Sjintótrúin í Japan,

Meira um Ísland


SJINTÓTRÚIN í JAPAN
.

.

Ferðaáætlanir
Rútur-Ferjur-Flug

 

Sjintó (Shinto) er kínverskt orð, sjen-taó, "vegur andanna - goðanna", en japanska orðið, sem samsvarar sjen, er kami. Það er meginhugtak í þessu átrúnaði og táknar öll æðri mögn og verur, vættir, anda og guði, svo og kraft og kynngi í náttúrunni og mannlega afburði Sjintótrúin var fyrrum ríkistrú Japana. Hún er enn þá aðaltrúin í landinu og mesta sameiningaraflið. Samkvæmt henni er keisarinn afkomandi sólgyðjunnar Amaterasú-ömikami. Innra Ise-hofið í Kíótó er helgað henni og er aðalhelgidómur þessara trúarbragða í landinu. Í aðalatriðum byggist þessi trú á áadýrkunog dulúð náttúrunnar. Nú á dögum eru mörg sjintóhofanna helguð einstökum náttúruöflum eða forfeðrum. Nikkohofið, hið fegursta sinnar tegundar, var reist til dýrðar Tokugawafjölskyldunni.

Inngangurinn í sjintómusteri er hlið (Torii). Yfir því er reipi, fléttað úr hrísgrjónagrasi, tákn hreinleikans. Það á að varna óhreinum öndum inngöngu.

Ritöld hófst í Japan á 7.-8. öld. Þá var farið að skrá (kínversku letri) annála og goðsagnir. Í þessum fornu fræðum er að finna svör við því, hvernig heimurinn (Japan) varð til. Þar er líka bent á uppruna þeirrar tignar, sem fyrirmenn og göfgar ættir gerðu tilkall til, og sér í lagi þeirrar helgi, sem hvíldi á keisaranum. þá eru líka frásagnir, sem skýra tilkomu helgra muna og hefðbundinna þátta í helgihaldinu.

Þarna koma við sögu margir guðir, sem létu sín ekki getið síðar. Átökum þeirra og afrekum er lýst unz fram kemur gyðjan Amaterasú-ömikami, sólgyðjan. Hún er ættmóðir keisaranna. Hún tók við stjórn heimsins að hálfu á móti bróður sínum, stormguðnum, en hann hrakti hana á flótta og í felur í helli einum á himnum. Þar lokaði hún sig inni. En þá varð myrkur um allan heim og mátti ekki svo búið standa. Goðin settust á rökstóla og fundu það ráð að gera spegil, hengja gimsteina í trjágrein og láta gyðju stíga lostugan dans. Af þessu varð mikil gleði og gat Amaterasú ekki stillt sig um að gægjast út. Þá sá hún mynd sína í speglinum og varð hugfangin af og guðinn Handsterkur neytti færis og greip hana. Stormguðinn var gerður útlægur af himnum. Á ferðum sínum um jörðina drap hann átthöfðaðan höggorm og fann sverð í hala hans.. Amaterasú fól sonarsyni sínum og niðjum hans síðan í beinan legg að stýra Japan um aldur og ævi. Sverðið góða úr hala höggormsins komst í eigu keisarans, svo og gimsteinarnir og spegillinn, sem hér var getið. Þetta voru síðan tignarmerki keisarans. Spegillinn er í höfuðhofi Amaterasú í Ise en engum manni leyfist að líta í hann. Gimsteinarnir eru í véi keisarahallarinnar en sverðið í Amaterasúhofinu í Nagoya. Eftirlíkingar þessara jarteikna eru í sjintómusterum landsins.

Guðir Japana eru taldir átta milljónir. Upp úr 1868, þegar farið var að koma meiri skipan á hinn opinbera átrúnað, var gerð skrá um réttnefnda kami og þeir voru 3132. Þeim var raðað á skrána eftir tign. þar voru náttúruguðir, tengdir veðri, tungli, fjöllum, fljótum, trjám, frjómold. Helgi er líka á dýrum, svo sem höggormum og refum.

Hugmyndir sjintótrúar hafa aldrei verið fastmótaðar. Þær birtast ekki í ritningum, heldur í trúarlegum athöfnum, sem hafa gengið í arf frá kynslóð til kynslóðar. Með þeim hylla menn að sér hin góðu máttarvöld en fæla hin illu frá sér, hreinsa sig af saurgun, tryggja sér betri farnað.

Ættarvitund og sifjabönd voru sterk uppistaða samfélagsins og út frá þeim viðhorfum mótaðist siðavitund og þegnleg afstaða trúarinnar. Áadýrkun hefur alla tíð verið öflugur þáttur í trúarlífi Japana. Hver maður verður kami eftir dauðann. Honum er gerð brík, Kamidana, í húsi hans og þar fremur fjölskyldan helgar athafnir með líku sniði og  í hofinu.

Sjintóhof eru í mjög fornum stíl, flest smá, einföld í sniðum og ævinlega úr timbri. Þar eru engar goðamyndir, aðeins tákn (sjintai, "guðslíki"), sem varðveitt er í litlu afhýsi. Táknið getur verið spegill, sverð, steinn eða eitthvað annað. Trjálundur er venjulega umhverfis hofið. Helgi staðarins er auðkennd með hliði (torii), tveir þverbjálkar hvor yfir öðrum á sívölum stoðum, efri bjálkinn oft með þeirri sérkennilegu sveigju, sem er þáttur í listrænu yfirbragði þessara helgu húsa. Fyrir hofdyrum eru stundum dýralíkneskjur.

Prestar annast þjónustuna, flytja fornar bænir (nórító), færa fórnir (hrísgrjón, ávexti o.fl.), fremja hreinsunarathafnir og túlka vilja guðanna. Þeir eru menntaðir í háskólum eða prestaskólum. Einn prestur þjónar hverju hofi, nema hinum mestu, þar eru fleiri. Þar eru einnig hofmeyjar, sem stíga helgidansa á hátíðum og táka þátt í sýningum, þar sem leiknir eru atburðir úr goðsögnum.

Hver sem vitjar helgidómsins skal hreinsa sig áður en hann gengur inn, þ.e. dreypa vatni á fingur og skola munn sinn. Til þeirra nota eru vatnsker og ausur fyrir dyrum. Síðan leitar hann áheyrnar guðsins og færir honum fórn: Matföng og drykk eða peninga. Jafnframt flytur hann bænir sínar eða fær prest til að biðja fyrir sína hönd. Að lokum þiggur hann oft einhverjar góðgerðir, t.d. glas af rísvíni, úr hendi prests eða hofmeyja.

Árlegar stórhátíðir eru haldnar með veglegum hætti, einkum við hin miklu musteri eða þjóðarhelgidóma, sem fólk sækir hvaðanæva að til þess að horfa á litríkar sýningar, taka þátt í veizluhaldi og biðja fyrir sér og landi sínu.

Undir merkjum búddadómsins bárust áhrif æðri menningar og siðakenninga til landsins. Yfirburðir hans yfir þjóðartrúna voru ótvíræðir og hann náði skjótt miklum tökum, aðallega þó meðal hástéttanna lengi vel. En búddamenn tóku þá stefnu í Japan eins og víða að reyna að samræma trú sína þeirri, sem fyrir var. Þeir settu goð Japana í samband við hina búddísku guðdóma og dýrkuðu þau með sínu lagi. Með þessu móti fléttuðust trúarbrögðin saman og þorri þjóðarinnar var með sinn fótinn á hvorum "vegi". Svo er enn í dag. flestir sækja sjintóhofin öðru hverju. Þar eru hjón gefin saman, þangað leita menn, þegar þeir þurfa að ráða mikilvægum ráðum. En þegar dauðsfall ber að höndum, þykir oftast sjálfsagt að leita til búdda-presta um útfararathöfn.

Í sögu Japans hefur hins vegar gengið á ýmsu um sambúð þessara trúarbragða. Þau hafa notið þess eða goldið, hvernig valdamenn voru sinnaðir í þeirra garð. Búddadómur hefur notið mikilla fríðinda á löngum skeiðum en einnig sætt ofsóknum. Sjintó var oft í skugga en átti jafnan öflug, arfhelg ítök.

Á 16. öld fengu Japanar fyrstu kynni sín af kristindómi. Þá hófu kristmunkar (jesúítar) starfsemi þar, fengu góða áheyrn og varð mikið ágengt um skeið. En þá reis hörð mótstaða, vakin af fulltrúum þeirra trúarbragða, sem fyrir voru í landinu. Grimmileg ofsókn hófst gegn kristnum mönnum. Kristindómur var gerður útlægur og landinu lokað fyrir öllum útlendum áhrifum um tveggja alda skeið.

Á þessu einangrunarskeiði, einkum síðari hluta þess, hófu þjóðernissinnaðir Japanar að blása nýju lífi í hin fornu trúarbrögð landsmanna, hreinsa þau af búddískri mengun og annarri útlenzku. Lærðir menn fóru að rannsaka og túlka goð- og þjóðsagnir. Atkvæðamestur þeirra var Mótó-óri (18.öld). Lærisveinn hans, Hírata, sagði, að sjintó væri fullkomnasti átrúnaður veraldar og að guðirnir hefðu kjörið japönsku þjóðina og keisara hennar til þess að ráða yfir heiminum.

Með byltingunni 1868 hófst eindregin viðleitni í þá átt að hrinda trúmálahugsjónum þessara þjóðernissinna í framkvæmd. Búddískar myndir og tákn voru numin brott úr véum sjintó og allt búddískt atferli bannað þar. Sjintó varð að ríkistrú, prestarnir voru embættismenn ríkisins og kennsla í sjintófræðum var lögleidd í öllum skólum þess. Tveimur áratugum síðar var trúfrelsi lögleitt, enda átti svonefnd 'hrein' sjintótrú ekki djúpar rætur í þjóðlífinu og hana skorti trúarlegt aðdráttarafl. Búddadómur hélt tökum sínum. Kristni breiddist út. Fjölmargir sértrúarflokkar spruttu upp, sem voru sjintóískir í grundvallaratriðum en tileinkuðu sér ýmsar kenningar og starfsaðferðir annarra trúarbragða, einkum kristindómsins. Allt um það var sjintó hinn opinberi átrúnaður Japana fram til loka síðari heimsstyrjaldarinnar og átti ríkan þátt í þjóðerniseldmóði þeirra og hernaðaranda.

Frá fornu fari var það grunnur og aflgjafi þessarar trúar, að hylli guðanna væri orsök alls gengis. En stríðsgæfan brást. Það áfall og félagslegt umrót eftirstríðsáranna olli miklum hræringum í trúmálum. Enn urðu nýir trúflokkar til og gamlir efldust. Nýir spámenn og boðberar sögulausra trúfélaga gátu hér eins og víðar gagnrýnt hið gamla og bent á, hvað ætti sök á öllum óförum um leið og þeir vísuðu á óbrigðular lausnir sínar.

Sá trúflokkur úr jarðvegi sjintó, sem hefur fengið einna mest fylgi, nefnist tenrikíó, kenndur við borgina Tenri. Hann er ekki nýtilkominn en hans gætti lítið fyrr en á síðustu árum. Upphafsmaður hans var kona, Nakayama Miki (†1887). Hún taldi að sjálfur skaparinn hefði tekið sér búsetu í henni, þegar hún eitt sinn var í miðilsástandi, og að hann mælti síðan af munni hennar. Í Tenri hefðu fyrstu mennirnir verið skapaðir og hefði þeim verið ætlað að njóta fullkominnar hamingju. En þeir sneru fljótt baki við Guði og urðu um leið ataðir saurindum og fylltir þeirri illsku, sem í þeim bjó, græðgi, hatri og hroka. En menn geta hreinsað saurinn, upprætt illskuna, með rétri trúariðkun og yfirbótaverkum. Þó þarf hver maður að holdgast að nýju, væntanlega margsinnis, áður en marki er náð. Í Tenri er höfuðhelgidómur þessa átrúnaðar. Í sérstöku húsi við musterið er Miki tignuð. Þar er henni daglega borinn matur og búið bað á hverju kvöldi.

Trúarhreyfingin, sem hefur breiðst mest út í Japan á síðustu áratugum, er af búddískum rótum runnin og heitir Soka Gakkai ("rannsóknarfélag til sköpunar verðmæta"). Hún byggist á kenningum Nichirens. Dugmiklir og mjög þjóðernissinnaðir menn blésu nýju lífi í þær á fjórða áratug 20. aldar. Eftir stríð fengu þær óskabyr og stórmikið fylgi. sá söfnuður, sem skipar sér undir merki þessa átrúnaðar, er þrautskipulagður og mjög harðsnúinn. Hann skiptist í fámenna hópa, sem hver um sig lýtur sínum umsjármanni. hver safnaðarmaður verður m.a. að heita því að snúa þremur mönnum hið minnsta til hinnar einu réttu trúar. Margar aðrar kvæaðir verða menn að gangast undir. Alltjent einu sinni skal hver trúaður vitja hinnar veglegu miðstöðvar safnaðarins, sem er við rætur fjallsins helga, Fuji. Í musterinu þar er helgitákn (mandala), sem er þrungið krafti. Með því að horfa á það með viðeigandi ákalli öðlast menn hlutdeild í þeim krafti, læknast af sjúkdómum, komast betur áfram og stuðla að friði og farsæld í heiminum. Þetta helga vé er samkvæmt kenningunni miðdepill alls heimsins og væntanlegur höfuðstaður komandi heimsríkis.

Soka Gakkai kynnir sig sem hinn eina sanna átrúnað. Öll önnur trúarbrögð séu villa, sjintó og allar hinar mörgu stefnur búddadómsins jafnt sem önnur. Og hin röngu, spilltu trúarbrögð eiga sök á öllum ófarnaði. Þessi trú hefur náð miklum ítökum í Japan, bæði á sviði fjármála, stjórnmála og menningarmála. Mörgum stendur stuggur af örum vexti hennar, þjóðernisofstæki og svæsnum áróðri gegn öðrum trúarbrögðum.


Upplýsingar úr ýmsum ritum.

TIL BAKA          Nat.is - pósthólf 8593, 108 Reykjavik- sími: 898-0355 - nat@nat.is- um okkur - heimildir          HEIM