Baháitrúin,

Meira um Ísland

BAHÁI

BAHÁI-TRÚIN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Bahá'u'lláh, spámaðurinn og stofnandi Bahái-trúarinnar, fæddist 12. nóvember 1817 í Mazindaran-héraði í Íran. Hann var af aðalsættum, móðir hans var Khadijih Khanum og faðir Mirza Buzurg-i-Vazir, meðlimur konunglegu hirðarinnar. Fjölskyldan getur rakið ættir sínar til fyrrum ráðandi ætta Persíu, s.s. Yazdigird III konungs af Sassanid höfðingjaættinni á 7. öld. Fjölskyldan átti miklar eignir og auðæfi. Bahá'u'lláh snéri baki við öllu þessu og varð þekktur og elskaður fyrir örlæti sitt meðal landa sinna.

Hann gerðist fylgjandi Báb, sem var spámaður, sem undirbjó komu frelsarans, þegar hann var orðinn 27 ára. Hann hitti Báb aldrei en þeir skrifuðust á. Bahá'ulláh var kunnur sem Bábi-leiðtogi og var meðal fylgismanna Bábs, sem voru ofsóttir á árunum 1840-1860. Hann var hnepptur í fangelsi og sætti píningum (bastinado: barinn með prikum á iljarnar). Árið 1853 var hann fangelsaður í fjóra mánuði og haldið í neðanjarðardýflissu í Tehran, sem gekk undir nafninu Siyah-Chal. Þar birtist honum fyrst himnesk mær, sem gerði honum ljóst, að hann væri hinn útvaldi, sem Báb væri að bíða eftir.

Bahá'u'lláh var látinn laus en gerður útlægur frá Persíu og hélt til Bahjdad með nokkrum vinum og ættingjum. Þar varð hann viðurkenndur andlegur leiðtogi Bábis. Áhrif hans jukust og persneska stjórnin fékk soldán Ottomanaveldisins til að taka við honum í Konstantínópel. Að kvöldi brottfarardagsins frá Baghdad 1863 sagði hann fylgjendum sínum, að hann væri hinn útvaldi, sem Báb hefði sagt fyrir um. Þessi atburður varð upphafið að 12 daga hátíðarhöldum, Ridvan, sem eru hin heilögustu í trúnni.

Eftir fjögurra mánaða dvöl í Konstantínópel var honum skipað að flytjast til Adrianopól (nú Edirne í Tyrklandi), þar sem hann lýsti opinberlega yfir hlutverki sínu. Þaðan boðaði hann konungum og ráðamönnum heimsins trúna og hét á þá að koma á heimsfriði, réttlæti og samstöðu.

Eftir fjögurra ára dvöld í Adrianopól, árið 1868, dæmdu tyrknesk yfirvöld Bahá'u'lláh til fangelsisvistar í fangelsisborginni Akka í Palestínu, þar sem er nú Norður-Ísrael. Þar var honum haldið í algerri einangrun í tvö ár. Yngsti sonur hans, Mirza Mihidi, fórst í slysi á þessum tíma. Þrátt fyrir þessar þrautir, lét Bahá'u'lláh ekki af yfirlýsingum sínum til æðstu manna heimsins, s.s. Englandsdrottningar, Rússakeisara, Frakklandskeisara o.fl. Hann hélt líka áfram að halda fram lögmálum og kenningum um nýtt heimsskipulag og sameiningu mannkyns.

Frá árinu 1870 var fjölskyldan, Bahá'u'lláh, kona hans og elzti sonur, stöðugt flutt á milli húsa í Akka. Þegar þau voru í húsi Udi Khamars, gaf Gahá'u'lláh út „Lögbókina”, Kitab-i-Aqdas. Árið 1877 var honum leyft að fara frá fangelsisborginni og hann settist að í húsi Maxra'ih í tvö ár. Þaðan flutti hann í hús Bahji skammt norðan Adrianopól. Þegar hann dvaldi síðar í Akkra, sendi hann æðstu mönnum heimsins bréf, sem eru meðal athyglisverðustu skjala í trúarbragðasögu heimsins. Þar var lýst yfir sameiningu mannkyns og tilkomu einnar heimsmenningar. Konungar, keisarar og forsetar heimsins á 19. öld voru hvattir til að jafna ágreining sinn, grafa stríðsaxirnar og helga krafta sína heimsfriði.

Bahá'u'lláh dó í Bahji 29. maí 1892, 74 ára að aldri, og var grafinn þar. Í erfðaskrá sinni, sem er kölluð „sáttmálabókin", tilnefndi hann elzta son sinn sem eftirmann sinn til að boða kenningar sínar. Kenningarnar voru farnar að fá hljómgrunn utan Mið-Austurlanda og grafreitur hans er nú nafli trúarlífs áhangenda hans um allan heim.

Bahá'u'lláh sagði m.a.:

* Jörðin er eitt land og mannkynið er borgarar þess.

* Ég legg mesta áherzlu á réttlæti. Þið eruð ekki á mínu bandi, ef þið gerið það ekki.

* Mesti styrkur minn er ástin. Allir, sem hana þiggja eru hólpnir.

* Fordæmdu ekki syndir annarra á meðan þú ert sjálfur syndugur.

* Hjarta þitt er mitt heimili. Helgaðu mér það.

* Ég hef gert dauðann að gleðiboða, þess vegna þarftu ekki að syrgja.

* Haltu merki mínu á lofti, svo að ég megi minnast þín á himnum.

* Ríku jarðarbúar, hinir fátæku meðal ykkar eru traust mitt. Gætið þeirra vel!

* Uppspretta allrar þekkingar er vitundin um guð. Hin mikla dýrð hans verður ekki ljós, nema menn þekki guðlega tilveru hans. Hámark niðurlægingarinnar er að hverfa úr skjóli hinna miskunnsömu og leita ásjár hins vonda.

* Kjarni alls, sem ég hef sagt yður er réttlætið. Maðurinn verður að losna sig við ónýtar langanir og eftirlíkingar, ganga guði á hönd og skoða allt með alvöru.

* Uppspretta alls góðs er traust á guði, undirgefni við boð hans og sátt við heilagan vilja hans.

* Kjarni vizkunnar er guðhræðsla, ótti við reiði hans og refsingu og þakklæti fyrir réttlæti hans og niðurstöður.

* Kjarni trúarinnar er að bera því vitni, sem guð hefur kunngert og fylgja boðum hans eins og þau koma fyrir í hinni helgu bók hans.

* Uppspretta allrar dýrðar er undirgefni og sátt við boð guðs.

* Kjarni ástarinnar er óskilyrt trú á guð og afneitun allra langana, nema að þjóna honum.

* Uppspretta hugrekkis og valds er útbreiðsla guðsorðs og staðföst trú á ást hans.

  • Kjarni trúarinnar er fámælgi og að láta verkin tala. Ef orðskrúðið er góðverkunum yfirsterkara, býr engin sönn trú að baki.

Bábinn
Bábí hreyfingin, undanfari bahá'í trúarinnar, var í raun sjálfstæð trú þekkt sem bábismi eða bábí-trú. Það trúarkerfi myndaði sterkt samfélag, hafði sín eigin rit og setti óafmáanlegt mark á söguna. Hún hófst 23. maí 1844, þegar hinn 25 ára gamli kaupmaður frá Shiraz í Íran tilkynnti að hann væri Qa'im, hinn fyrirheitni í Islam. Skírnarnafn hans var Síyyíd Ali-Muhammad, en hann tók sér nafnið Bábinn, sem þýðir hlið eða dyr á arabísku. Til skýringar sagði hann að nafn hans táknaði hliðið sem hinn mikli sendiboði Guðs, sem allt mannkynið byggist við að brátt myndi birtast, myndi koma í gegnum.

Heimildir eru á einu máli um að Bábinn hafi verið óvenjulegur sem barn. Hann fæddist 20. október 1819, og honum var gefinn furðulegur vísdómur og göfgi svo að minnir á Jesúm ungan. Þegar Bábinn fullorðnaðist tók hann að vinna að verslun í fjölskyldufyrirtæki sem frændi hans rak. Flekkleysi hans og guðhræðsla ávann honum virðingu annarra verslunarmanna. Einnig var hann kunnur að örlæti sínu við fátæka.

Eftir að Bábinn hafði lýst yfir köllun sinni flykktust að honum fylgjendur og hin nýja trúarhreyfing breiddist út um Íran eins og skógareldur. Þessi gróska vakti andstöðu og ofsóknir, einkanlega meðal stjórnenda ríkistrúarinnar, en þeir töldu völdum sínum og virðingu ógnað. Meðan á ofsóknunum stóð, var Bábinn settur í fangelsi nokkrum sinnum. Í aðalriti sínu, Bayán, viðurkenndi hann ekki öll lög múslima og setti ný í þeirra stað. Í Bayán er lögð rík áhersla á siðferði og einkum þó hreinleika í hjarta og athöfn. Þar var líka tekinn málstaður kvenna og fátæklinga og mælt með menntun og gagnlegum vísindum. En kjarni verksins var undirbúningur komu annars sendiboða Guðs og myndi sá verða Bábnum miklu meiri og hlutverk hans yrði að innleiða þá öld friðar og nægta sem svo lengi hefði verið gefið fyrirheit um í islam, rétt eins og gyðingdómi, kristni og öllum öðrum trúarbrögðum veraldar.

Þeir sem hlýddu á boðskap Bábsins voru læstir í hugarheimi sem lítið hafði breytzt frá því á miðöldum. En með því að boða algerlega nýja trú gat Bábinn hjálpað fylgjendum sínum til að brjótast til frelsis úr fjötrum trúar forfeðranna og undirbúa sig fyrir komu Bahá’u’lláh. Þeir sem andmæltu Bábnum, sögðu að lokum að hann væri ekki aðeins trúvillingur, heldur stórhættulegur byltingarseggur. Yfirvöldin ákváðu að láta taka hann af lífi.

Hinn 9. júlí 1850 var dauðadóminum fullnægt í garði Tabriz herbúðanna. Um það bil tíu þúsundir manna söfnuðust saman á þökum herskálanna og húsanna þar allt í kring. Bábinn og ungur fylgismaður hans voru hengdir upp í tveimur reipum við virkisvegginn. Sveit 750 armenskra hermanna í þrefaldri röð, 250 í hverri, skutu á þá félaga í þremur hrinum. Svo þéttur var reykurinn af púðrinu og rykinu sem sté upp að dimmdi af og ekki sá handaskil í garðinum. Eins og skráð er í skýrslum bresku utanríkisþjónustunnar sást Bábinn ekki þegar reykjarkófinu létti. Félagi hans stóð ósár og ósnortinn af kúlnahríðinni. Reipin, sem þeir höfðu verið bundnir með, voru í tætlum.

Bábinn fannst aftur í klefa sínum, þar sem hann gaf einum fylgjenda sínum síðustu fyrirmæli. Þegar verðirnir komu til þess að fara með hann á aftökustaðinn fyrr um daginn hafði hann sagt að ekkert jarðneskt valdì gæti

þaggað niður í sér fyrr en hann hefði sagt allt sem hann hefði að segja. Nú, þegar verðirnir komu öðru sinni, sagði Bábinn: "Nú megið þið halda áfram og fullkomna ætlunarverk ykkar."

Bábinn og hinn ungi félagi hans voru nú færðir öðru sinni til aftöku. Armensku sveitirnar neituðu að skjóta aftur og hersveit múslima var kölluð til og skipað að skjóta. Í þetta sinn voru líkamar tvímenninganna tættir í sundur, hold og bein beggja blönduðust. Öllum til undrunar voru andlit þeirra ósködduð.

Jarðneskar leifar Bábsins voru árið 1909 lagðar til hinstu hvíldar í grafhýsi því, sem við hann er kennt á Karmel-fjalli í Ísrael.

BAHÁ'U'LLÁH
Bahá'u'lláh var persneskur aðalsmaður; faðir hans var ráðherra við hirð keisarans. Hann gekk til liðs við hreyfingu Bábsins strax og hann heyrði um hana. Fyrir þær sakir var hann sviptur öllum eignum sínum, pyndaður, fangelsaður og að lokum sendur í útlegð, fyrst til Bagdad (1853), síðan til Konstantínópel og Adríanópel (1863) og loks til Akká í Palestínu (1868) þar sem hann var fangi tyrknesku stjórnarinnar til æviloka.

Það var í Bagdad 1863, sem Bahá'u'lláh lýsti því yfir, að hann væri sá, sem Bábinn hafði sagt fyrir um. Árið 1868 hóf hann að kunngera köllun sína og ritaði m.a. öllum helstu þjóðhöfðingjum heims úr fangelsi sínu. Meðal þeirra voru Napóleon III. Viktoría Bretadrottning, keisarar Þýskalands, Austurríkis og Prússlands og Tyrkjasoldán. Í þessum bréfum sagði Bahá'u'lláh fyrir fall konungsríkja og keisarardæma og báðar heimsstyrjaldirnar. Í útlegðinni reit Bahá'u'lláh yfir eitt hundrað bækur, þar sem hann leggur grundvöllinn að framtíðarskipulagi bahá’í trúarinnar. Bahá'íar trúa því, að með þessu skipulagi hafi Bahá'u'lláh sáð til þess guðsríkis á jörðu, sem heitið er í helgiritum trúarbragðanna. Bahá'íar líta á rituð orð Bábsins, Bahá'u'lláh og ‘Abdu'l-Bahá sem heilagt orð.

Meðan Bábinn og Bahá'u'lláh lifðu voru milli 20 - 30.000 fylgjendur þeirra líflátnir með hroðalegum hætti í Íran. Ofsóknum gegn bahá'í trúnni hefur verið haldið áfram í Íran og víðar allt til þessa dags.

Árið 1890 hitti frægur Cambridge-lærður Austurlandafræðingur, Englendingurinn Edward G. Browne, Bahá’u’lláh og er hann eini Vesturlandabúinn sem það gerði. Browne heimsótti Bahá’u’lláh á heimili hans í Bahjí og segir hann svo frá fundi þeirra:

"Ásýnd þess sem ég horfði á get ég aldrei gleymt þótt ég geti ekki lýst henni. Þessi nístandi augu virtust lesa innsta hugskot mitt; vald og myndugleiki lýsti af þessum miklu brúnum... Þarflaust var að spyrja frammi fyrir hverjum ég stóð er ég laut honum sem nýtur ástar og virðingar sem konungar mættu öfunda hann af og keisarar þrá án árangurs!

Mild og virðuleg rödd bauð mér að setjast og mælti síðan: _Lof sé Guði, að þú hefur náð takmarki þínu!... Þú hefur komið til að sjá fanga og útlaga... Vér æskjum veröldinni aðeins góðs og hamingju þjóðunum; samt telja þeir oss upphafsmenn deilna og undirróðurs, verðuga fjötra og útlegðar... Þessum deilum, blóðsúthellingum og ósætti verður að linna og allir menn verða sem ein fjölskylda, ein ættkvísl. Lát manninn eigi miklast af því að hann elskar land sitt; lát hann fremur miklast af því að hann elskar meðbræður sína."

ABDU'L-BAHÁ
'Abdu'l-Bahá var sonur Bahá'u'lláh og fylgdi honum í útlegð og fangavist. Hann var samfleytt fangi í 45 ár, uns hann var leystur úr haldi eftir byltingu Ungtyrkja á fyrsta áratug þessarar aldar.

Þegar litið er til baka sést glöggt að frá upphafi bjó Bahá’u’lláh 'Abdu'l-Bahá undir að taka við af sér. Hann fæddist 23. maí 1844, sömu nóttina og Báb lýsti yfir köllun sinni. Á barnsaldri mátti hann líða með föður sínum, þegar hrina fyrstu ofsóknanna gegn fylgjendum Bábs reið yfir.

'Abdu'l-Bahá var átta ára þegar Bahá’u’lláh var varpað í fangelsið. Þegar hann eltist, varð hann nánasti félagi föður síns og tókst á hendur fyrir hann mörg erfið verk. Hann tók á móti þeim mikla fjölda gesta sem kom til að hitta föður hans og verndaði hann gagnvart hégómlegum mönnum eða þeim sem sýndu illgirni gagnvart honum.

Þegar flestir bahá’íanna í Akká sýktust af taugaveiki, malaríu og blóðsótt, sinnti 'Abdu'l-Bahá sjúklingunum, þvoði þeim, mataði þá, en hvíldist ekki sjálfur. Að lokum örmagnaðist hann, fárveikur lá hann milli heims og helju næstum heilan mánuð. Þessir eiginleikar sjálfleysis, þekkingar og djúp auðmýkt, ásamt augljósri aðdáun Bahá’u’lláh, áunnu brátt 'Abdu'l-Bahá titilinn "meistarinn". Orð sem enn er notað meðal bahá’ía þegar rætt er um 'Abdu'l-Bahá.

Þrátt fyrir ótvíræð fyrirmæli í erfðaskrá Bahá’u’lláh reyndu nokkrir öfundsjúkir ættingjar að hrifsa til sín stöðu 'Abdu'l-Bahá eftir andlát Bahá’u’lláh. Þessir metorðagjörnu menn reyndu hvað eftir annað að stofna flokka sinna eigin fylgjenda. Ef litið er til sífelldra flokkadrátta í öðrum trúarbrögðum heimsins, þá er mikilvægt að engum þessara hópa tókst að kljúfa trúna og enginn þeirra entist. Þeir leystust upp við dauða þeirra sem lagt höfðu grunninn að þeim þannig að nú er enga sértrúarhópa að finna innan trúarinnar. Bahá’íar þakka þessa einingu því afli sem felst í sáttmálanum.

Hlutverk 'Abdu'l-Bahá var einnig að útskýra heimsspannandi sýn föður síns á máli sem vesturlandamenn skildu. Að það tókst hraðaði mjög umbreytingu bahá’í trúar úr fámennri hreyfingu í Miðausturlöndum yfir í þá alheims trú sem hún er í dag.

'Abdu'l-Bahá var áfram fangi Ottóman heimsveldisins að föður sínum látnum. Með bréfum og með beinum tengslum við átrúendur á Vesturlöndum sem ferðuðust til Palestínu, leiddi hann útbreiðslu trúarinnar utan Miðausturlanda. Eftir byltingu ungtyrkja, hlaut hann ferðafrelsi. Í ágúst 1911 lagði hann upp frá Landinu helga í fjögurra mánaða heimsókn til Vesturlanda og kom þá bæði til Lundúna og Parísar. Þar hitti hann átrúendurna og ræddi daglega við þá um trúna og meginkenningar hennar.

Vorið eftir lagði 'Abdu'l-Bahá aftur upp ferð til Evrópu sem stóð í eitt ár, og síðan til Bandaríkjanna og Kanada. Heimsóknin stórjók útbreiðslu trúarinnar í báðum þessum löndum. Á ferðum sínum um meira en fjörutíu borgir í Norður-Ameríku var honum tekið með virðingu og viðurkenningu, bæði af fylgjendum og öðrum jöfnum höndum. Í borg eftir borg var honum boðið að tala í kirkjum og samkunduhúsum og á fundum hjá virðulegum flokkum og félagasamtökum.

Meginávinningurinn var sá að unnt varð að staðfesta bahá’í trú sem meiri háttar nýtt afl til félagslegra umbóta og trúarlegrar nýsköpunar. Boðskapur Bahá’u’lláh ó með hið mikla ákall um nýtt og friðsamlegt mannlegt samfélag ó hafði nú verið flutt hinum iðnvædda heimi og ný kynslóð óhvikulla fylgjenda hafði verið skráð.

Þegar heimsstyrjöldin fyrri braust út var 'Abdu'l-Bahá kominn heim til Landsins helga. Í ávörpum sínum á Vesturlöndum hafði hann varað við þeimvoða sem í vændum var og hann var óþreytandi í að benda á nauðsyn þess að koma á einhvers konar samveldi sem næði til alls heimsins og sem gæti ef til vill afstýrt heimsstyrjöld.

Meðan á stríðinu stóð varði 'Abdu'l-Bahá tíma sínum í að starfa samkvæmtþeim meginkenningum sem hann og faðir hans höfðu boðað. Hann skipulagði t.d. ræktunarframkvæmdir nálægt borginni Tíberías en tilvist þessa átaks varð til þess að koma í veg fyrir hveitiskort og hungursneyð í þessum landshluta. Þetta varð tilefni þess að breska ríkisstjórnin heiðraði 'Abdu'l-Bahá að stríði loknu. Hann lést í Haifa 1921 og í erfðaskrá sinni útnefndi hann elsta dótturson sinn, Shoghi Effendi Rabbani, Vörð bahá’í trúarinnar.

Lýsing á 'Abdu'l-Bahá
"Sjaldan hef ég séð mann sem með útliti sínu einu saman hefur haft jafn sterk áhrif á mig. Hár, sterkbyggður, teinréttur, með hvítan túrban og í hvítum kufli, svart liðað axlarsítt hár, breitt og kröftugt enni sem gaf til kynna skarpar gáfur og ósveigjanlegan viljastyrk, haukfrán augu og sterka en viðfeldna andlitsdrætti. Þetta var það sem ég upplifði á mínum fyrsta fundi með 'Abbás Effendi, meistaranum, eins og hann er kallaður. Mælskari mann, rökfimari, fundvísari á myndrænar samlíkingar, gjörkunnari helgiritum gyðinga, kristinna manna og múslima, held ég að vart verði fundinn, jafnvel meðal þess mælska, skarpskyggna og næmgeðja kynþáttar, sem hann tilheyrir. Þessir eiginleikar ásamt fasi, sem er hvorutveggja í senn tiginlegt og innilegt, gerðu það að verkum að ég hætti að undrast og þá virðingu sem hann naut langt utan samfélags fylgjenda föður hans. Um mikilleik þessa manns og vald hans gat enginn efast sem litið hafði hann augum."

Edward G. Browne, fræðimaður frá Cambridge sem hitti 'Abdu'l-Bahá 1890.

SHOGHI EFFENDI
Eins og faðir hans hafði 'Abdu'l-Bahá áhyggjur af hugsanlegum klofningi trúarinnar eftir sinn dag. Hann lét því einnig eftir sig skýra og ítarlega erfðaskrá á frekari útfærslu sáttmála Bahá’u’lláh. Í þessu skjali útnefndi 'Abdu'l-Bahá elsta sonarson sinn, Shoghi Effendi Rabbání, til þess að taka við stöðu varðar trúarinnar. Bahá’u’lláh hafði sagt fyrir um þessa stöðu og sá sem henni gengdi hafði umboð til að túlka kenningar trúarinnar.

Shoghi Effendi var fæddur í Akká 1.mars 1897 og var löngum í bernsku við kné 'Abdu'l-Bahá. Hann gekk í bandaríska háskólann í Beirut og síðan í háskólann í Oxford á Englandi í og þar öðlaðist hann framúrskarandi þekkingu á enskri tungu og vestrænni menningu. Undir leiðsögn Shoghi Effendi varð bahá’í trú að raunverulegum heimstrúarbrögðum. Þegar 'Abdu'l-Bahá féll frá 1921 voru bahá’íar hundrað þúsund talsins. Flestir voru persneskir og bjuggu að mestum hluta í Íran og öðrum Austurlöndum nær. Fáeinir fylgjendur voru á Indlandi, í Evrópu og Norður-Ameríku í alls í 35 löndum. Um það bil 36 árum seinna, þegar Shoghi Effendi féll frá 1957, voru bahá’íar um 400 þúsund, og bjuggu þá orðið í meira en 250 löndum, fylkjum eða nýlendum.

Bréf frá Shoghi Effendi lögðu líka línurnar til þess að vernda kosningakerfi og hópákvarðanir sem hafa orðið eitt helsta sérkenni bahá’í trúar. Hann skrifaði bréf til hinna ungu bahá’í stofnana bréf, sem skýrðu hvernig kenningar Bahá’u’lláh bregða birtu á málefni allt frá fjölskyldumálum til heimsstjórnunar. Hann fjallaði um samband og skyldleika milli bahá’í trúar og annarra trúarbragða heimsins. Hin ljósu og skýru ritverk hans stuðluðu enn frekar að því að skilgreina sjónarmið trúarinnar í málum sem snerta siðfræði, guðfræðiog sögu.

Ef til vill er þó það mikilvægasta í þróunarsögu trúarinnar til þessa bréf Shoghi Effendis til bahá’í heimsins, sem voru stöðug uppspretta hvatningar og stuðnings. Enda þótt bahá’í trú sé virt í dag þá voru þeir sem aðhylltust trúna á árunum 1930 - '50 annað hvort álitnir grunsamlegir eða þeir urðu aðhlátursefni. Skýr sýn Shoghi Effendi á trúna sem opinberun Guðs til okkar aldar og fullvissa hans um lokasigur hennar hjálpaði til að efla nýja kynslóðar fylgjenda, sem þrátt fyrir fámenni hefur útbreitt boðskap Bahá’u’lláh út í hvern krók og kima jarðarinnar.

Bahá'í trúin
Fyrir rúmlega 100 árum var bahá'í (framber: bahai) trúin lítt þekkt trúarhreyfing í Mið-Austurlöndum. Núna kemur hún næst á eftir kristindómi hvað varðar landfræðilega útbreiðslu. Innan vébanda hennar er fólk frá öllum þjóðlöndum og af 2,100 þjóðabrotum og kynstofnum. Bahá'í samfélög eru starfandi í 232 löndum og sjálfsstjórnarsvæðum. Bahá’í trúin rúmar því mestan fjölbreytileika og þjóðfélagslegar andstæður allra sjálfstæðra trúarbragða heims. Eining og samstaða bahá’ía um allan heim afsannar fullkomlega ríkjandi kenningar um ósættanlegar andstæður trúarbragða og mannlífs á jörðinni. Milljónir múslima, búddhista, hindúa, kristinna manna, gyðinga og annarra hafa tekið þessa nýju trú. Um leið hafa þeir viðurkennt að öll önnur trúarbrögð mannkyns eru komin frá Guði og að þau hafa verið andlegir áfangar á langri leið mannkynsins til friðar og einingar.

Bahá’í trúin byggir m.a. á þessum meginkenningum, sem Bahá’u’lláh, höfundur hennar, setti fram fyrir meira en eitt hundrað árum:

Eining mannkyns og trúarbragða þess
Frjáls og óheft rannsókn á sannleikanum
Grundvallarsamræmi milli vísinda og trúabragða
Jafnræði karla og kvenna
Útilokun fordóma á grundvelli kynþáttar, trúar og þjóðernis
Skyldumenntun, sem nær til sérhvers mannsbarns á jörðinni
Lausn efnahagsmála, sem byggist á andlegum gildum
Alheims hjálpartungumál
Alheimsfriður, sem lýðræðislega kjörin heimsstjórn stendur vörð um.

Andlegt þjóðarráð bahá'ía á Íslandi
Öldugötu 2
101 Reykjavík
Pósthólf 536
121 Reykjavík
Sími: 567-0344
Netfang: nsa@bahai.is
BAHÁI


Upplýsingar af alþjóðlegum vef bahái.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM