Katólska trúin,

Meira um Ísland


KATÓLSKA TRÚIN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Þegar gengið er inn í katólska kirkju, hvar sem er í heiminum, sést ávallt ljós loga í rauðu ljóskeri til merkis um að Kristur – ljós heimsins – sé þar sannarlega nálægur. Í Kristskirkju er ljós þetta hægra megin við háaltarið, en í því miðju er Guðslíkamahúsið, sem er miðdepill hverrar katólskrar kirkju. Þar er hið heilaga sakramenti varðveitt; þar er raunverulega nærveru Krists að finna á öllum tímum, þegar fólk kemur til kirkju; þar krýpur það og lýtur sínum æðsta. Til að mæta þessari þörf fólksins er það regla um allan heim, að katólskar kirkjur séu opnar yfir daginn, þar sem því verður við komið.

Sú trú, að Kristur sé að sönnu í kirkjunni, byggir á raunverulegri nærveru hans í altarissakramentinu. Í hverri katólskri messu breytist brauðið og vínið í líkama og blóð Krists fyrir helgunarorð prestsins – orð Krists og mátt Heilags anda. Altarisbrauðið er frá þeim tíma líkami hans og er varðveitt nótt og dag í Guðslíkamahúsinu við mitt háaltarið. Þar er hin raunverulega nærvera Jesú Krists, sem er varanleg í hinu allra helgasta altarissakramenti – brauði lífsins, sem er Frelsarinn.

Við síðustu kvöldmáltíðina opinberaði Kristur með formlegum hætti, að hann gengi sjáflviljugur í dauðann, sem beið hans. Hann lýsti dauðastundinni á táknrænan hátt, þegar hann aðskildi vínið og brauðið við helgun þess – greindi blóðið frá líkama sínum – bar sjálfan sig til fórnar á þann hátt. Hann sagði við postulana (og eftirmenn þeirra): „Gjörið þetta í mína minningu". Það er gert í hverri katólskri messu. Presturinn ber fram heilaga messufórn fyrir Guð í nafni alls lýðsins og gerir það, sem staðgengill Krists, eins og segir í Lumen Gentium (10), 2. kennisetningu Vatíkanþingsins um kirkjuna. Í messunni er altarisfórnin borin fram fyrir Föðurinn af Kristi (fyrir þjónustu prestsins) og hinum trúuðu, sem hin eina fullkomna fórn friðþægingar, lofgjörðar, þakkar og bænar – fórnfæring hinnar einu fórnar á Golgata. Ein og á öllum tímum er fórn Krists færð daglega til nútíðar á þennan hátt í katólskum kirkjum um allan heim.

Heiðrun Maríu Guðsmóður á sér djúpar rætur í katólskum sið. Var það einnig hér á landi fyrir siðaskipti. María er mikilvægust allra dýrlinga.

Á krossinum sagði Jesús við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn." Og við lærisveinana sagði hann: „Nú er hún móðir þín." Í katólskri hugsun gegnir María móðurlegu hlutverki hjá þeim, sem eru í samfélagi við Krist og raunar hjá öllum mönnum. Margir leita fyrirmyndar hjá Guðsmóður í trúarlífi sínu og beiðast aðstoðar hennar í mörgum málum. Það er ekki tilbeiðsla – Guð einn er tilbeðinn.

„Heil sért þú, full náðar! Drottinn er með þér”, voru upphafsorð Gabríels erkiengils við boðun Maríu. Á hverjum degi, kl. 18:00, hringja kirkjuklukkurnar til Angelusbænar til að minnast kveðju engilsins og holdtekju Guðssonar Jesú Krists, sem íklæddist holdi af Maríu mey.

Signingin er ríkur þáttur í katólskri trú. Hún er kristið trúartákn og með henni játum við hinn þríeina Guð: „Í nafni Föðurins og Sonarins og hins Heilaga anda. Amen”. Þegar gengið er inn í kirkjuna, signir viðkomandi sig eftir að hafa dýft hægri hendi í annan tveggja fonta, sem innihalda vígt vatn. Signing með vígðu vatni minnir okkur á skírnina og skírnarheitið.

Skriftastóllinn, sem er hægra megin í kirkjunni, þegar inn er komið, er notaður af þeim, sem iðrast synda sinna og óska fyrirgefningar Guðs. Tákn þessarar iðrunar er, að viðkomandi játi syndir sínar fyrir presti og tákn fyrirgefningar Guðs eru aflausnarorð prestsins. Skriftir eru ekki bundnar við skriftarstólinn, heldur er hægt að játa syndir sínar fyrir presti, þar sem við á. Skriftir (sakramenti iðrunar) er eitt af sjö sakramentum katólsku kirkjunnar. Hin eru: Altarissakramentið, skírnin, fermingin, hjónavígslan, prestvígslan og sakramenti sjúkra.
 


Upplýsingar frá katólsku kirkjunni og Emil Kristjánssyni.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM