Islam á Íslandi,

Meira um Ísland

Félag múslima á Íslandi


ISLAM
ISLAMSKIR BÆNASIÐIR
Hverju trúa múslimar?
Gerast kraftaverk í islam?

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Bænin er nauðsynlegur hluti trúarinnar og hverjum múslima er skylt að biðja. Hún er annar hornsteina trúarinnar á eftir játningu trúar á Allah og boðbera hans. Samkvæmt trúarsiðum byrjar bænin á orðunum 'Allah Akbar', sem þýðir 'Guð er mikill', ásamt hefðbundnum líkamshreyfingum og textum og endar á 'Salams', friðarkveðjum. Spámaðurinn sagði: "Bænin er grundvöllur trúar. Hver, sem temur sér hana, skapar trú sína. Hver, sem hverfur frá henni, glatar trú sinni".

1. Hvers vegna fimm bænir á dag? Guð krefst þess vegna fordæmis Mohammeds spámanns. Fimm bæna kvöðin var ákveðin við himnaför hans. Sagt er, að fólk hafi beðist fyrir allt að 50 sinnum á dag fram að því. Nú jafngildir hver bæn 10 hinna fyrri.

2. Sumar bænir eru beðnar í hljóði, aðrar upphátt og sumar eru styttri en aðrar. Hver bæn er fólgin í tveimur, þremur eða fjórum 'Rakaats'. Í hverju 'Rakaat' eru raðir orða og athafna, sem rekja má til spámannsins. Sama gildir um hljóðar bænir og þær, sem eru fluttar upphátt. Allt frá dögum spámannsins mikla voru bænir beðnar í hljóði að degi til, svo að ekki væri hægt að rekja þær til þess, sem bað, en morgun- og kvöldbænir voru beðnar upphátt.

3. Vizka islamskra bæna. Þeim er dreift yfir daginn og þær minna á stöðuga návist guðs. Þær eru hvatinn til að færa okkur nær Honum til að vonir okkar og þrár megi rætast. Hver bænastund opnar augu okkar fyrir raunveruleika tilverunnar og jafnar bilið á milli lífsins og þess, sem við tekur að því loknu. Bænin minnir okkur á skyldur okkar við Guð og náungann. Þeir, sem stunda hefðbundið bænahald, skilja innihald og áhrif bænarinnar á líf okkar og verða því að virða og meta friðinn, kyrrðina og gengið, sem hún færir okkur. Sambandið við guð næst ekki án þess að byrja með bæn. Hvetja verður börn með ákveðni að biðja frá 7 ára aldri. Spámaðurinn sagði: "Skipið börnum yðar að biðja frá 7 ára aldri og hýðið þau með staf, ef þau þrjózkast við, er þau ná 10 ára aldri". Ekki skulu börnin fara með bænir á meðan á refsingu stendur. Spámaðurinn sagði: "bænin færir biðjandann guðlegan unað og miskunn. Bænin er betri en allar veraldlegar lystisemdir".

4. Skilyrði til þess að biðja. a) Sá, sem biður, verður að vera múslimi. b) Biðjandinn má ekki vera með blæðingar, ekki vera ófrísk eða vera nýbúinn að hafa samfarir. c) Biðjandinn verður að vera kominn á réttan aldur. d) Biðjandinn verður að vera með réttu ráði.

5. Til þess að bænir virki og hvernig á að gera þær gildar: a) Samanber b) í nr. 4. Biðjandi verður að svo sér á hefðbundinn hátt fyrir bæn. b) Föt verða að vera hrein, svo og bænastaðurinn. Spámaðurinn sagði, að hreinlæti væri hluti af trúnni. c) Líkaminn verður að vera hulinn á réttan hátt samkvæmt trúnni. Karlmenn frá nafla niður fyrir hné. Konur að öllu leyti, nema aldlit og lófar. Bezt er að biðjast fyrir í hópi, 27 eru betri en einn, segir spámaðurinn.

Á föstudögum er flutt predikun í moskunum og beðnar eru tvær bænir. fólk má sleppa hádegisbæninni, ef þar sækir messu.

Spámaðurinn sagði: "Trúaðir, hættið daglegri iðju yðar, þegar kallað er til bæna í moskunum á föstudögum og komið þangað". Samkvæmt Kóraninum mega þeir, sem eru á ferðalögum, stytta bænir sínar eftir ákveðnum reglum.

Aukabænir (sunat). Þeim má hnýta framan eða aftan við skyldu-/aðalbænirnar. Þær eru margar og eru valdar eftir tilefninu. Þeim er einnig ætlað að færa fólk nær guði og eru eins og innistæða á dómsdegi. Spámaðurinn hvatti til aukabæna og bæna heimavið umfram skyldubænirnar.

SPÁMAÐURINN MÚHAMEÐ

ARABÍA og UPPRUNI MÚHAMEÐS.

(Mbl. 21. júní 1987).

Við lok sjöttu aldar var Arabía land skurðgoðadýrkunar, hjátrúar og fáfræði. Landinu var skipt milli ættflokka og kynkvísla, sem áttu í stöðugum erjum og herjaði hverjar á aðra. því verður það að teljast ganga kraftaverki næst, að einn maður skyldi gjörbreyta lífi araba á mjög skömmum tíma. Hann hét Múhameð. Hann sameinaði landa sína um ein varanleg trúarbrögð og lagði grundvöllinn að voldugu, langlífu stórveldi.

Múhameð var fæddur í Mekka um 570 e.Kr. Hann var kominn af merkum ættflokki, Koreish að nafni. Flestir merkustu menn Mekkaborgar áttu rætur að rekja til þessa ættflokks. Koreishítar voru verðir Kaba, en innan veggja Kaba voru um hálft fjórða hundrað grófar og ófágaðar guðamyndir úr steini. Látlaus straumur pílagríma kom til Arabíu úr öllum áttum til Mekka til að dýrka guði sína á helgum stað.

Múhammeð, sem hafði misst báða foreldra sína. Faðir hans lézt áður en hann fæddist og móðir hans dó, þegar hann var sex ára. Uppeldið hlaut hann hjá föðurbróður sínum, Abu Taleb, sem var kaupmaður. Þegar Múhammed hafði aldur til, varð hann úlfaldalestarstjóri hjá frænda sínum. Það var á löngum ferðum yfir eyðimerkurnar, sem honum gafst gott tóm til að sökkva sér niður í hugsanir um eitt og annað.

Múhammeð var vel metinn í Mekka. Hann var heiðarlegur, tryggur og áreiðanlegur. Hann var ekki sérlega vel máli farinn en var kurteis í framkomu, átti blítt bros og var hláturmildur. Samt sem áður fannst mörgum hann kynlegur kvistur, sakir þess, að hann var mikill dýravinur og eins fyrir hitt, að hugur hans stóð ekki til kvenna.

Í ÞJÓNUSTU EKKJUNNAR.
Þegar Múhammeð var orðinn 23 ára, réðist hann í þjónustu ekkjunnar Khatija. Hún var þá komin fast að fertugu, en hélt vel fegurð sinni. Hún varð mjög ástfangin af hinum laglega lestarstjóra og að nokkrum tíma liðnum biðlaði hún til hans. Þrátt fyrir aldur sinn, fæddi hún manni sínum sex börn, fjórar stúlkur og og tvo drengi. Drengirnir dóu í frumbernsku. Hjónabandið var einkar hamingjusamt. Það náði yfir röska tvo áratugi og aldrei lagði Múhammeð hug á aðra konu í öll þessi ár.

Múhammeð gerði ekki miklar kröfur til lífsins og auðhyggja lá honum fjarri. Þeim mun meira mat hann tóm til andlegra íhugana. Frændi Khatiju, gamall maður, sem hét Waraka, hafði oft verið í ferðum með Múhameð, þegar hann stjórnaði úlfaldalestunum. Waraka var trúskiptingur. Hann hafði verið kristinn og síðar hallaðist hann að gyðingatrú. Hann hafði frætt Múhammeð um margt í trúarbrögðum kristinna manna og gyðinga. Múhammed hafði nú nægan tíma til að hugleiða það, sem hann hafði lært, og við síaukna hugleiðslu varð hann vantrúaðri á helgisiðina í Kaba. Að lokum hafnaði hann þeim með öllu, sannfærður um, að til væri aðeins einn Guð. Í rauninni er ekkert skrýtið við það, að hann samræmdi þessa æðstu veru, Allah, herra Kaba, því að Allah er stytting á orðinu al-ilah, sem þýðir guðinn. Spámaður hlaut að boða mönnum, að Allah einn væri uppspretta alls í þessu lífi og hinu komanda og hann skyldi verða tilbeðinn. Múhammeð var fullviss um, að spámaður hans mundi koma fram fyrr eða síðar. Múhammeð hafði mikla þörf fyrir einveru. Skammt frá Mekka var turnasmiður, Mount Hira að nafni. Í litla dimma hellinum hans í fjallshlíðinni eyddi Múhameð mörgum stundum við hugleiðslu. Árið 610 kom kallið.

KALLIÐ KOM.
Dag nokkurn, þegar Múhammeð var heima hjá sér, greip hann ofsalegur skjálfti. Hann löðursvitnaði og missti meðvitund. Þegar hann hafði náð sér eftir þetta leyndardómsfulla veikindakast, hélt hann að vanda til hellisins og við næturkomu hallaði hann sér út af á steingólfið, hjúpaður skykkju sinni. Hann hafði naumast lokað augunum, þegar hann heyrði rödd kalla: "Múhammeð." Í fyrstu þorði hann ekki að opna augun, en röddin endurtók nafn hans hvað eftir annað. Loksins opnaði hann augun. Fyrir framan hann stóð skínandi björt vera. "Endurtaktu!" skipaði hún. "Endurtaktu í nafni drottins, sem skóp alla hluti og gerði manninn úr jarðarleir. Endurtaktu í nafni hins hæsta, sem kenndi mönnunum að nota penna, kenndi þeim allt, sem þeir kunnu ekki."
  Múhammeð hlustaði fullur lotningar. Þegar honum varð orða vant, sagði veran: "Ó, Múhammeð, vissulega ertu sendiboði Allah og ég er Gabríel engill." Að svo mæltu hvarf engillinn. Frá sér numinn af þessum mikla boðskap staulaðist Múhammeð út úr hellinum og flýtti sér heim, þótt hann væri mikið utan við sig. Hann vakti Khatiju og stamaði út úr sér því, sem hann hafði séð og heyrt. Á augabragði og af fögnuði tók hún á móti honum sem útvöldum spámanni Allah.

Múhameð bjóst við annarri opinberun bráðlega, en þegar svo fór ekki, ásótti hann efi og ótti. Sú saga gengur, að hann hafi verið kominn á fremsta hlunn með að fleygja sér fram af Hirafjalli í örvæntingu sinni, þegar Gabríel birtist aftur og endurtók: "Vissulega ertu Múhammeð, sendiboði Guðs." Með föstu- og bænahaldi sannfærðist Múhammeð um að köllunin hafði ekki verið draumur einn. Helztu mennirnir í trúskiptingaflokki Múhammeðs voru Abu Ekr, ríkur kaupmaður og góðvinur hans, sem átti eftir að verða fyrsti kalífinn, og Ali, ungur sonur Abu Tabeks, sem Múhammeð hafði tekið í fóstur.

Fundir fyrstu trúskiptinganna voru haldnir í fullri leynd, því að Múhammeð var ofurljóst, að Koreishítar mundu snúast gegn sér af mestu hörku. "Endurtakið," sagði hann við áheyrendur sína og þá minntust þeir orða Allah, töluð af munni hans sjálfs. Þessi orð voru seinna skrifuð á pálmaviðarblöð og eftir dauða Múhameðs var þeim skeytt við eitt handrita Kóransins.

Önnur opinberunin var þýðingarmikil. Á fjórum árum hafði hann aðeins áunnið sér 40 fylgjendur. Nú var sagt við hann: "Rís upp og aðvara." Múhameð hikaði ekki. Hann stefndi kóreishítum til fjallsins Hira. Þar sem hann stóð á kletti fyrir ofan þá, svipmikill í skykkju sinni með brennandi dökk augu og mikið skegg, sagði hann hátíðlega: "Mér hefur verið boðið að vara ykkur við. Þið öðlist enga gæfu nú eða síðar, ef þið játið ekki einum allsherjarguði. Koreishítar reiddust og vildu ekki heyra meira.

Upp frá þessu boðaði Múhammeð opinberlega fyrirmæli Allah, sem höfðu að geyma langan lista af samfélagsumbótum. Koreishítar urðu þeim mun æfari sem fleiri Mekkabúar játuðust undir nýju trúna, islam. Þeir bjuggu sig undir að kæfa hreyfinguna strax í fæðingu. Þeir hófu ofsóknir gegn Múhameð og fylgjendum hans undir forystu Abu Sofian, yfirmanns hersins í Mekka, og Abu Jahl, háttsetts liðsforingja. Múhameð var barinn og grýttur og margir þeirra, sem studdu hann bezt, voru kvaldir á hryllilegan hátt. Múhammeð var óhræddur um sjálfan sig en taldi vissan hóp manna sinn á að leita öryggis í Abyssiníu. Abu Sofian var sannfærður um, að spámaðurinn hefði í hyggju að koma þar á fót her. Því hélt hann spámanninum og nokkrum helztu fylgifiskum hans föngnum í hrörlegasta hluta borgarinnar, þar sem þeir urðu að dúsa í þrjú ár. Skömmu eftir að þeir voru látnir lausir, úttaugaðir af illri meðferð og harðleikni, andaðist Khatija.

KHATIJA DEYR.
Þegar Múhammeð stóð á fimmtugu, var hann fátækur maður, auður Khatiju var genginn til þurrðar. Það tók hann ekki svo nærri sér, því að eina þörfin, sem hann hafði fyrir peninga var að gefa bágstöddum.

Nokkrum mánuðum eftir dauða Khatiju kvæntist hann aftur, meira að segja tvisvar. Suwda var blátt áfram kona, miðaldra ekkja múslima, sem hafði látið lífið fyrir málefnið. Múhammeð gekk að eiga hana til að hún eignaðist heimili. Aisha var aðeins sjö ára. Hún var dóttir Abu Beks. Sennilega hefur Múhameð kvænzt henni til heiðurs vini sínum. Hið eiginlega hjónaband hófst þó ekki fyrr en hún varð 10 ára. Á þeim aldri hafa margar stúlkur í Austurlöndum náð því nær fullum líkamsþroska. Aisha var eina stúlkan, sem hann þekkti.

Múhammeð tók sér sex konur eftir þetta en aðeins ein þeirra, Zeinab, hreif hann, að því að sagt er. Hinar fimm tók hann saman við til að veita þeim vernd eða til að sættast við ættkvíslir, sem máttu sín mikils. Aisha, sem var gáfuð og glaðlynd, var eftirlætiskonan, þótt ekki skipaði hún rúm Khatiju í hjarta hans. Hún var óbyrja og engin eiginkvennanna ól honum son nema Khatija

FLÓTTINN FRÁ MEKKA.
Árið 620 virðist smáatvik hafa valdið straumhvörfum í lífi Múhammeðs. Hópur pílagríma frá Medína hlustaði á hann predika. Nú voru þeir Medínar eitthvað haldnir eingyðistrú, sökum þess að tveir ættflokkar gyðinga lifðu í nábýli við borg þeirra. Þeim var og kunnugt um, að gyðingar væntu spámanns. Áhrif predikunarinnar á pílagrímana voru svo sterk, að þeir sannfærðust um, að hann væri þessi spámaður. Árið eftir fóru þeir til Mekka ásamt fjölda annarra samborgara sinna, gerðust múslimar og báðu Múhammeð að koma og dveljast meðal þeirra. Heimboðið kom á heppilegasta tíma, því að ofsóknirnar voru orðnar svo miklar, að múslimar voru í stöðugri lífshættu. Múhammeð gerði sáttmála við Medínamenn, sem fól það í sér, að þeir veittu trúbræðrum hans hæli, ef hann yrði við bón þeirra. Pílagrímarnir undu vel við samninginn.

Árið 622 var ár Hegira, ár flóttans. Einn af öðrum yfirgáfu múslimar í smáhópum Mekka í fullri leynd, þar til fáeinir voru eftir í borginni. Múhameð gerði líka nauðsynlegar ráðstafanir til undirbúnings flótta þeirra. Sjálfur var hann skyndilega neyddur til að hverfa á brott.

Kvöld eitt ruddist múslimi inn í hús spámannsins með þær vondu fréttir, að Abu Sofian og Abu Jahl ætluðu að drepa hann þá um nóttina. Ali sagði honum, um leið og hann þreif skykkju föðurbróður síns, að flýja í skyndi ásamt Abu Kehr. Jafnskjótt og þeir voru farnir, skaut Ali slagbrandi fyrir dyrnar, negldi aftur gluggana, vafði um sig skykkjuna og lagðist í rúmið. Þegar morðingjana bar að, sannfærðust þeir um, að þeir kæmust ekki inn nema að brjótast inn. Þeir gægðust inn um smárifu á glugganum og komu auga á skykkju, sem þeir þekktu vel, og ákváðu að bíða unz Múhammeð gengi út að morgni. Þegar morgnaði varð þeim ljóst, að þeir höfðu verið blekktir. Múhammeð og Abu Bekr voru komnir langt inn í eyðimörkina.

Múhammeð hafði gert sér grein fyrir því, að menn koreishíta yrðu sendir eftir eftir þeim á hestum, ef hann og Abu Bekr færu á úlföldum til Medína. Hestamennirnir mundu ná þeim innan skammrar stundar. Því höfðu flóttamennirnir lagt af stað fótgangandi eftir krókaleiðum og földu sig í hellisskúta, þegar birti. Það bar svo til, að smáflokkur koreshíta, sem fann engin úlfaldaspor, fór eftir mjórri götu að skútanum. Þeir stigu þar af baki og ætluðu að leita þar en hættu við, þegar þeir sáu köngullóarvef fyrir munnanum.

Múhammeð og Abu Bekr náðu loks til vinjar í nágrenni Medína. Þar hvíldu þeir sig og böðuðu og lofuðu Allah. Fréttin um komu þeirra barst brátt til borgarinnar og mikill fjöldi múslima flýtti sér af stað til að fagna spámanninum. Múhammeð reið hvítum úlfalda inni í borgina við mikil fagnaðarlæti. Helgisögn ein hermir, að hann hafi látið þau orð falla, að hann vildi reisa helgidóm sinn þar sem úlfaldinn næmi staðar og hið vitra dýr staðnæmdist á úrvalsstað. Múhammeð hafði ekki verið lengi í Medína, þegar Ali og nokkrir aðrir múslimar, sem höfðu orðið eftir í Mekka, komu til hans.

Þrátt fyrir endurteknar kröfur þeirra Abu Sofian og Abu Jahl, neituðu Medínabúar hvað eftir annað að reka spámanninn brott. Sjóðandi af reiði sendu þessir erkióvinir Múhammeðs skæruliða til árása á úthverfi borgarinnar. Skærur áttu sér oft stað meðal araba og því sá Múhammeð ekkert athugavert við að bjóða fylgjendum sínum að gera úlfaldalestum Mekkabúa fyrirsát. Abu Sofian og Abu Jahl fengu ærið tilefni til að grípa til vopna gegn múslimum, þegar einn Mekkabúi var veginn við slíkar aðstæður.

STRÍÐSÁTÖK.
Árið 624, tveimur árum eftir flóttann frá Mekka, bárust Múhammeð þær fréttir, að Abu Hahl væri á leiðinni til Medína með þúsund manna her. Enda þótt hann hefði mótmælt blóðsúthellingum í bardögum í orðum sínum, lýsti spámaðurinn, verjandi trúarinnar, yfir Jehad, heilögu stríði.

Múhammed tókst ekki að safna saman nema u.þ.b. 300 illa þjálfuðum mönnum, sem voru auk þess illa vopnaðir. Hann fór óhræddur fyrir þeim út úr borginni og ákvað að taka sér stöðu við Jadr, sandsléttu, sem lækur rann eftir og hafði verið stíflaður víða til að mynda uppistöður. Af innblásinni hernaðarlist stillti hann "her" sínum upp í kringum lónið, sem var næst óvininum og lokaði leið að hinum. Þannig réði hann yfir vatnsbólunum og það hafði mikið að segja. Múhammeð, sem fylgdist með bardaganum frá hæð einni, sá að hersveitir Mekkamanna voru að ná yfirhendinni, þótt þeir gætu ekki slökkt þorsta sinn. Hann kastaði fullri lúku af sandi upp í loftið í átt til þeirra og hrópaði: "Fjúki hann framan í ykkur." Þá gerðist það undur, að sandstormur skall á og allt í einu stóð hann beint framan í árásarmennina. Brennheit sandkornin særðu Mekkamennina og þeir hörfuðu. "Áfram, áfram!" æpti Abu Jahl. Hann hljóp til og réðist á einn af foringjum múslima. Eftir skamman bardaga reið foringinn að Abu Jahl og hjó af honum höfuðið í einu höggi með bjúgsverði sínu. Þegar foringi Mekkabúa var fallinn brast flótti í lið þeirra.

Abu Sofian hét hefndum og á fimmta ári eftir flóttann frá Mekka hélt hann gegn múslimum með miklu stærri her. Orrustan var háð á fjallinu Uhud. Múhammeð, sem stjórnað hafði litlum liðskosti snilldarlega við Jadr, hafði gefið bogaskyttum sínum ströng fyrirmæli um að hreyfa sig ekki af staðnum, þar sem hann hafði sett þá. En illu heilli óhlýðnuðust skytturnar boði hans. Þegar óvinurinn hörfaði undan áhlaupi sverðsveita múslima og þeir ruddust fram til árásar, myndaðist geil, sem Mekkamenn komust í gegnum. Múhameð skundaði til bardagans, þar sem hann var harðastur til að safna saman liði sínu. Þar féll hann til jarðar í kastspjótaregninu og Abu Sofian rak upp siguróp, þegar hann sá það. Eftir að múslimar höfðu neyðzt til að hörfa til baka til Medína leitaði hann árangurslaust að líki Múhammeðs í valnum. Honum barst ekki um það vitneskja fyrr en á heimleiðinni, að hann hefði ekki fallið, heldur særzt lítillega. Óður af bræði safnaði hann saman óvígum her og hugðist taka Medínaborg með áhlaupi.

Persneskur trúskiptingur, langreyndur í hernaði, bjargaði borginni. Hann lagði fyrir varnarliðið að grafa nægilega breiðan skurð til að hestarnir gætu ekki stokkið yfir hann. Borgarmegin skurðarins skutu síðan bogaskyttur með ótrúlegri nákvæmni á árásarliðið. Dag eftir dag snéru Mekkamenn aftur til árása og nótt eftir nótt skulfu þeir í tjöldum sínum í nöprum vetrarkuldanum. Þá komu steypiregn og ofsarok, sem þeytti tjöldum þeirra um koll og fældi hestana. Sveitirnar héldu heimleiðis í ringulreið. Eftir þessa misheppnuðu herför minnkaði vegur Mekkabúa en að sama skapi óx vegur spámannsins.

Allar kynkvíslir í nágrenni borgarinnar söfnuðust saman um hann og tóku trúna. Múhammeð varð svo voldugur, að Abu Sofian var neyddur til að gera samning við hann, þar sem Múhammeð var m.a. leyft að fara í pílagrímsför til Mekka ásamt Medínamönnum. Riftun þessa samnings olli hergöngu Múhammeðs til Mekka á sjöunda árinu eftir flóttann frá Mekka.

MÚHAMMEÐ AFTUR TIL MEKKA.
Þegar Múhammeð nálgaðist eyðimörkina, flykktust bedúínar til hans. Hann kom með 10.000 manna her að hliðum Mekkaborgar. Abu Sofian veitti ekki viðnám og spámaðurinn hélt innreið sína í borgina. Ekki kom til blóðsúthellinga og Múhammeð þyrmdi jafnvel lífi erkióvinar síns.

Múhammeð klæddist hvítri pílagrímsskykkju, þegar hann var kominn inni í borgina og gekk til Kaba með mörgum trúbræðra sinna. Steinguðirnir voru muldir mélinu smærra. Loks hafði draumur Múhammeðs rætzt. Abu Sofian og allir Mekkabúar tóku trúna. Nú var Múhammeð í raun orðinn stjórnandi allrar Arabíu og hann gerði út sendiherra til Egyptalands, Rómar, Persíu og Abyssiníu með það fyrir augum að breiða út trúna.

ÆVILOK MÚHAMMEÐS.
Níu árum eftir flóttann frá Mekka var haldið í kveðjupílagrímsför. Fjörutíu þúsund pílagrímar fylgdu Múhammeð til fjallsins Ararat. Við dagsbrún stjórnaði hann bænum þeirra frá toppi þess og las upp fyrir þá úr Kóraninum. Þá hrópaði hann hárri röddu: "Ó, Allah, ég hef komið boðskap þínum til skila og fullkomnað verk mitt." Nokkrum árum eftir endurkomu hans til Medína úr þessari pílagrímsför tók heilsu hans að hraka. Árið 632 dó hann, þar sem hann hvíldi höfuð sitt í skauti Aisha, sem var eftirlætið hans.

Af öllum miklum leiðtogum hefur enginn verið ófrægður meira en Múhammeð. Margir óvina hans kölluðu hann, og kalla enn þá, erkisvikara. Sú ásökun er ósönn og afrekum hans verður ekki neitað. Sá, sem hefur til að bera brennandi einlægni og algera ráðvendni, getur stofnað trúarbrögð, sem laða til sín fylgjendur öldum saman.

S.G. þýddi og endursagði.

Hverju trúa múslimar?  Múslímar skiptast í tvær meginfylkingar, sunníta og shíta. Sunna þýðir erfikenning, hin rétta kenning sem Múhameð lét skrá á Kóraninn eftir opinberunum sem hann fékk frá Allah, hinum eina guði. Kóraninn er einnig orð Allah sjálfs að mati shíta en þó er nokkur munur á nokkrum veigamiklum kenningum þessara tveggja hópa.

Sunnítar styðjast við ýmis ummæli, svonefnd hadith, sem höfð eru eftir Múhameð en eru ekki í Kóraninum. Shítar styðjast einnig við hugmyndir sem ekki er að finna í Kóraninum, til dæmis um hina svokölluðu imama sem koma fram með nokkru millibili og túlka orð Kóransins. Sumir þessara imama lifa í leyndum en loks mun koma sá sem frelsar alla hina trúuðu, Mahdi, og verður þá guðsríki að veruleika.

Deilur um hver skyldi vera eftirmaður spámannsins Múhameðs ullu miklu um skiptinguna í þessar tvær fylkingar. Sunnítar urðu þeir sem héldu fram að Abu Bekr, tengdafaðir Múhameðs, skyldi verða andlegur, og að nokkru veraldlegur, leiðtogi, en þeir sem héldu fram Ali, tengdasyni Múhameðs, nefndust shítar. Þessi skipting hefur haldist æ síðan.

En íslam greinist í fleiri hópa, til dæmis vahabíta og ísmaelíta. Konungsættin í Sádi-Arabíu aðhyllist kenningar vahabíta. Ísmaelítar eru ekki fjölmennir um þessar mundir en er helst að finna í Pakistan. Munkareglur innan íslam hafa víða nokkur áhrif og meðal þeirra eru súfistar líklega þekktastir. Þeir leitast við að öðlast yfirnáttúrlega, mystíska, reynslu með íhugun og dansi.

Það sem sameiginlegt er öllum múslímum er trúin á einn guð, Allah, og að Múhameð, spámaður hans, hafi fyrir opinberun fengið að flytja mannkyni orð Allah, þau sem rituð eru á bók á himni. Sú bók er rituð á arabísku og er Kóraninn afrit hennar. Múslímar segja að Kóraninn verði ekki þýddur á aðrar tungur svo mark sé að.

Helstu fyrirmæli Kóransins eru sameiginleg öllum múslímum, vitnisburðurinn um að aðeins sé til einn guð og Múhameð sé spámaður hans, bænahald fimm sinnum á dag, fastan í Ramadan-mánuðinum, ölmusugjafir, og loks pílagrímsförin til Mekka sem sérhverjum trúuðum er ætlað að fara að minnsta kosti einu sinni á ævinni ef ekkert hindrar hann. Stundum er rætt um að hið svokallaða heilaga stríð sé ein af stoðum íslam en þar er frekar um að ræða hvatningu til trúaðra að standa vörð um trúna og verja hana fyrir óvinum og þeim sem vanvirða hana.

Lögmál um andleg og veraldleg efni, sharía, eru skýrð í Kóraninum en jafnframt er gífurlegt safn fyrirmæla um hvernig brugðist skuli við hinum margvíslegu tilvikum lífsins dregið af setningum í honum. Það er hlutverk fræðimanna af ýmsum skólum að túlka slíkar setningar.

Ennfremur er hvatt til pílagrímaferða til ýmissa annarra helgra staða. Einkum er það algengt meðal shíta. Bæði sunnítar og shítar halda fram mjög ákveðinni eingyðistrú og telja Kóraninn beinlínis orð og fyrirmæli Allah og skuli þau gilda um allt hvað eina í einkalífi, samfélagi manna og öllum samskiptum þeirra, og í ríkinu. Síðan eru margs konar atriði sem túlkuð eru á ólíkan hátt.

Í íslam er ekki nein kirkja eða prestar. Moskurnar eru bænastaðir og þar fer stundum fram fræðsla um ýmis trúarleg efni. Múhameð er fremstur spámanna Allah, en Jesús, Móses og margir aðrir eru einnig mikilsvirtir spámenn. Abraham er ættfaðir bæði múslíma og gyðinga.

Heimild:  Haraldur Ólafsson. fyrrv. prófessor í mannfræði við HÍ.  Af vísindavef H.Í.

Kraftverk, sem nefnast mu’jizãt á arabísku, gegna afar litlu hlutverki í íslamskri guðfræði, ólíkt kraftaverkum í kristinni trú. Íslamstrú afneitar þó ekki kraftaverkum en þau hafa litla sem enga þýðingu.  Fræðimaðurinn al-Ansãri, sem var uppi frá 1006-1089 eftir okkar tímatali, sagði um kraftaverk:

Sá sem gengur á vatni,
er engu meiri en strá.
Sá sem segist geta flogið,
líkist lítilli flugu.
Sigraðu eigið hjarta,
það er hið sanna kraftaverk.

Spámanninum Múhameð hafa verið eignuð nokkur kraftaverk. Í 54. súru, en svo nefnast 114 kaflar Kóransins, segir af því þegar máninn er klofinn í tvennt. Sumir túlka þann atburð sem kraftaverk Múhameðs. Sú túlkun styðst hins vegar ekki við neitt í texta Kóransins. Nú hallast menn frekar að því að túlka þennan atburð sem fyrirboða einhvers konar heimsslita, frekar en þarna sé verið að segja frá kraftaverki.

Í kristinni trú hafa kraftaverk gegnt stóru hlutverki. Heilagur Ágústínus (354-430) taldi að mesta kraftaverkið hafi verið sköpunin sjálf. Samkvæmt heimssýn Ágústínusar ganga kraftaverk þess vegna ekki gegn náttúrunni eða náttúrulögmálum heldur eru þau forsenda fyrir tilvist þeirra. Kraftaverk eru hins vegar handan okkar skilnings, á sama hátt og sköpun Guðs á heiminum er mönnunum óskiljanleg. Í stað þess að vera contra naturam eru kraftaverk samkvæmt Ágústínusi supra naturam.

Á 18. öld færði David Hume (1711-1776) fram kunn rök gegn kraftaverkum. Kraftaverk, sagði Hume, eru í eðli sínu brot á náttúrulögmálunum, annars væru þau ekki kraftaverk. Það er ekki kraftaverk að maður á besta aldri deyji skyndilega því að við vitum að slíkt gerist stundum. Það er hins vegar kraftaverk ef einhver rís upp frá dauðum, því að slíkt er alls ekki vanalegt og gerist í raun ekki. Það er náttúrulögmál að við deyjum en andstætt náttúrlögmálunum að rísa upp frá dauðum. Kraftaverk ganga þess vegna alltaf gegn allsherjar reynslu og þekkingu, annars væru þau ekki kraftaverk

Að þessum forsendum gefnum dregur Hume eftirfarandi ályktun: Vitnisburður þeirra sem telja sig hafa orðið vitni að kraftaverki vegur alltaf minna en sá margfaldi vitnisburður sem liggur til grundvallar náttúrulögmálinu sem kraftaverkið brýtur gegn. Rökin fyrir því að náttúrulögmálið hafi verið brotið eru alltaf veikari en rökin fyrir því að náttúrulögmálið haldi. Ef svo væri í raun ekki, yrði kraftaverkið að nýju náttúrulögmáli og væri þar af leiðandi ekki kraftaverk lengur.

Heimildir:
Cyril Glassé, The Concise Encyclopædia of Islam, Stacey International, London, 1989.
Adrian Hastings, Alistair Mason og Hugh Pyper (ritstj.), The Oxford Companion to Christian Thought, Oxford University Press, Oxford, 2000.

An Enquiry Concerning Human Understanding.
Vísindavefur H.Í.


TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM