Búddatrú,

Meira um Ísland


BÚDDATRÚ
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Búddatrúin barst til Japans um Kína. Eftir 5. öld e.Kr. blandaðist hún shinto-trúnni auk þess að lifa sínu eigin lífi og hafði verið löguð að þörfum landsmanna. Kíótó er meginmiðstöð búddatrúarinnar í Japan og þar eru flestar sögulegar minjar um hana. sjintóhof í borginni falla í skuggann fyrir búddahofunum. Hofin, sem helzt ber fyrir augu gesta í Kíótó vegna legu sinnar í miðborginni, eru Yasaka og Chion-in.

Höfundur búddadómsins er talinn fæddur laust fyrir miðja 6. öld f.Kr. Hann var af aðals- eða konungaættum, Gautama-ættinni (Gotama á pali-máli), og hét Siddharta. Gautama-ætt var kvísl Sakya-ættar og því er hann stundum nefndur Sakyamuni (hinn þögli) vitringurinn af Sakya-ætt. Tignarheit hans sem trúarhöfundar er Búdda, 'hinn upplýsti'. Játendur hans nefna hann einnig Bhagavat, drottinn, eða öðrum guðdóms- heitum, svo sem Tatagata. Átthagar hans, Sakyland, voru á Norðaustur-Indlandi, nálægt núverandi landamærum Nepals.

Fyrir milljónum ára var uppi brahmani nokkur, Súmedha að nafni, sem hafnaði ættarauði sínum til þess að verða heilagur meinlætamaður. Á þeim tíma lifði hér á jörð Búdda nokkur eða fullkominn spekingur, sem hét Dvipampara. Einhverju sinni mætti Súmedha honum á förnum vegi og varð frá sér numinn, varpaði sér niður í eðju vegarins til þess að líkami hans mætti verða brú fyrir hinn heilaga og lærisveina hans, og ákvað á þeirri stundu að verða sjálfur Búdda á sínum tíma og boða heiminum sannleikann. Þess ákvörðun festi rætur í huga hans og hann varð Bodhisattva, þ.e. vera, sem á fyrir sér að verða Búdda.

Nú fór þessi vera milli margra tilverusviða, ýmist í líki manna eða dýra, og lagði sífelldlega stund á það að verða öðrum til góðs. Eitt sinn gaf hann augu sín blindum beiningamanni, öðru sinni gaf hann langsoltinni tígrislæðu líkama sinn til átu, að hún mætti seðja unga sína, einhverju sinni stökk hann í héralíki af fúsum vilja inn í eld, til þess að hungraður vegfarandi gæti saðst af steiktu kjöti hans. Að lokum komst hann í himinn Túsíta-guðanna og lifði þar langan aldur í guðlegri sælu sem einn af guðum þeim, er þar búa.

Þá kom sú stund, að guðirnir, sem halda vörð á hornum heimsins, létu berast þau boð um alheiminn, að eftir þúsund ár skyldi Búdda fæðast meðal mannanna. Guðirnir ákváðu, hver skyldi takast það hlutverk á hendur og hvar og hvenær hann skyldi fæðast. Súmedha varð fyrir valinu. Tími hans var kominn. Hann var Bodhisattva.

Þá var konungur eða ríkur höfðingi af Sakya-ættinni í Kapilavastu, borg á Norðaustur-Indlandi, Súddhodana að nafni. Hann var kvæntur og drottning hans hét Maya. Hana dreymdi um þetta leyti draum. Henni þótti fjórir guðir taka sæng hennar, sem hún svaf í, og bera hana upp í Himalajafjöll. Þeir settu sængina undir stórvaxið tré. Konur þessara fjögurra guða lauguðu líkama hennar og smurðu hann og skrýddu himneskum klæðum og blómum. Guðirnir færðu hana síðan inn í gullið hús, sem stóð á silfurfjalli og lögðu hana þar í sæng. Þá nálgaðist hvítur fíll úr norðurátt með lótusblóm í rananum. Það bar Bodhisattva í fílsgervi. Hann gekk þrisvar í kringum rúm drottningar með þokkafullu látbragði, snart síðan hægri síðu hennar og hvarf að lokum inn í líf hennar.

Á sömu stundu sem Bodhisattva var getinn í móðurlífi titruðu og skulfu allir hinir 10.000 heimar og fylltust af miklu ljósi, blindir fengu sýn, daufir heyrn, mállausir mæltu, krypplingar réttust, lamir gengu, fangar urðu frjálsir, eldur slokknaði í öllum helvítum, sjúkdómar manna læknuðust, villidýrin urðu spök, allir menn mæltu aðeins vingjarnlegum orðum, öll hljóðfæri tóku að hljóma, hvarvetna varð blíðveður, mildur og svalur blær hressti mennina, fuglarnir hættu að fljúga, fljótin hættu að renna, sjórinn varð ósaltur, alls staðar skrýddist jörðin lótusblómum og blómstrum rigndi af himni.

Frá þeirri stundu, er Bodhisattva var getinn, héldu fjórir englar vörð með brugðnum sverðum til þess að verja hann og móðurina öllu illu. Engin syndsamleg hugsun lét á sér bæra í brjósti hennar. Hún hafði náð hátindi hamingju og heiðurs og var heil og sæl og laus við alla líkamsþreytu. Og í skauti sínu mátti hún sjá Bodhisattva, eins og maður sér hvítan þráð í gegnum skíran gimstein.

Þegar drottningin vaknaði af draumi sínum sagði hún manni sínum, hvað fyrir sig hefði borið. Konungur lét kalla fyrir sig 64 ágæta brahamana, veitti þeim af mikilli rausn og uppfyllti allar óskir þeirra. síðan sagði hann þeim drauminn og spurði, hversu ráða skyldi. "Vertu óhræddur, mildiríki konungur", sögðu brahamarnir. "Drottning þín er með barni. Þér mun fæðast sonur. Ef hann ræður af að verða heimilisfaðir, mun hann verða heimskonungur. En hafni hann heimili og heimi, mun hann verða Búddha, er dreifa mun skýjum syndar og vanþekkingar burt frá heimi þessum".

Þegar að því kom, að Maya skyldi verða léttari, var hún að fara í kynnisför til ættingja sinna í nágrenni Kapilavastu. Þangað var hún borin af þúsund þjónum í gullnum burðarstóli. Á leiðinni var áð í Lumbini-garðinum. þar varð drottning léttari, fæddi sveinbarn standandi upp við tré og haldandi sér í eina grein þess. Guðrinir tóku við sveininum og réttu hann mönnunum. Og mennirnir settu hann á jörðina. Þar stóð hann og horfði til austurs. Frammi fyrir sér sá hann þúsundir veralda, þar sem guðri og menn fórnuðu honum reykelsi og blómsveigum og lofuðu hann. Þegar hann hafði litið yfir heimsskautin tíu og ekki fundið neinn sinn líka, gekk hann sjö skref fram, nam staðar við sjöunda skrefið og hrópaði miklum rómi: "Ég er hinn fyrsti í þessum heimi".

Súddhondana konungur óskaði þess heitast, að sonur hans sneri sér að heimslegum hlutum og gerðist konungur. Því er sagt, að hann hafi lagt á það alla stund að beina huga hans að lystisemdum og unaði heimsins. Þegar hann var sextán ára, lét konungur reisa þrjár hallir handa honum, eina fyrir hverja árstíð, og gaf honum 40.000 dansmeyjar til yndis. því hafði verið spáð, að Siddharta myndi vakna til andlegra hugsana við það að sjá hruman öldung, líkþráan mann, liðið lík og betlimunk. Þess vegna lét faðir hans hafa stranga gát á förum hans í hvívetna og vaka yfir því, að ekkert gæti fyrir augu hans borið, er varpað gæti skugga á lífsgleði hans og dregið úr lífsþrá hans. þess í stað lifði prinsinn hvern dag í dýrlegum fagnaði við skemmtan hirðmanna og unað fríðra kvenna. Honum var gefin ung og tiginborin kona og við henni gat hann einn son.

En þegar tími var til kominn, stilltu guðirnir svo til, að allar þessar forboðnu sýnir bar fyrir Siddharta. Einn guðanna breytti sér í hruman öldung, sem staulaðist áfram skjögrandi og boginn í baki, tannlaus og hrukkóttur og studdist við staf. þá spurði prinsinn ekil sinn: "Hver er þessi veræli maður? Er hann sá eini, sem svona lítur út, eða eru þetta ættareinkenni?" Vagnstjórinn svaraði: "Nei, herra, þetta er öldungur. Svona verað allir menn að lokum". "Ég líka?", spurði Siddharta. "Þú líka, herra". Þá mælti Siddharta: "Hvílíkir heimskingjar eru þá mennirnir! Ölvaðir eru þeir af ofurhug æskunnar og sjá ekki ellina. Hvernig má ég gleðjast við leika og skemmtan, er ég veit, að eitt sinn verð ég ellinni að bráð. Vei fæðingunni, úr því að ellin skal koma yfir þá, sem fæðast". Síðan létu guðirnir bera fyrir hann sjúkan mann, sem engdist í kvölum og rotnandi lík. Ekillinn gerði honum grein fyrir þessum sýnum á sama hátt og hinni fyrstu. Hann skildi nú, að allt, sem lifir, ber í sér nálykt dauðans. Loks varð munkur á vegi hans og þá blésu guðrinir því í brjóst ökumanninum, að hann skyldi lofa og vegsama einsetulífið og afneitun veraldarinnar. Þá fæddist þráin hjá Siddharta að segja skilið við lífið og leita hjálp-ræðisins.

Um þessar mundir fæddist sonur hans. Þegar honum barst fregnin um það, mælti hann: "Hindrun (rahúla) er fædd. Hlekkur er kominn í heiminn". Fyrir því var sonurinn heitinn Rahúla (hindrun, hlekkur).

Kvöld nokkurt lá Siddharta á hvílubekk í höll sinni. Skartbúnar meyjar, fagrar sem himneskar dísir, söfnuðust að honum og skyldu gleðja hann með dansi og hljóðfæraleik. En hann fékk ekkert yndi af leik þeirra. hann féll í fasta svefn. Þá vörðuðu meyjarnar hljóðfærunum frá sér og sofnuðu. Von bráðar vaknaði Siddharta, settist upp og horfði á hinar sofandi konur, er lágu til og frá um gólfið, sumar froðufellandi í svefninum, aðrar gnístandi tönnum, sumar gapandi, aðrar höfðu flett klæðum frá sér og berað nekt sína á ófagran hátt. Mælir lífsleiðans var fylltur. Konungssonurinn varð gagntekinn viðbjóði. Hann litaðist um í skrautlegum híbýlum sínum, sem voru fögu eins og goðheimar, og honum virtust þau vera grafreitur, fullur af líkum. "Hvílíkt farg og hvílík kvöl", sagði hann. Og hann ákvað að stíga þega í stað hið mikla skref og flýja heiminn.

Hann hvarf nú með leynd á brott úr höllinni ásamt þjóni sínum einum. Hann leit sem snöggvast á sofandi son sinn um leið og hann leyndist út, og móður hans, þar sem hún hvíldi á blómskreyttum beði og hafði lagt hönd sína á höfuð drengsins. En ekkert gat hindrað hann. Freistarinn, Mara, gekk í veg fyrir hann og reyndi að telja honum hughvarf, en fékk engu áorkað. Siddharta var 29 ára, er her var komið. Hann leitaði fyrst til brahmana-spekings eins, en vísdómur hans fullnægði honum ekki. Hann leitaði á náðir annars spekings, en varð líka fyrir vonbrigðum þar. Honum skildist, að hann varð að glíma við gáturnar og finna lausnina sjálfur.

Siddharta settist nú að á stað einum, sem hét Úrúvela á bökkum Neranjara-fljótsins og tók að þjá sig ströngustu meinlætum og jógaiðkunum. Hann fastaði og þjakaði hold sitt svo að honum hélt við bana. Fimm einsetumenn höfðust við í grenndinni og undruðust þeir þær píslir, er hann tók á sig. "Þegar ég kom við kvið minn", sagði hann síðar, "fann ég fyrir hryggarliðunum ... Þegar ég strauk limi mína, til þess að þeim svíaði, lágu hárin laus á þeim". En hann fann engan frið. Loks varð honum ljóst, að meinlætin voru ekki rétta leiðin. Og hann neytti matar. Einsetumennirnir töldu, að hann hefði gefist upp á vegi heilagleikans og hurfu brott frá honum með fyrirlitningu.

Bodhisattva settist nú undir fíkjutré, sneri andliti til austurs og gerði svofellt heit: "Þótt húð mín, sinar og kögglar visni, þótt hold og blóð líkama míns þorni, þá mun ég ekki víkja af þessum stað fyrr en ég hef öðlast hina æðstu, fullkomnu þekkingu".

Kona ein kom nú þangað með hrísgrjónagraut í skál og hugðist fórnfæra anda nokkrum. Er hún sá Siddharta, hugði hún, að þar væri andinn, því að frá honum stafaði geislum, er slógu ljóma á tréð, sem hann sat við. Hún skundaði heim, sótti gullskál og færði honum. Hann skipti innihaldi skálarinnar í 49 munnbita og skyldi það vera eina fæða hans í 7 sinnum 7 daga. Síðan varpaði hann skálinni út í fljótið með þeim ummælum, að skálin skyldi fljóta upp á móti straumi, ef hann þaðnn dag ætti að verða Búddha. Skálin flaut andstreymis upp eftir fljótinu.

Freistanirnn, Mara, sá, að nú voru síðustu forvöð og tók að ásækja Bodhisattva. hann réðst að honum ríðandi á risavöxnum fíl, lét sér vaxa þúsund hendur og hafði vopn í hverri. Honum fylgdi mikill múgur illra og skelfilegra anda. Guðirnir skipuðu sér í varnarfylkingu umhverfis Bodhisattva, en stóðust ekki ógnanir óvinarins og flýðu allir. Bodhisattva var einn eftir. Ekki þorði Mara samt að ráðast framan að honum, heldur að baki honu, en Bodhisattva varðist með því að sökkva sér niður í hugleiðingar um hina tíföldu fullkomnun, og óvinurinn fékk ekki að gert. Þá lét hann hræðilegan storm geisa og rigna eldi og logandi björgum, en ekkert hrein á Bodhisattva. Ógnirnar urðu af blómskrúði, er dreif yfir hann. Loks bað Bodhisattva jörðina að bera sér vitni og hún svaraði með þungum drunum: "Ég er vottur þinn". Þá flýði Mara og allur hans her, en guðirnir hylltu Bodhisattva.

Nú hafði Siddharta öðlast hina fullkomnu upplýsingu, sambodhi. Hann var "Hinn upplýsti", Búddha. Á fyrstu næturvöku hvarf hjúpurinn frá fyrri tilveru hans. Hann sá alla för sína, allt frá þeirri stundu, er hann var brahmaninn Súmedha. Síðan öðlaðist hann hið "himneska auga", sá yfir alla tilveruna, sá farir og farnað allrar skepnu, orsakir allra örlaga og afleiðingar allrar breytni. Og loks á þriðju næturvöku fann hann lausnina á gátu alheimsins.


Upplýsingar:  Encyclopaedia Britannica

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM