð er óþarft.

Grein 10.
Ásatrúarmenn skulu jafnan leitast við að vera samkvæmir sjálfum sér.

Grein 11.
Vor siður byggir á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir jörðinni og öllu lífi.

Grein 12.
Ásatrúarmenn sameinast um að hefja til vegs fornan sið og forn menningarverðmæti.

Goðorðaþáttur
1 grein.
Fjöldi goða er ákveðinn af allsherjarþingi, Lögréttu og allsherjargoða, með tilliti til fjölda þingmanna.

2 grein.
Allir goðar eru jafnir að völdum og virðingu, en goðorð eru þrennskonar.

2a. Goðorð full og forn; skal sá goði sem því heldur vera búsettur í héraði og njóta stuðnings fulls helmings þingmanna á héraðsþingi, ennfremur stuðnings allsherjargoða, Lögréttu og allsherjarþings, þá er hann tekur við goðorði. Stefnt skal að því að goðorð full og forn skuli vera hið minnsta fimm. (eitt í hverjum fjórðungi auk Reykjavíkurgoðorðs), en hið flesta níu (tvö í hverjum fjórðungi auk Reykjavíkurgoðorðs).

2.b. Landsgoðorð; skal sá goði sem því heldur njóta stuðnings tíu af hundraði félagsmanna, hið minnsta en tuttugu af hundraði hið mesta, ennfremur stuðnings allsherjargoða, lögréttu og allsherjarþings þá er hann tekur við goðorði. (Þessum hlutföllum getur Lögrétta breytt, í samræmi við fjölda þingmanna og goða, á hverjum tíma)

2.c. Kjörgoðar; Þeir eru skipaðir til allt að þriggja ára í senn, af allsherjargoða, að fengnu samþykki meirihluta Lögréttu, eða allsherjarþings.

3 grein.
Goðar, að kjörgoðum undanskildum, geta skipt goðorði sínu með öðrum, eða tekið sér aðstoðarmann. Hvert goðorð hefur þó aðeins eitt atkvæði á lögréttufundum. Skulu aðilar goðorðs hlíta sömu hæfisreglum og goðar. [tillaga: ’hæfisreglum' í stað ’hæfnisreglum' [hæfinn maður er hittinn; hæfni er það að vera hæfinn, en ekki hæfur.

4 grein.
Goðar skulu mæta á lögréttufundum og allsherjarþingi, senda aðstoðarmann í sinn stað eða tilkynna forföll ella. Nú mætir goði, eða aðstoðarmaður hans, ekki á lögréttufund, eða allsherjarþing; er þá allsherjargoða, eða aðstoðarmanni hans, heimilt að skipa annan í hans stað, til að sitja fundinn. Mæti goði ekki til tveggja funda í röð má svipta hann goðorðinu.

5 grein.
Goðar eru trúar- og félagslegir embættismenn Ásatrúarfélagsins. Þeir sitja í Lögréttu og taka virkan þátt í blótum og öðrum trúarsamkomum sem haldnar eru í nafni félagsins.

6. grein.
Goði skal taka að sér starf sáttamanns sé þess óskað.

7. grein.
Goði leiðbeinir um trúarefni og siðareglur sé þess beiðst, en ekki hefur hann úrskurðarvald í þeim efnum.

8. grein.
Goðar eru settir í embætti af allsherjargoða, að fenginni samþykkt lögréttu.

9. grein.
Goði skal vinna eið að embætti sínu að Lögbergi, Þórsdag í tíundu vikusumars, að fenginni stuðningsyfirlýsingu allsherjarþings.

10. grein.
Við val goða í embætti skal taka mið af eftirfarandi: 1. Að viðkomandi sé lögráða og hafi óflekkað mannorð. 2. Að hann hafi skýra hugmynd um það í hverju embætti goða sé fólgið. 3. Að hann hafi góða þekkingu á Ásatrú og heiðnum sið. 4. Að hann hafi haldgóða þekkingu á grunnlögunum og lögum um trúfélög.

11. grein.
Staða goða er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að fjalla ekki um deilumál og þrætur í félaginu á opinberum vettvangi, verði hjá því komist.

12. grein.
Gerist goði sekur um alvarleg embættisglöp eða gróft brot á lögum og reglum félagsins getur Lögrétta vikið honum úr embætti fram að næsta allsherjarþingi sem tekur málið til endanlegrar afgreiðslu.

Allsherjargoðaþáttur
1. grein
Svo er mælt í vorum lögum að vér skulum hafa allsherjargoða. Hann fer fremstur meðal jafningja í vorum sið. Hann helgar höfuðblót og aðrar trúarsamkomur sem haldnar eru í nafni félagsins. Hann vinnur öll opinber embættisverk sem honum eru falin lögum samkvæmt svo sem; nafnfestu, siðfestu, hjónavígslu og greftrun. Allsherjargoði tekur að sér starf sáttamanns sé þess óskað. Allsherjargoði leiðbeinir um trúarefni og siðareglur sé þess beiðst, en ekki hefur hann úrskurðarvald í þeim efnum.

2. grein
Allsherjargoði er opinber talsmaður Ásatrúarfélagsins um trúarefni. Staða hans er virðingarstaða og skal hann ávallt gæta þess að halda sig utan við deilumál og þrætur jafnt innan félagsins sem utan þess, sem ekki eru samboðnar virðingu hans.

3. grein.
Allsherjargoði á sæti í Lögréttu en getur hvorki gegnt starfi lögsögumanns né gengt öðrum stjórnarathöfnum.

4. grein.
Allsherjargoði getur valið sér aðstoðarmann (staðgengil), sem tekur að sér þau verkefni sem allsherjargoða eru falin, í forföllum hans, að svo miklu leyti sem það samræmist landslögum.

5. grein.
Látist allsherjargoði í embætti eða láti af störfum af öðrum orsökum, skal aðstoðarmaður hans taka við starfi hans. Ef enginn aðstoðarmaður hefur verið tilnefndur, skal Lögrétta velja annan goða til að gegna embætti hans tímabundið. Síðan skal fara fram allsherjargoðakjör að réttum lögum, eigi síðar en að níu mánuðum liðnum, en eigi fyrr en að sex mánuðum liðnum.

6. grein.
Kjörgengir til embættis allsherjargoða eru allir goðorðsmenn, með þeim takmörkunum þó að goðar, að meðtöldum allsherjargoða, geta aldrei verið fleiri en 36.

7. grein.
Lögrétta sér um framkvæmd allsherjargoðakosninga og ákveður dagsetningar þar að lútandi í samráði við Lögréttu. Hún sendir öllum atkvæðisbærum félögum kjörgögn í síðasta lagi þremur vikum fyrir talningu atkvæða. Atkvæðisbærir eru allir löglegir félagar tólf ára og eldri. Kosið skal bréflega með leynilegri póstatkvæðagreiðslu. Atkvæðaseðlar skulu afhentir eða sendir fulltrúa sýslumannsembættisins í Reykjavík og verða þeir að hafa borist fyrir áður auglýstan talningardag. Talning atkvæða skal þá fara fram samdægurs að öllum viðstöddum frambjóðendum eða fulltrúum þeirra. Kjöri skal þegar lýst opinberlega. Hafi enginn hlotið hreinan meirihluta atkvæða skal þegar í stað fara fram önnur umferð milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu.

8. grein.
Nýr allsherjargoði sver eið að embætti sínu, að Lögbergi í tíundu viku sumars.

9. grein.
Nú nýtur allsherjargoði ekki lengur trausts og getur þá fullur fjórðungur þingmanna lagt fram vantraust á allsherjarþingi og skal þá efna til kosninga, sem lokið skal vera vel fyrir lögbundinn innsetningardag allsherjargoða.

10. grein.
Gerist allsherjargoði sekur um alvarleg embættisglöp eða gróft brot á lögum og reglum félagsins getur Lögrétta vikið honum úr embætti tímabundið. Skal þá þegar boðað til auka-allsherjarþings sem tekur málið til endanlegrar afgreiðslu. Ef allsherjarþing samþykkir brottvikninguna skal kjósa nýjan allsherjargoða eins fljótt og auðið er. En ef allsherjarþing vísar brottvikningunni frá skal fara fram, á því þingi, kosning um alla kjörna lögréttumenn og varamenn. Hinn brottvikni allsherjargoði er kjörgengur þrátt fyrir brottvísun. Ef hann hefur einnig verið sviptur goðorði, skal hann öðlast það á ný, nái hann kjöri.

Þingskapaþáttur
1. grein
Allsherjarþing skulum vér eiga og skal það sett og helgað af allsherjargoða Þórsdag í tíundu viku sumars að Lögbergi, á Þingvöllum við Öxará Þar skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:

a. Samþykkt goðorða og goðar settir í embætti.

b. Lesin upp lögin, úrskurðir Lögréttu og allar lagabreytingar frá því á síðasta þingi.

c. Önnur mál, sem Lögrétta ákveður á fundi sínum laugardaginn í áttundu viku sumars.

d. Fundi frestað til fyrsta vetrardags.

2. grein
Til allsherjarþings skal boðað með fréttabréfi til þingmanna allra og skal það póstlagt eigi síðar en mánudag í níundu viku sumars.
3. grein
Til framhalds-allsherjarþings skal boðað með í fréttabréfi til félagsmanna póstlögðu í síðasta lagi laugardag í 25. viku sumars (það er tveim vikum fyrir framhalds-allsherjarþingið). Það skal haldin á þeim stað sem lögsögumaður ákveður hverju sinni og er því aðeins lögmætt að allsherjarþingi á Þingvöllum hafi verið löglega frestað og löglega hafi verið til þess boðað. Þar skal taka fyrir eftirfarandi, hið minnsta:

a. Skýrslu lögsögumanns, allsherjargoða og nefnda.

b. Endurskoðaðir reikningar lesnir og bornir upp til staðfestingar.

c. Umræður um skýrslu stjórnar og nefnda.

d. Kosið í stjórn og aðrar trúnaðarstöður.

e. Önnur mál.

4. grein
Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja fyrir í síðasta lagi viku fyrir allsherjarþing.
5. grein
Leita skal eftir samþykki allsherjarþings fyrir öllum meiri háttar framkvæmdum og fjárfestingum sem félagið ræðst í. Fyrirhuguð verkefni skulu rækilega kynnt ásamt fjárhagsáætlun á þinginu.
6. grein
Grunnlögum félagsins verður aðeins breytt á lögmætu allsherjarþingi og þarf 2/3 atkvæða fundarmanna til þess að breytingin sé lögmæt. Breytingartillögur þurfa einnig að hafa verið kynntar rækilega í fundarboði. Tillögur um breytingar á lögunum ásamt greinargerð skulu hafa borist lögsögumanni eða Lögréttu eigi síðar en þremur vikum fyrir allsherjarþing.
7. grein
Skylt er að boða til auka-allsherjarþings sé þess krafizt af minnst 1/4 hluta félagsmanna eða 2/3 Lögréttumanna.
8. grein
Við kosningu tveggja endurskoðenda og í aðrar trúnaðarstöður sé farið eftir tilnefningu fundarmanna og skal kosning vera skrifleg og óbundin sé þess óskað.

Lögréttuþáttur
1. grein
Lögréttu skulum vér og eiga og hafa hér hvert sumar á allsherjarþingi og skal hún sitja á þeim stað ávalt, sem lengi hefur verið. Þar að auki skal Lögrétta koma saman fjórum sinnum ár hvert, sem hér segir: Fyrsta sunnudag eftir framhalds-allsherjarþing, fyrsta laugardag í mars, laugardag í níundu viku sumars og fyrsta laugardag í september. Lögsögumaður boðar til aukafunda í Lögréttu ef honum finnst ástæða til, eða ef meirihluti Lögréttu , eða allsherjargoði krefjast þess. Ekki þarf að auglýsa fasta lögréttufundi, Þingmönnum er heimilt að sitja þá.
2. grein
Í Lögréttu sitja goðar ásamt fimm kjörnum lögréttumönnum. Skulu lögréttumenn kosnir á allsherjarþingi eftir tilnefningu fundarmanna og skal kosningin vera skrifleg og óbundin. Lögréttumenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, þrír annað árið og tveir hitt. Fimm varamenn skal kjósa til eins árs í senn. Hætti einhver lögréttumanna störfum á kjörtímabilinu eða forfallist af einhverjum sökum, skal varamaður taka sæti hans.
3. grein
Lögrétta skiptir með sér verkum og skal velja sér hið minnsta, gjaldkera og ritara auk lögsögumanns. Mynda þeir framkvæmdaráð. Til setu í framkvæmdaráði eru allir lögréttumenn og goðar kjörgengir að undanskildum allsherjargoða. Goðar sitja fundi framkvæmdaráðs og nefnda, ef þeir telja ástæðu til, en án atkvæðisréttar.
4. grein
Framkvæmdaráð starfar í umboði allsherjarþings og Lögréttu. Það hefur yfirumsjón með framkvæmdum og daglegum rekstri félagsins, en framkvæmdir eru á ábyrgð lögsögumanns og framkvæmdanefnda.
5. grein
Lögrétta tekur ákvarðanir um öll meiriháttar fjárútlát og stefnumarkandi málefni á milli allsherjarþinga.
6. grein
Ef 2/3 lögréttumanna, allsherjargoði eða lögsögumaður krefjast þess skal halda aukafund í lögréttu.
7. grein
Lögrétta skal fjalla um og dæma í embættisbrotum goða og stjórnarmanna. (Þegar um slík mál er fjallað hefur sá er málið varðar takmarkaðan rétt til fundarsetu?) Hún skal einnig úrskurða í deilumálum.

Lögsögumannsþáttur
1. grein
Svo er enn mælt að sá maður skal vera nokkur ávallt í landi voru sem skyldugur sé til þess að segja lög mönnum og heitir sá lögsögumaður.
2. grein
Svo er og mælt að lögsögumaður er skyldaður til þess að segja upp lögin á þremur sumrum hverjum, en þingsköp hvert sumar.
3. grein
Lögsögumaður er kosinn af Lögréttu með einföldum meirihluta til minnst eins árs, en mest til þriggja ára. Kjörgengir eru þingmenn, lögréttumenn og goðar, að allsherjargoða undanskildum.
4. grein
Lögsögumaður er framkvæmdastjóri félagsins. Hann kallar þá menn sem hann vill, til verka í þágu félagsins, í umboði lögréttu, svo sem nefndir og framkvæmdanefndir til að sinna einstökum eða almennum verkefnum, svo sem blótsnefnd, byggingarnefnd, útgáfunefnd o.s.frv.
5. grein
Lögsögumaður situr í Lögréttu með fullan atkvæðisrétt, en situr ekki í dómum.
6. grein
Lögsögumaður varðveitir skjöl og lagatexta félagsins.
8. grein
Lögsögumaður situr í framkvæmdaráði boðar til funda þess og stjórnar þeim.
9. grein
Lögsögumaður boðar lögréttufundi og aukafundi ef honum finnst brýn ástæða til. Hann stýrir fundum eða skipar fundarstjóra.
10. grein
Lögsögumaður getur hvorki gegnt öðrum stjórnarstörfum né embætti allsherjargoða.


Upplýsingar úr ýmsum miðlum ásatrúarmanna.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM