Vottar Jehóva,

Meira um Ísland


VOTTAR JEHÓVA
Biblían, Jesús Kristur og Guð

.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Við trúum að sérhver ritning sé innblásin af Guði og nytsöm.' (2. Tímóteusarbréf 3:16) Sumir hafa haldið því fram að við séum ekki kristnir en það er ekki rétt. Við styðjum af heilum hug vitnisburð Péturs postula um Jesú Krist: "Ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss." -- Postulasagan 4:12.

Þar eð Jesús sagðist vera "sonur Guðs" og að 'faðirinn hefði sent sig' trúa vottar Jehóva hins vegar að Guð sé Jesú æðri. (Jóhannes 10:36; 6:57) Sjálfur viðurkenndi Jesús: "Faðirinn er mér meiri. (Jóhannes 14:28; 8:28) Við trúum þess vegna ekki að Jesús sé jafn föður sínum eins og haldið er fram með þrenningarkenningunni. Við trúum öllu heldur að hann sé skapaður af Guði og undir hann settur. -- Kólossubréfið 1:15; 1.Korintubréf 11:3.

Á íslenskri tungu er nafn Guðs Jehóva. Biblían segir: "Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Jahve [önnur framburðarmynd nafnsins], hinn hæsti yfir allri jörðunni." (Sálmur 83:19, heimilisútgáfa íslensku biblíunnar frá 1908) Í samræmi við þessa yfirlýsingu lagði Jesús mikla áherslu á nafn Guðs. Hann kenndi fylgjendum sínum að biðja: "Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn." Sjálfur bað hann til Guðs: "Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum." -- Matteus 6:9; Jóhannes 17:6.

Nafnið „Vottar Jehóva"
Vottar Jehóva álíta að þeir eigi að líkjast Jesú í því að gera öðrum kunnugt nafn Guðs og tilgang. Því höfum við tekið okkur nafn vottar Jehóva. Við líkjum eftir Jesú, 'vottinum trúa.' (Opinberunarbókin 1:5; 3:14) Jesaja 43:10 ávarpar þá sem eru fulltrúar Guðs: "Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið." (Nafn Guðs er hér sett inn í texta íslensku biblíunnar þar sem það á réttilega að standa).

Ríki Guðs
Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: "Til komi þitt ríki." Þetta ríki var kjarni prédikunar hans og kennslu. (Matteus 6:10; Lúkas 4) Vottar Jehóva trúa að Guðsríki sé raunveruleg stjórn á himnum uppi, að hún muni fara með völd yfir jörðinni og að Jesús Kristur sé ósýnilegur konungur hennar. "Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla," segir Biblían. "Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka." -- Jesaja 9:6,7.

Jesús Kristur verður þó ekki eini konungurinn í stjórn Guðs. Hann mun eiga sér marga meðstjórnendur á himnum. "Ef vér stöndum stöðugir," skrifaði Páll postuli, "þá munum vér og með honum ríkja." (2. Tímóteusarbréf 2:12) Biblían gefur til kynna að þeir menn, sem eru reistir upp til að ríkja með Kristi á himnum, séu takmarkaður fjöldi, "hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni." -- Opinberunarbókin 14:1, 3.

Eilíft líf í paradís á jörð
Að sjálfsögðu eiga allar stjórnir sér þegna og vottar Jehóva trúa að milljarðar manna, auk þessara himnesku stjórnenda, hljóti eilíft líf. Með tíð og tíma verður jörðin, sem þá verður umbreytt í fagra paradís, fyllt þessum verðugu þegnum Guðsríkis sem allir lúta Kristi og meðstjórnendum hans. Vottar Jehóva eru því sannfærðir um að jörðin verði aldrei lögð í eyði og að rætast muni fyrirheit Biblíunnar: "Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur." -- Sálmur 37:29; 104:5.

Hvenær og hvernig kemur Guðsríki?
En hvernig mun Guðsríki koma? Með því að allir menn gangi stjórn Guðs á hönd af frjálsum vilja? Nei, biblían sýnir okkur á raunsæjan hátt að koma Guðsríkis útheimtir beina íhlutun Guðs í málefni jarðarinnar: "Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki ... mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu." -- Daníel 2:44.

Hvenær mun Guðsríki koma?
Miðað við biblíuspádóma, sem nú eru að rætast, trúa vottar Jehóva að það muni koma mjög bráðlega. Við hvetjum þig til að skoða suma af þeim spádómum sem lýsa einkennum 'síðustu daga' þessa illa heimskerfis. Þá er að finna í Matteusi 24:3-14; Lúkasi 21:7-13, 25-31 og 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5.

Vottar Jehóva eru sannfærðir um að margir núlifandi menn muni lifa af þegar Guðsríki tekur völdin, og að þeir munu, á sama hátt og Nói og fjölskylda hans lifðu af flóðið, halda áfram að lifa eilíflega á hreinsaðri jörð. (Matteus 24:36-39; 2. Pétursbréf 3:5-7, 13) Við trúum samt að slík björgun velti á því að menn uppfylli kröfur Guðs eins og Biblían segir: "Heimurinn fyrirferst ... en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu." -- 1. Jóhannesarbréf 2:17; Sálmur 37:11; Opinberunarbókin 7:9, 13-15; 21:1-5.

Hlutleysi og góð hegðun
Þar sem við 'elskum Jehóva, Guð okkar, af öllu hjarta, sálu, huga og mætti, og náungann eins og sjálfa okkur,' erum við ekki sundraðir eftir þjóðerni, kynþætti eða þjóðfélagsstétt. (Markús 12:30, 31) Við erum vel þekktir fyrir þann kærleika sem birtist í kristnu bræðrafélagi okkar meðal allra þjóða. (Jóhannes 13:35; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12) Við gætum því algers hlutleysis gagnvart stjórnmálum þjóðanna. Við reynum að líkjast fyrstu lærisveinum Jesú sem hann sagði um: "Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum." -- Jóhannes 17:16.

Við trúum að það að halda sér aðgreindum frá heiminum feli í sér að forðast hið útbreidda siðleysi okkar tíma, og má þar nefna ósannsögli, þjófnað, lauslæti, hjúskaparbrot, kynvillu, misnotkun blóðs, skurðgoðadýrkun og annað slíkt, sem Biblían fordæmir. -- 1. Korintubréf 6:9-11; Efesusbréfið 5:3-5; Postulasagan 15:28, 29.

Framtíðarvon þeirra, sem eru dánir.
Vottar Jehóva trúa að hið núverandi líf í þessum heimi sé ekki allt og sumt. Við trúum að Jehóva hafi sent Krist til jarðar til að úthella lífsblóði sínu sem lausnargjaldi, svo menn geti staðið réttlátir frammi fyrir Guði og hlotið eilíft líf í nýjum heimi hans. Einn postula Jesú sagði: 'Við erum réttlættir fyrir blóð hans.' (Rómverjabréfið 5:9; Matteus 20:28) Vottar Jehóva eru Guði og syni hans innilega þakklátir fyrir þetta lausnargjald, sem gerir líf í framtíðinni mögulegt.

Vottar Jehóva hafa óbilandi trú á líf í framtíðinni sem byggt er á upprisu frá dauðum undir stjórn Guðsríkis. Við trúum, eins og Biblían kennir, að þegar maðurinn deyr hætti hann að vera til, að 'á þeim degi verði áform hans að engu.' (Sálmur 146:3, 4; Esekíel 18:4; Prédikarinn 9:5) Já, framtíðarlíf hinna dauðu byggist á því að Guð minnist þeirra og reisi þá upp frá dauðum.  Jóhannes 5:28, 29.

Allar tilvitnanir í Biblíuna eru teknar úr íslensku biblíunni frá 1981.
Texti þessarar síðu er fenginn úr smáritinu "Hverju trúa vottar Jehóva?" sem Varðturnsfélagið gefur út (T-14-IC). Millifyrirsögnum hefur þó verið fjölgað fyrir framsetningu á vefnum.

Hógvær byrjun
Í aldanna rás hafði fráhvarfið frá trúnni [þ.e. þeirri hreinu trú sem Kristur innleiddi og frumkristnir menn iðkuðu fyrstu aldirnar] teygt sig út til fjarlægustu heimshorna. Hinar fjölmörgu kirkjudeildir héldu eftir einhverjum af kenningum Biblíunnar en fylgdu í aðalatriðum erfðavenjum manna og fjölmörgum siðum af heiðnum uppruna. Eftirvænting eftir komu Krists hvarf yfirleitt í skuggann af öðru. -- Samanber Matteus 13:24-30, 37-43.

Jesús hafði þó sagt að fylgjendur hans skyldu vera vakandi fyrir endurkomu hans! Einn hópur manna, sem gerði það, hafði aðsetur í Allegheny í Pennsylvania í Bandaríkjunum. Snemma á áttunda áratug nítjándu aldar, hófu Charles Taze Russell og nokkrir vina hans rækilega athugun, óháð öllum trúfélögum, á því hvað Biblían segði um endurkomu Krists. Þeir fóru líka að leita sannleika Biblíunnar um margar aðrar undirstöðukenningar. Þetta var upphafið að nútímastarfi votta Jehóva. -- Matteus 24:42.

Ritningin rannsökuð
Þessi hópur komst að þeirri niðurstöðu að þrenningarkenningin ætti sér enga stoð í Biblíunni, heldur að Jehóva sé hinn alvaldi guð og skapari; Jesús Kristur fyrsta sköpunarverk hans og eingetinn sonur, og að heilagur andi sé ekki persóna heldur ósýnilegur starfskraftur Guðs. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að sálin sé ekki ódauðleg heldur dauðleg, að von hinna látnu byggist á upprisu og að refsing iðrunarlausra syndara sé ekki eilífar kvalir heldur tortíming.

Þeir gerðu sér ljóst að sú væri ein af undirstöðukenningum Biblíunnar að Jesús hafi gefið líf sitt til lausnargjalds fyrir mannkynið. Fyrst yrðu 144.000 karlar og konur, yfir tímabil sem næði allt frá fyrstu öldinni fram til okkar daga, og leyst frá jörðinni til að verða samerfingjar með Kristi í ríkinu á himnum. Síðan myndu ótaldir milljarðar manna, meirihlutinn með upprisu frá dauðum, öðlast mannlegan fullkomleika vegna lausnargjalds Jesú og eiga í vændum eilíft líf á jörðinni undir stjórn þess ríkis. Russell og félagar hans gerðu sér líka grein fyrir að nærvera Krists yrði ósýnileg, í anda. Heiðingjatímarnir, það tímabil þegar drottinvald Jehóva birtist ekki fyrir milligöngu neinnar stjórnar í jörðinni, myndu taka enda árið 1914. Þá yrði Guðsríki stofnsett á himnum. Þessar kenningar eru þekktar sem kenningar votta Jehóva nú á dögum.

Útgáfa Varðturnsins
Russell og félagar hans kunngerðu þessi sannindi mjög víða í ræðu og riti. Í júlí 1879 hóf Russell útgáfu tímaritsins Varð Turn Zíonar (nú nefnt Varðturninn). Hann fastákvað að prédikunarstarf biblíunemendanna skyldi eingöngu fjármagnað með frjálsum framlögum og að engin samskot skyldu fara fram. Boðskapnum skyldi dreift með ólaunuðu sjálfboðastarfi þeirra sem trúðu. Sjálfur lagði Russell sitt af mörkum með fé sem hann hafði aflað sér í viðskiptum fram að þeim tíma.

Skipulagning starfins
Biblíunemendurnir komu saman í flokkum eins og söfnuðir þeirra voru þá nefndir. Þeir komu saman allt að þrisvar í viku til að heyra erindi, nema Ritninguna og hlýða á vitnisburð. Með reglulegu millibili kusu þeir sér ábyrga karlmenn fyrir öldunga til að hafa umsjón með andlegu starfi hvers flokks fyrir sig.

Árið 1884 var Zion's Watch Tower Tract Society lögskráð í Pennsylvania sem félag er ekki skyldi rekið í hagnaðarskyni. Forseti þess skyldi kjörinn árlega. Þar með var til komið lögskráð verkfæri, er ekki var háð neinum einstaklingi, til að vinna að biblíufræðslustarfi. Charles T. Russell var kjörinn forseti og litið á skrifstofu hans sem aðalstöðvar.

Mikil vinna var lögð í að láta starfið teygja sig til annarra landa. Það náði til Kanada og Englands snemma á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1891 fór Russell í ferðalag um Evrópu og Miðausturlönd til að kanna hvað gera mætti til að vinna að útbreiðslu sannleikans þar. Í byrjun þessarar aldar voru opnuð útibú Félagsins á Bretlandseyjum, í Þýskalandi og í Ástralíu.

Árið 1909 voru aðalstöðvar Varðturnsfélagsins (Watch Tower Society) fluttar til Brooklyn í New York, í því skyni að færa enn frekar út kvíarnar prédikun fagnaðarerindisins á alþjóðavettvangi. Nauðsynlegt reyndist að stofna annað félag samkvæmt lögum New Yorkríkis, nú þekkt undir heitinu Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. Árið 1914 var Alþjóðasamband biblíunemenda (International Bible Students Association) stofnað í Lundúnum á Englandi til að efla starf biblínemendanna út um breska samveldið. Út um allan heiminn gegna nú um 70 lögskráð félög og samtök í hinum ýmsu löndum sama hlutverki og Varðturnsfélagið. Öll starfa þau sem góðgerðarfélög, rekin fyrir frjáls framlög og starf sjálfboðaliða.

Nýr forseti og aukin andstaða
Charles Taze Russell lézt árið 1916 og Joseph Franklin Rutherford tók við af honum sem forseti Varðturnsfélagsins. Á síðustu árum fyrri heimsstyrjaldarinnar sættu biblíunemendurnir hatrömmum ofsóknum sem náðu hámarki þegar átta bræður, sem gegndu ábyrgðarstörfum í aðalstöðvum Félagsins í Bandaríkjunum, voru fangelsaðir á fölskum forsendum. Hætta virtist á að starf biblíunemendanna leggðist niður. En árið 1919 var þessum bræðrum sleppt úr haldi, þeir fengu uppreisn æru og hófst nú nýr kafli í sögu votta Jehóva með auknu og víðtækara prédikunarstarfi.

Í gegnum aðalstöðvar Félagsins hélt hinn sameinaði hópur smurðra [þeir sem fengið höfðu gjöf heilags anda], kristinna biblíunemenda áfram að miðla andlegri fæðu á réttum tíma til allra einstaklinga sem tengdir voru skipulaginu. Með sama hætti og söfnuður smurðra kristinna manna á fyrstu öld myndaði þann 'trúa og hyggna þjón,' sem Jesús hafði getið um, myndar hinn smurði hópur vígðra biblíunemenda, sem starfar í þágu Guðsríkis, 'trúan og hyggin þjón' okkar tíma. Er Jesús kom til að kanna söfnuðinn fann hann þennan hóp önnum kafinn við að sjá hjúunum fyrir fæðu og setti hann þá yfir allar eigur sínar. -- Matteus 24:45-47; Lúkas 12:42.

Fagnaðarerindið prédikað
Skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina gerðu þjónar Guðs sér að fullu ljóst að ríki Guðs höndum Krists Jesú hefði verið stofnsett á himnum árið 1914. Orð Jesú gátu því fengið fullnaðaruppfyllingu: "Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma." Joseph F. Rutherford tók frumkvæðið í því að koma þessum boðskap út til enn fleira fólks en áður. -- Matteus 24:14.

Félagið ákvað því að hefja starfrækslu eigin prentsmiðju. Starfslið yrði skipað sjálfboðaliðum úr röðum hinna vígðu. Með þeim hætti yrði tryggð stöðug framleiðsla biblíurita með sem minnstum kostnaði. Allir biblíunemendur voru hvattir til að taka reglulegan þátt í að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Víða um heim var útvarpað biblíuræðum.

Fyrir 1918 höfðu biblínemendurnir skilið að tilgangur þeirra með prédikuninni væri að safna saman þeim sem eftir væru af hinum útvöldu, er ríkja ættu með Kristi Jesú á himnum, og að vara heiminn við yfirvofandi dómi Guðs. Því var lítill gaumur gefinn að safna saman þeim sem lifa ættu af endalok hins illa heimskerfis og byggja jörðina. En frá og með 1918 var ræðan "Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja" flutt mjög víða.

Árið 1923 leiddi athugun á dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana, í Matteusi 25:31-46, í ljós að fyrir Harmagedón myndi fólk, sem hneigðist til réttlætis en ætti ekki í vændum að ríkja á himnum, einnig hljóta velvild Guðs og lifa af Harmagedón. Árið 1935 leiddu ítarlegri biblíurannsóknir í ljós að þessir sauðumlíku menn væru hinir sömu og hinn ótaldi, mikli múgur manna sem lýst er í Opinberunarbókinni 7:9-17. Þeim myndi verða safnað út úr öllum þjóðum og ættu í vændum að lifa af þrenginguna miklu og hljóta eilíft líf á jörðinni. Þessi skilningur varð enn meiri drifkraftur fyrir prédikunarstarfið. -- Jóhannes 10:16.

Nafnið „VottarJehóva"

Árið 1931 tóku biblínemendurnir sér nafnið vottar Jehóva. Fram að þeim tíma höfðu þeir verið þekktir sem Biblíunemendur, Alþjóðlegir biblíunemendur, Þúsundáraríkisfólk og Varðturnsfólk. Þeir voru jafnvel uppnefndir Russellítar og Rutherfordítar. Ekkert þessara nafna auðkenndi þá réttilega. Enda þótt nafnið kristnir menn, gefið lærisveinum Jesú vegna guðlegrar forsjár á fyrstu öld, væri vissulega viðeigandi var það líka notað af fjölmörgum hópum sem fylgdu fölskum kenningum. Til að greina þá frá þeim milljónum, sem voru kristnir aðeins að nafninu til, þurfti nafn er væri greinilegt auðkenni sannra fylgjenda Krists á okkar dögum.

Af Ritningunni var ljóst að þjónar Guðs við endalok þessa heimskerfis, sem voru vígðir því hlutverki að kunngera nafn hans og tilgang, ættu réttilega að kallast vottar Jehóva, á sama hátt og Jehóva hafði sjálfur kallað Ísraelsþjóðina votta sína. Þetta nafn hefur greint sannkristna dýrkendur Jehóva vel frá öllum öðrum, sem kalla sig kristna nú á dögum.

Sálmur 83:19, íslenska biblían frá 1908; Jesaja 43:10-12.


Upplýsingar frá Vottum Jehóva.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM